Morgunblaðið - 17.04.2019, Side 60
60 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 17. APRÍL 2019
AF TÓNLIST
Gunnar Valgeirsson
skrifar frá Los Angeles
Þetta gæti orðið byrjun á ein-hverju sérstöku hér í Suður-Kaliforníu,“ sagði Paul Tol-
lett, forstöðumaður hátíðarinnar,
rétt eftir að fyrstu hátíðinni lauk.
Hann hefði vart getað hugsað sér
hvað framtíð þessarar hátíðar bæri í
skauti.
Fyrsta hátíðin var haldin í
októbermánuði 1999 og var hitinn
hreint óbærilegur fyrir áhorfendur
og listafólk. Hátíðin kom út í tapi fyr-
ir Goldenvoice-fyrirtækið og Tollett
og félagar urðu að endurhugsa dæm-
ið. Þeir höfðu mest verið að bóka
punk-rokk hljómsveitir hér í Los
Angeles, en vildu breikka starfsem-
ina og notfæra sér persónuleg sam-
bönd við margar hljómsveitir til að fá
listafólk út í eyðimörkina í um 200
km fjarlægð frá borginni.
Fáir þeirra sem léku á fyrstu
hátíðinni gátu ímyndað sér hversu
langlíf og umfangsmikil hátíðin yrði.
„Við vorum bara að gera vini
okkar greiða með því að spila á
fyrstu hátíðinni,“ segir Tom Morello,
gítarleikari rokksveitarinnar Rage
Against The Machine. „Þetta voru
bara enn einir tónleikarnir fyrir okk-
ur og það var ekkert sem gaf til
kynna að þessi hátíð yrði jafn stór á
heimsvísu og hún hefur orðið.“
Á þessum tíma var engin reglu-
lega stór útihátíð hér í landi, fyrir ut-
an minni þjóðlagahátíðir í Newport
og New Orleans. Þær voru hins-
vegar algengar í Evrópu og Golden-
voice vonaðist til að geta fest hana í
sessi hér í Kaliforníu.
Breyttir tímar, breytt viðhorf
Rétt eins og í dag var tónlistar-
heimurinn að undirgangast miklar
breytingar 1999. Vinsælasta lista-
fólkið á fystu hátíðinni var allt að
blanda saman tónlistarstefnum á
ýmsan hátt, svo sem rappi, rokki og
raftónlist. Beck og Rage Against
The Machine blönduðu saman rokki
og rappi á ólíkan hátt, og bresku raf-
tónlistarmennirnir í Chemical Brot-
hers blönduðu saman rave-raftónlist
og rokki.
Fyrsta áratuginn má segja að
rokk og raftónlist hafi einkennt það
sem vinsælast var á hátíðinni.
Mitch Schneider, þekktur um-
boðsmaður í tónlistarbransanum hér
í Los Angeles, sem kom talsvert að
því að bóka listafólk fyrsta áratug
hátíðarinnar hafði það á tilfinning-
unni að kannski væri framtíð í því
sem Goldenvoice var að gera með há-
tíðina. „Ég sá fullt af fólki sem var að
horfa á rokksveitir fara þvert yfir
svæðið til að sjá Chemical Brothers í
öðru tjaldi. Það sannfærði mig um
vaxandi vinsældir raftónlistar og há-
tíðin hefur haft mikil áhrif á vinsæld-
ir hennar síðan þá.“
Undanfarinn áratug hefur tón-
listin á hátíðinni haldið áfram að
Coachella þrífst í takt við tímann
Ljósmyndir/Goldenvoice
Eftirsóttir miðar Samtals eru 250 þúsund miðar í boði á Coachella-tónlistarhátíðina og seljast þeir hratt upp.
þróast og hefur hip hop tónlistin sett
æ meiri svip á hátíðina – sem kom
best í ljós í fyrra þegar söngkonan
Beyoncé kom fram á flóknustu tón-
leikunum í sögu hátíðarinnar, en yfir
hundrað manns komu fram á sviðinu
þegar mest var. Sviðsumgjörðina,
sem var mjög sérstök, tók langan
tíma að setja upp.
Í dag er hátíðin enn á ný að
breytast og má segja að rokkið sé á
miklu undanhaldi sem leiðandi tón-
list á staðnum. Forráðamenn hátíð-
arinnar hafa ávallt reynt að taka
púlsinn á tíðarandanum og sjá fyrir
hvert stefnir hjá hátíðargestum.
Það virðist hafa tekist, því 250
þúsund miðar (125 þúsund manns
hvora helgi) seljast upp á fáeinum
klukkustundum hálfu ári fyrir hátíð-
ina þegar enginn veit hvaða listafólk
kemur fram. Ef þú ert heppinn og
nærð í miða strax, kostar hann 51
þúsund kall takk fyrir. 120 þúsund ef
þú vilt svokallaðan VIP miða með að-
gang að betri aðstöðu. Allt þetta fyr-
ir utan ferða- og gistikostnað, sem
getur verið dýr úti í eyðimörkinni,
enda stendur hátíðin yfir í þrjá daga
hvora helgi.
Poppið setur svip í ár
Þegar litið var á tónlistarfram-
boðið í ár varð mér ljóst hversu mik-
ið rokktónlistin er á undanhaldi.
Ástralska sveitin Tame Impala var
sett upp sem megin-rokksveitin og
þeir kappar virðast hafa meiri áhuga
á danstaktinum en nokkru öðru. Að
öðru leyti er áherslan nú lögð á
popplistafólk eins og Ariana Grande
og Childis Gambino, sem og
spænskumælandi stjörnur á við J
Balvin frá Kólombíu og rapp-reggae
stjörnuna Bad Bunny frá Puerto
Rico.
Breyttir tímar það, en tími kom-
inn til að stefna út í eyðimörkina enn
eitt árið – jafn gamall og maður er
orðinn.
Á opnunardeginum á föstudag
var hægt að sjá breytinguna á tón-
listinni á hátíðinni. K-Pop stúlkurnar
frá Kóreu í Blackpink voru aðalnúm-
erið í stóra Sahara-tjaldinu og þær
sýndu af hverju þær eru svo geysi-
vinsælar um alla Asíu. Þær blanda
saman allskonar tónlistarstefnum og
eru orkumiklar á sviði.
Það voru hinsvegar funk og hip
hop stjörnurnar Janelle Monáe og
Donald Glover, sem gengur undir
listanafninu Childish Gambino, sem
luku fyrsta deginum á stóra sviðinu.
Framkoma þeirra féll í góðan
jarðveg hjá hátíðargestum og Glover
gerði sitt besta til að fylgja eftir því
sem Beyoncé gerði í fyrra með
meiriháttar sviðsetningu, en það
gekk ekki alveg eins vel hjá honum,
enda drottningin sér á báti hvað það
varðar.
Margvísleg reynsla
Ég mætti á hátíðina á laugar-
dagseftirmiðdaginn og rétt eins og
undanfarin ár voru það hip hop
grúppurnar sem fylltu stærstu sviðin
og ollu mesta hávanum. Ég hafði
hinsvegar áhuga á annarri reynslu.
Rétt þegar sólin var að setjast
handan San Jacinto fjallanna suð-
vestan hátíðarsvæðisins var kana-
díska rafrokksveitin Bob Moses að
hefja leik á minna útisviðinu rétt við
blaðamannatjaldið. Ég hef gjörsam-
lega fallið fyrir tónlist þeirra undan-
farin tvö ár og fékk tækifæri til að
tala stuttlega við laga- og textahöf-
unda sveitarinnar klukkustund fyrir
tónleikana. Sveitin spilaði samþjapp-
aðan lagalista af mikilli gleði og
snilld. Þetta er vaxandi sveit sem
blandar raftónlistatöktum inn í rokk-
lög, en það fellur vel inn í nútíma-
ramma rokksins. Áhorfendasvæðin
voru full langt út grasflötina og
stemmingin dúndurfín á þessum
magnaða tíma á hátíðarsvæðinu.
Nú var hins vegar tími kominn
til að meðtaka andrúmsloftið og sýn-
ina á hátíðarsvæðinu, en þrátt fyrir
125 þúsund áhorfendur er svæðið nú
nógu stórt til að gefa manni gott út-
sýni yfir lungann af því. Þegar
dimman fer að setja svip sinn á
Coachella-dalinn breytist bæði
stemmingin og sýnin, á sama tíma og
sviðsljós og roði sólsetursins skapa
bestu stemmingu kvöldsins. Það er
einnig góður tími til að kíkja á hin
ýmsu listaverk staðarins, sem mörg
krefjast þess að maður dragi inn
andann og meðtaki reynsluna.
Nú var kominn tími fyrir mig að
finna Movave-tjaldið, en þar var nú
raftónlistin komin eftir að hafa verið
úthýst úr Sahara-tjaldinu, sem er
langstærsta tjaldið. Þar hefur nú hip
hop tekið yfir.
Á leiðinni sá ég á reggaeton
söngvarann J Balvin frá Kólombíu á
aðalsviðinu. Framkoma hans fram-
kallaði rosalega stemmingu á þeim
hluta svæðisins, en ég var staðráðinn
í að finna góða raftónlist – hvað svo
sem ungmennið væri að elta. Um leið
og ég mætti í Mohave var Bretinn
Kieran Hebden, sem gengur undir
listanafninu Four Tet að gera það
gott og ég fékk það strax á tilfinn-
inguna að ég væri kominn heim. Raf-
tónlist eins og ég hef svo oft reynt í
gegnum árin á hátíðinni var enn í
boði.
Það góða við svo stóra hátíð –
þar sem um sextíu mismunandi lista-
menn koma fram daglega – er að
maður getur búið til sína eigin dag-
skrá og reynslu. Þar að auki rekst
maður stundum á tónlist sem dregur
mann inn í eitthvert tjaldið. Í þetta
sinn var það það Four Tet sem náði
upp góðum dampi með tónlist sem
ögrar hefðundnum mörkum vinsæl-
ustu plötusnúðanna.
Ögrun á skilningarvitin
Kvöldinu hjá mér lauk með tón-
leikum Aphex Twin, sem er lista-
mannsnafn breska tónlistamannsins
Richard Davis James. Hann skipar
sérstakan sess í heimi raftónlistar-
innar, enda er hann hverflyndur
listamaður sem flækist í ótrúlega
fjölbreyttri raftónlist. Hann hefur
ávallt hundsað fjölmiðla og ekki spil-
að opinberlega í áratug þar til nú.
Undirritaður hefur hlustað á
hluta af verkum Aphex Twin í gegn-
um árin, en eftir tónleikana varð mér
ljóst af hverju það er. James var uppi
á sviði í hundrað mínútur og á þeim
tíma leið manni eins og karakter í
Pulp Fiction. Á þessum tíma réðst
hann á heyrnartólin eins og brjál-
æðingur, með hörðum rafhljóðum á
föstum takti – allt baðandi í ljósum
sem voru blindandi. Þar á milli komu
þessir yndislegu lagahlutar með
danslegum house- og teknó köflum.
Hann hefði sjálfsagt getað rúllað
þannig í gegnum allt kvöldið og gert
alla ánægða, en hann er þekktur fyr-
ir annað. Þetta er ekki tónlist sem
maður getur gleymt sér í. Hún
þarfnast athygli og maður verður að
kaffæra sig í dæminu.
Eyrun á mér mótmæltu þó.
Ég stóð mig hinsvegar eins og
herforingi og sökkti mér í reynsluna.
Hljómurinn og ljósin sem bár-
ust úr Mohave-tjaldinu hefðu getað
hrætt skrímsli í Lord of the Rings.
Ég gat vart annað en brosað
þegar ég gekk framhjá Sahara risa-
tjaldinu að útgönguhliðunum. Þar
voru um fimmtíu til sextíu þúsund
manns samankomin að hlusta á
rapparann Wiz Khalifa og félaga.
Rosastemming þar, en það var
ómögulegt að hlusta á meira eftir að
hafa verið undir árás Aphex Twin.
Á leiðinni út af hátíðarsvæðinu
heyrði ég þessa dásamlegu tónlist af
stóra sviðinu. Þar var Tame Impala
að leika vímulega tónlist sem virkaði
eins og samblanda af Pink Floyd og
Flaming Lips, með tilheyrandi ljósa-
sýningu.
Söngkonur taka yfir svæðið
Á síðasta deginum var það
rappið sem réð ríkjum, þar sem
kappar á borð við Pusha T, Rico
Nasty, YG, og Lizzo náðu rosastuði á
áhorfendasvæðunum. Raftónlistin
var þó ekki enn dauð, því house ris-
arnir Zedd og Gesaffelstein léku á
tveimur útisviðunum við sólsetur.
Það var hinsvegar popptónlistin
sem tók yfir hátíðina síðasta kvöldið
– sérstaklega söngkonur á borð við
H.E.R., japanska kventríóið Perf-
ume, Lauren Mayberry í skosku
hljómsveitinni Chvrches, og Soccer
Mommy frá Nashville.
Það var þó popp-stórstirnið Ari-
ana Grande sem lauk hátíðarhelginni
á stóra sviðinu. Þótt hennar tónlist
falli ekki að smekk undirritaðs,
svipta textar Grande hulunni af per-
sónulegri reynslu hennar sem fellur
vel inn í hugsunarheim Snapchat- og
Instagram- kynslóðarinnar.
Hún reyndi sitt besta að halda
áhorfendum við efnið, með slatta af
gestum á sviðinu, s.s. gömlu stráka-
sveitinni ’N Sync, rappkonunni Nicki
Minaj, og hip hop stjörnunum Diddy
og Mase. Gagnrýnendur voru ekki
sérstaklega hrifnir af því hvernig til
tókst, en Grande höfðar til ungs
fólks og það var yfir sig hrifið þegar
öllu þessu lauk með stórri flugelda-
sýningu að venju.
» Það góða við svostóra hátíð – þar sem
um sextíu mismunandi
listamenn koma fram
daglega – er að maður
getur búið til sína eigin
dagskrá og reynslu. Þar
að auki rekst maður
stundum á tónlist sem
dregur mann inn í eitt-
hvert tjaldið.
Fyrri helgi Coachella
tónlistahátíðarinnar fór
fram um síðustu helgi
og vorum við á Morgun-
blaðinu á staðnum eins
og oft áður. Í ár voru
tuttugu ár frá því að
hún fór fyrst fram og
hefur mikið breyst síð-
an þá, bæði hvað varðar
hátíðina sjálfa, sem og
tónlistarbransann og
tónlistarsmekk ungs
fólks yfirhöfuð.
Svöl Söngkonan H.E.R. vakti mikla lukku viðstaddra.Dulúð Japanska kvennatríóið Perfume.