Skessuhorn


Skessuhorn - 10.02.2016, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 10.02.2016, Blaðsíða 16
MIÐVIKUDAGUR 10. FEBRÚAR 201616 Ríkarður Jóhannsson fyrrverandi bóndi á Gröf í Laxárdal verður ní- ræður 14. september á þessu ári. Það eru sjálfsagt ekki margir á hans aldri sem stunda hjólreiðar sér til heilsubótar en Ríkarður, eða Rikki eins og hann er oftast kallaður, vill helst komast út að hjóla daglega. Í vetur gerði hann sér lítið fyrir og keypti sér nagladekk undir hjólið sitt svo snjór og hálka eru honum engin fyrirstaða lengur. „Tengdasonur minn gaf mér hjól- ið fyrir nokkrum árum. Í vetur fékk ég mér svo nagladekkin og kemst út við nánast hvaða aðstæður sem er. Maður má ekki vera of smeyk- ur en ef það er mikið rok þá sleppi ég því að hjóla. Ég hjóla innanbæjar og eitthvað út fyrir þorpið, minnst hálftíma til þrjú korter á dag,“ seg- ir Rikki. „Ég er ekkert að flýta mér, slappa af og anda djúpt og reglu- lega. Skrokkurinn endurnýjast með góðri öndun. Öll hreyfing hefur mikið að segja en það má samt ekki ofreyna sig.“ En Rikki er líka meðvitaður um andlega þáttinn og hefur fulla trú á að hugsunin hafi áhrif á líðan. „Það má alls ekki hugsa mikið neikvætt því hugsunin hefur svo mikil áhrif. Ef við hugsum jákvætt þá líður okk- ur svo mikið betur. Manni líður bet- ur í þessu lífi ef maður er jákvæð- ur.“ Hann efast ekki um gildi reglu- legrar hreyfingar. Fyrir einhverjum árum þurfti hann að gangast und- ir hjartaaðgerð og dvaldi á Reykja- lundi í kjölfarið. Þar var honum ráð- lagt að hreyfa sig hóflega og nota t.d. þrekhjól inni. Hann fór eftir fyr- irmælum en valdi þó ekki þrekhjól- ið. „Mér finnst betra að hjóla úti og fá hreint loft, mér finnst það bjarga deginum. Ég er miklu frískari á eft- ir. Maður má ekki láta sér leiðast þó maður sé að verða níræður,“ seg- ir Rikki með bros á vör. Hann tal- ar um að hnén séu orðin slæm og var kominn með spelkur um tíma. En nú er hann búinn að losa sig við þær og telur hann sig vita hvað þar hjálpar til. „Ég nota Voltaren krem og tel víst að hjólreiðarnar og úti- veran hjálpi mikið til. Og þar spilar góð öndun sitt hlutverk líka.“ Smíðaði sveinsstykkið í sjúkrahússbyggingunni Rikki er fæddur á Akranesi árið 1926. Hann lærði húsgagnasmíði hjá Axel Eyjólfssyni og lauk námi um það bil sem Axel flutti með fyr- irtækið sitt á höfuðborgarsvæð- ið þar sem það er enn í dag und- ir nafninu Axis. Þegar flutningur- inn átti sér stað voru Rikki og félagi hans að smíða sveinsstykkin sín. Til þess fengu þeir aðstöðu í sjúkra- hússbyggingunni á Akranesi sem þá var hér um bil fokheld. „Ég fékk nú níu komma eitthvað í einkunn fyr- ir sveinsstykkið en mér fannst það sjálfum eiginlega of há einkunn,“ segir Rikki og hlær við og viður- kennir að hann sé heldur gagn- rýninn á sjálfan sig. Sveinsstykk- ið er fallegur stofuskápur sem fylgt hefur Rikka alla hans búskapartíð og prýðir herbergi hans á Dvalar- heimilinu Silfurtúni þar sem hann býr nú. „Ætli ég hafi ekki bara einu sinni þurft að lakka skápinn upp en það var eftir að íbúðarhúsið að Gröf brann þegar við vorum nýbúin að byggja. Í brunanum tapaðist ým- islegt, mest föt og svoleiðis, en sveinsstykkið bjargaðist og fylgir mér enn.“ Hélt til Danmerkur í nám Árið 1952 ákvað Rikki að bæta við þekkingu sína í húsgagnasmíðinni og hélt til Danmerkur í nám. Hann dvaldi í Kaupmannahöfn í þrjá mánuði þar sem hann lærði m.a. meira í póleringu. „Ég hafði ein- hvern smávegis grunn í dönskunni en eftir dvölina úti hafði ég náð ágætis tökum á málinu.“ Rikki seg- ir þetta góða reynslu og bætir við: „Það er um að gera að unga fólkið fái að njóta sín, maður man þegar maður var sjálfur ungur.“ Þegar hugurinn er kominn út fyrir landssteinana kemur í ljós að Rikki hefur sótt fjögur önnur lönd heim: Spán, Kýpur, Mexíkó og Kúbu. Þar kynntist Rikki tals- vert annarri menningu en hann á að venjast og segir: „Spánn stend- ur upp úr. En það var svolítið sér- kennilegt í Mexíkó, þar skynjaði ég öfund út í fólk sem átti eitthvað. Sérstaklega varð ég var við þetta hjá leigubílstjórunum. Svo þótti mér sérstakt á Kúbu að allir bílar sem við Íslendingar vorum löngu búnir að henda voru þar á fullri ferð. Þar voru engin umferðarljós en mikil tillitssemi í umfeðinni. Þetta þok- aðist áfram í rólegheitum.“ Örlögin ráðin á balli á Nesodda Í lok sjötta áratugarins fór Rikki að vinna við smíðar í Reykholti en þá var verið að taka skólann þar í gegn. Eitt gott kvöld ákváðu félagarnir að sækja ball í Dalina og reyndist það aðdragandinn að því að Rikki átti eft- ir að flytja í Dalina. „Við fórum á ball á Nesodda og þar með voru örlögin ráðin. Þar kynntist ég konu minni, Guðbjörgu heitinni Sigurðardóttur og giftum við okkur á Kvennabrekku nokkr- um árum síðar. Við fórum að búa á Gröf árið 1962 og eignuðumst sam- an tvö börn, Margréti árið 1962 og Jóhann árið 1964.“ Guðbjörg var frá Gröf og tóku þau hjónin við búinu af foreldrum hennar. Gröf er enn í eigu fjölskyldunnar og býr Jóhann sonur þeirra þar ásamt fjölskyldu sinni og stundar búskap. „Það var gott að geta skilað búinu skuldlausu. Þetta var oft basl og mikl- ar breytingar sem áttu sér stað í bú- skapnum, sérstaklega í sambandi við heyið. Eitt sinn fór ég að salta heyið, skepnunum líkaði það vel. Þetta var í raun neyðartilvik á þeim árum sem kalið var á túnunum. Það var mikill arfi og illa gekk að þurrka heyið. Þá fór ég að salta og gekk það prýðilega, en ekki mátti ofgera, það varð að vera hæfilegt salt.“ Spilar á saxófón og trommur Þeir sem þekkja til Rikka vita að hann hefur ánægju af tónlist og spilar á saxófón og trommur. Hann hefur hljóðfærin hjá sér á Silfurtúni og tek- ur reglulega í þau. Rikki er sjálflærð- ur og segir að mesti feillinn hafi verið að læra ekki meira í tónlist. „Ég fór í einn eða tvo tíma í tónlistarskóla. Það er verst þegar áhuginn dreifist á marga þætti í lífinu því þá er erfiðara að ná góðum tökum á því sem maður ætti kannski að einbeita sér að,“ seg- ir Rikki. Tónlistin hefur alltaf fylgt Rikka og var ágætis tónlistarlíf á heimilinu þegar hann ólst upp. Móðir hans söng og spilaði á orgel og faðirinn spilaði einnig á orgel. “Pabbi var organisti í líklegast fjögur ár í Akraneskirkju en mamma var samt meira í tónlistinni,“ rifjar Rikki upp. Hann hefur margoft komið fram á viðburðum í Dölum og m.a. spilaði hann á trommur með harmonikkusveitinni Nikkólínu. Horfir ánægður til baka Þegar aftur er vikið að hjólreiðun- um segir Rikki að hann hafi byrjað ungur að hjóla og að hann hafi not- að þennan góða fararskjóta mikið á Akranesi. En eftir að hann flutti í Dalina duttu hjólreiðarnar niður þar til nú á efri árum. Rikki minnist þess að hafa fengið reiðhjól í fermingar- gjöf og segir með áherslu: “Það var góð gjöf.“ Við Rikki spjöllum um margt og þótt hjólreiðarnar hafi fangað athygli mína í upphafi kemur margt annað áhugavert í ljós. Rikki hefur góða lífs- speki til að miðla og eins og árin telja hefur hann upplifað margt. „Þegar ég lít til baka þá hefði ég ekki viljað missa af neinu. Þótt sumt sé erfitt þá má ekki láta það buga sig. Ég horfi ánægður til baka,“ segir hjólreiða- kappinn níræði með brosi á vör. sm Níræður og hjólar um á nagladekkjum Rikki í Gröf býr nú á Silfurtúni. Ljósm. sm. Á fullri ferð á hjólinu. „Ég hjóla innanbæjar og eitthvað út fyrir þorpið, minnst hálftíma til þrjú korter á dag,“ segir Rikki. Vorið 2008 hélt Harmonikkufélagið Nikkólína upp á harmonikkudaginn með tón- leikum í Grunnskólanum í Búðardal. Rikki var á trommunum. Ljósm. bae.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.