Litli Bergþór - mai 2019, Síða 50
50 Litli-Bergþór
Krossinn
Páll M. Skúlason:
Það er ekki á allra vitorði lengur, en
frá sumrinu 1952 og til 1971 starfrækti
Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands
sumardvalarheimili fyrir Reykjavíkurbörn
í Laugarási. Þetta barnaheimili kallaðist
„Krossinn“ í daglegu tali.
Þegar fyrstu börnin komu til 8 vikna
sumardvalar í júní 1952 var ýmislegt með
öðrum hætti en nú er, eins og vænta má.
Það voru enn 5 ár í að Hvítárbrúin yrði að
veruleika, og föst búseta var í 5 húsum og
íbúarnir voru að hámarki 18, en líklega 15-
16, en þetta fer eftir því hvernig er talið.
Í læknishúsinu bjuggu þau Knútur
Kristinsson og Hulda F. Þórhallsdóttir, líklegast með systurdóttur Huldu, Huldu Knútsdóttur, en hún var
kjördóttir þeirra.
Í Hveratúni bjuggu Guðný Pálsdóttir og Skúli Magnússon með dætrunum Ástu (5 ára) og Sigrúnu
(3 ára).
Á Sólveigarstöðum bjuggu Jón Vídalín Guðmundsson og Jóna
Sólveig Magnúsdóttir, líklegast ásamt tveim börnum Jónu, þeim
Magnúsi Þór Harðarsyni (6 ára) og Hildi Eyrúnu Gísladóttur (3 ára).
Í Helgahúsi bjuggu Helgi Indriðason og Guðný Guðmundsdóttir. Þá
voru þau fædd, Birgir Stefánsson (4 ára) og Gróa Kristín Helgadóttir
(á 1. ári), en ekki er ljóst hvort þau voru þá komin í Laugarás, en það
telst fremur ólíklegt.
Á Lindarbrekku voru þau nýkomin Jónína Jónsdóttir og Guðmundur
Indriðason og með þeim var sonurinn Indriði (1 árs).
Af þessu má ljóst vera, að 120 barna sumardvalarheimili breytti
talsvert lífinu í Laugarási á sumrin og mögulegt að einhverjum hafi
þótt átroðningur af þessari sendingu í sveitina.
Það er ekki óeðlilegt að velta því fyrir sér hvað kom til að Laugarás
var valinn fyrir heimilið, en meginástæðu þess má rekja til þess, að
Sigurður Sigurðsson, berklalæknir og síðar landlæknir,
hafði komið sér þar upp sumarhúsi á Krosshól, eða
Sigurðarstöðum. Hann var formaður RKÍ á þeim tíma
sem ákvörðun var tekin um staðsetningu og lagði til í
stjórninni að reynt yrði á fá land á leigu í Laugarási fyrir
heimilið.
Langur aðdragandi
Það var nú ekki eins og þetta hafi allt gerst í skyndingu, en það má segja að aðdragandinn
hafi verið ein 20 ár, því 1932 byrjaði Rauði krossinn að koma að sumardvöl kaupstaðarbarna
með fjárstyrk, en varð svo smátt og smátt virkara í aðkomu sinni. Á stríðsárunum leit út fyrir
að mögulega þyrfti að vera hægt að flytja börn úr bænum og því stofnaði Rauði krossinn
sumardvalarnefnd til að halda utan um þetta verkefni. Í lok stríðsins voru um 300 börn á
vegum Rauða krossins vítt og breitt um landið á sumrin, aðallega á sveitabæjum, en einnig í
skólahúsnæði.
Var
einhverntíma
hent sprengjum á
Reykjavík?
Barnaheimili RKÍ í laugarási, 1960. (mynd Matthías Frímannsson).
Loftmynd af Laugarási 1964.
(mynd Landmælingar Íslands).