Litli Bergþór - May 2019, Page 46

Litli Bergþór - May 2019, Page 46
46 Litli-Bergþór Bræðratungukirkja og munir hennar Geirþrúður Sighvatsdóttir: Bræðratungukirkja, sú er nú stendur, var reist árið 1911 og vígð á nýjársdag 1912. Lítil falleg timburkirkja, teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara ríkisins og smíðuð af Ólafi Jónssyni í Skálholti, ættuðum úr Landeyjum, en hann var mágur Sigurðar Ísleifssonar, bónda á Bergsstöðum, sem þá var formaður sóknarnefndar. Lærlingur hans, Jón Vigfússon, smíðaði predikunarstólinn samkvæmt frásögn Sveins Skúlasonar (5). Kirkjan þykir ákaflega hlutfallagóð og rúm miðað við stærð. Kemur það mest til af því að það er hátt til lofts, þar sem ekki hefur verið klætt neðan á skammbita. Burstalaga gluggarnir setja einnig sérstakan svip á kirkjuna, sem og turninn með háu pýramídalöguðu þaki, sem sveigist út að neðan. Kostnaður við smíði kirkjunnar varð alls 2,578 krónur og 83 aurar segir í bókinni Kirkjur Íslands, en þess er ekki getið hvernig sá kostnaður var greiddur. Telja má þó víst að danskir eigendur Bræðratungutorfunnar þá hafi greitt byggingarkostnað að mestu (6). Vitað er að byggingarárið 1911 keypti Jón Vídalín konsúll og kaupmaður, sennilega að undirlagi Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar, altarisstjaka, tvo stóra úr bronsi, sem verið höfðu í gömlu kirkjunni, og taldir eru vera frá 14. öld. Þeir eru nú á Vídalínssafni í Þjóðminjasafninu. Má hugsa sér að andvirðið hafi runnið til kirkjubyggingarinnar, þó ekki sé það sannað. Gaf Jón kirkjunni aðra altarisstjaka, minni, í stað þeirra stóru er hann keypti, en þeim var kastað á haug og urðaðir með gamla bænum í Tungu, þegar hann var rifinn um 1977, „þar sem þeir þóttu svo ómerkilegir og lítilfjörlegir“, er haft eftir Sveini Skúlasyni í símtali við hann árið 2002 (1). Saga Bræðratungu í stuttu máli Kirkja hefur verið í Tungu frá því um 1200 að minnsta kosti og var hún helguð Andrési postula, sem var dýrlingur sæfarenda. Ástæða þess að kirkjan var helguð Andrési gæti verið, að það voru afkomendur Ásgríms Elliða-Grímssonar sem áttu jörðina, en þeir áttu skip í förum. Í Bræðratungu var bændakirkja allt til ársins 1899, en þá tók söfnuðurinn við kirkjunni í lélegu ástandi. Var kirkjan sem þá stóð orðin fúin mjög, en hún var byggð árið 1845 af Magnúsi Jónssyni í Austurhlíð. (Magnús bjó í Austurhlíð 1835-1861, varð síðar kaupmaður í Reykjavík og kenndur við Bráðræði). Var hún rifin árið 1911 er nýja sóknarkirkjan var byggð. Bræðratunga var höfðingjabýli fyrr á öldum og sögustaður. Vitað er að Gissur Þorvaldsson sat Tungu árið 1241 og eftir að hann gerðist jarl sat Klængur bróðursonur hans þar. Síðan sátu Tungu sennilega áfram aðrir af ætt Mosfellinga eða Haukdæla. Árið 1495 átti Sólveig, dóttir Björns ríka Þorleifssonar, jörðina og gaf hana sonum sínum þeim Þorleifi og Jóni. Telja sumir að frá þeim tíma hafi jörðin heitið Bræðratunga. Mágur hennar, Guðni í Ögri erfði Tungu og gaf hana Helgu dóttur sinni, konu Torfa í Klofa, er var sýslumaður Rangæinga. Gísli lögmaður Hákonarsonar, keypti jörðina 1617 og eftir hann bjuggu synir hans, fyrst Vigfús og síðan Hákon, sá er giftur var Helgu Magnúsdóttur, maddömunni í Bræðratungu, þeirri sem skaut skjólshúsi yfir Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups. Sá höfðingi er síðast átti jörðina, og bjó þar, var Magnús Gíslason amtmaður, en hann flutti þaðan 1745. Hann var systursonur Þórdísar

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.