Víkurfréttir - 19.12.2019, Qupperneq 10
Búin að semja síðan hún var lítið barn
„Ég byrjaði að semja ljóð um leið og ég gat
skrifað, sex ára gömul, og er enn í dag að semja.
Mér fannst gaman að ríma og það gat verið
fyndið, fannst mér, þegar ég lét sum orð ríma
saman. Svo fann ég það seinna þegar ég varð
unglingur hvað ljóðin hjálpuðu mér í gegnum
tilfinningarót unglingsáranna. Þá hélt ég dag-
bók og geri enn því mér finnst gott að fara yfir
daginn og skrifa niður hugrenningar mínar í
lok dags. Persónulegar dagbækur gera manni
gott,“ segir Gunnhildur í upphafi samtalsins.
Ljóðskáld getur hún án efa kallað sig í dag því
Gunnhildur nánast andar út úr sér ljóðunum,
sem koma flögrandi til hennar þegar minnst
varir. Þá grípur hún orðin sem mynda nýtt
ljóð og skrifar þau strax niður í bók sem hún
er alltaf með á sér, hvert sem hún fer.
„Ég hefði átt að verða listamaður, starfa ein-
göngu við það, því ég fæ aldrei frið. Ég er alltaf
að fá hugmyndir, meira að segja þegar ég syndi
þá kemur til mín ljóð en ég geri mikið af því að
synda. Ljóðin koma bara allt í einu og ég er alltaf
með skissubók í töskunni til að skrifa og teikna
í en ég fæ einnig hugmyndir að teikningum,“
segir Gunnhildur sem kennir við Myllubakka-
skóla í Reykjanesbæ.
Lærði á Englandi
„Ég kenni listgreinar, myndmennt og textíl-
mennt, leir og gifsmótun en ég er að kenna
nemendum að skapa lágmyndir, skúlptúra og
nytjahluti. Svo kenni ég spænsku og frönsku í
vali. Myllubakkaskóli er hverfaskóli okkar, mín
og fjölskyldu minnar, og því eru börnin okkar
einnig nemendur þar. Við hjónin eigum fjögur
börn á aldrinum sex til fimmtán ára, fjóra syni,
þannig að það er nóg að gera á stóru heimili en
samt finn ég alltaf tíma til að búa til og skapa.
Stundum geri ég það eldsnemma á morgnana,
í þögninni þegar stóðið sefur og stundum seint
á kvöldin þegar allir eru komnir í ró. Þá vaknar
í mér sköpunarþörfin og ég byrja að mála eða
búa til ljóð. Núna er ég einnig að skrifa bók
sem kallast Baráttubókin,“ segir ljóðskáldið
og myndlistarkonan Gunnhildur sem á að baki
heilmikla menntun í faginu.
„Við bjuggum í Englandi í mörg ár en ég var að
læra þar og maðurinn minn er frá Englandi. Við
fluttum hingað í Reykjanesbæ þegar við áttum
von á fjórða drengnum okkar því hér búa for-
eldrar mínir, hér eru rætur mínar. Það var allt
of dýrt að koma svona stórri fjölskyldu fyrir í
höfuðborginni en hér gátum við eignast nógu
stórt húsnæði fyrir okkur öll. Ég lærði mynd-
list og listasögu í Englandi og er með tvíhliða
BA gráðu í þeim fræðum. Ég er núna að klára
diplómagráðu í kennslufræðum við Listahá-
skóla Íslands. Að auki er ég með meistaragráðu
í liststjórnun en alla þessa menntun kláraði
ég í Bretlandi,“ segir myndlistarkonan Gunn-
hildur sem hefur marga titla til að skreyta sig
með en umfram allt segist hún vera unnandi
tungumálsins og blandar því og myndlistinni
saman þegar hún er að skapa.
Myndlist og ljóðlist tvinnast saman
„Fólk þekkir mig kannski frekar sem myndlistar-
konu en ég blanda oft saman ljóði og myndlist.
Í ljóðabókunum eru ljóðin mín bæði á íslensku
og ensku og þar er einnig myndlist. Túristar
eru forvitnir um íslensk skáld og þeir kaupa
gjarnan bækur mínar í safnbúðum listasafna. Að
skrifa er svo eðlilegt fyrir mér og svo eðlislægt
að blanda saman teikningu og skáldskap, þetta
styður hvort annað hjá mér,“ segir Gunnhildur.
Listaverkefnið Skáldaskápur var formlega opnað
laugardaginn 16. nóvember á Degi íslenskrar
tungu í Bókasafni Reykjanesbæjar en það er
einmitt hugarfóstur listamannsins Gunnhildar
Þórðardóttur. Markmið verkefnisins er að hvetja
íbúa Suðurnesja til þess að semja ljóð, smásögur,
vísur, kvæði og efla skapandi skrif.
Skáldaskápur er fyrir alla
„Mig langar að vekja athygli á skapandi þætti
skrifa. Allir kennarar eru í raun íslenskukenn-
arar. Ljóð eru örsögur sem ná að fanga tilfinn-
ingar finnst mér, það felst í því ákveðin heilun
að semja ljóð. Mér finnst frábært þegar fólk vill
deila með öðrum ljóðin sín, maður er að afhjúpa
sig með ljóðinu en það getur hver túlkað á sinn
hátt alveg eins og það getur hver túlkað myndlist
á sinn hátt. Ljóðið er þetta myndræna tungumál
sem við eigum. Það er ekkert eitt rétt í krufningu
ljóða, allir geta sagt skoðun sína. Skilningur á
ljóðum fer eftir reynsluheimi hvers og eins og
þar af leiðandi skilja þau ekki allir á sama hátt.
Þeir sem treysta sér ekki til að skrifa sögu geta
kannski frekar búið til órímað eða rímað ljóð.
Það er svo mikilvægt að fólk geti tjáð sig og ekki
síst nú á tímum þegar við lifum í rafrænni veröld
þar sem samskipti fara oft fram á netinu. Það
eflir gagnrýna og jafnframt skapandi hugsun
að geta skrifað. Öll skapandi skrif efla að auki
læsi og máltilfinningu. Áður fyrr var mikilvægt
að kunna að fara með kvæði, ljóðmæli og rímur,
allskonar kveðskapur naut virðingar,“ segir
Gunnhildur og samræður okkar spinnast aftur
í gamla tíma þegar nemendur voru látnir læra
ljóð og kvæði utan að í skólanum, standa upp
og flytja þau fyrir framan bekkjarfélaga sína.
Orðafátækt að aukast á meðal barna
„Það var sláandi að heyra niðurstöður PISA-
könnunarinnar um daginn þegar sagt var frá
því að rúmlega þriðjungur íslenskra drengja
nær ekki grunnhæfniviðmiðum lesskilnings
samkvæmt niðurstöðu PISA. Ef við ætlum að
hysja upp um okkur buxurnar þá trúi ég því
að ljóðin hjálpi okkur að efla máltilfinningu og
gæti einnig verið leiðin að læsi og meiri lestur
bóka að sjálfsögðu. Það gefur okkur svo mikið
að geta tjáð okkur hvert við annað. Í því liggur
niðurstaðan, að jafnvel kynslóðirnar munu ekki
skilja hvor aðra lengur, skilja ekki orðin sem
notuð eru í samskiptum ef við spyrnum ekki
við fæti. Ljóð er góður kostur til að vinna með
í skólum og hægt að örva alla málþroskaþætti
barna með ljóðavinnu, blanda henni saman
við myndlist og leiklist, tónlist og fleiri náms-
greinar. Ljóðin henta vel við kennslu í hrynjandi
og öðru sem eflir máltilfinningu. En það sem
mér fannst ánægjulegt í þessum niðurstöðum
var að tilfinningaleg vellíðan er mikil í nem-
endum íslenskra skóla,“ segir Gunnhildur sem
er greinilega annt um íslenska tungu og að hún
haldi sterkri fótfestu sinni.
Verðlaunað ljóðaskáld
Gunnhildur Þórðardóttir vann nýlega til ljóða-
verðlaunanna Ljósberinn. Hún semur ekki
aðeins ljóð heldur teiknar hún einnig myndir
við ljóðin sín. Nýja ljóðabókin hennar heitir
Upphaf - Árstíðarljóð en þar bregður kímni
hennar einnig fyrir.
„Bókin er skrifuð eftir fjóru árstíðunum sem
ég man vel eftir úr æsku minni en í dag finnst
mér árstíðirnar vera orðnar aðeins tvær. Ég
man vel eftir snjónum og við vorum stundum
á skautum um bæinn þegar ég var barn. Þá var
heldur ekki verið að salta göturnar og snjórinn
fékk að þjappast meira niður og við krakkarnir
gátum leikið okkur í snjónum. Snjórinn hefur
minnkað, það er staðreynd sem við horfumst
í augu við. Ég er að hugsa um hnatthlýnun í
nýju bókinni minni, það er samt húmor í ljóð-
unum mínum en ég hef dálítið kaldhæðinn
húmor. Svo er ég að gagnrýna samfélagið á
kímnifullan hátt. Ljóðin fjalla um persónur,
viðburði og rómantík. Ég held að fólk finni sig
alveg í þessum ljóðum. Ég hvet fólk til að gefa
ungu fólki ljóðabók í jólagjöf og opna þannig
ljóðaheiminn fyrir þeim. Ég var og er alltaf að
lesa ljóðabækur eftir aðra og semja sjálf. Það er
gaman að sjá hvernig fólk semur mismunandi
ljóð. Ég er sjálflærð í ljóðagerð eins og önnur
ljóðaskáld. Ég ákvað að gefa út ljóðin mín því
ég hef trú á sjálfri mér sem ljóðaskáldi. Ég átti
engan sérstakan kennara í uppvextinum sem
hvatti mig til að semja ljóð, þó að ég hafi átt
marga góða kennara. Það er bara í mér að semja.
Ég myndi þó segja að íslenskutímarnir í Myllu-
bakkaskóla þegar ég var barn hafi hjálpað mér
og þroskað mig í þessa átt. Þá vorum við með
ljóðasafnið Ljóðspor sem mér fannst gaman
að lesa. Þá voru nemendur látnir standa upp
og fara með ljóðið fyrir framan bekkinn. Ég
man að kennari minn, Ingólfur Matthíasson,
sem mér fannst frábær kennari, hvatti okkur
til að fara með ljóðin af tilfinningu. Þetta var
heilmikil þjálfun að standa upp og fara með ljóð
fyrir framan aðra en er samt svo nauðsynlegt.
Þá vorum við að skrifa niður ljóðin og mynd-
skreyta á okkar hátt, stundum voru þau sungin
ef búið var að semja við þau laglínu. Urð og grjót
og Maístjarnan eru mér enn í fersku minni. Ég
veit að það eru einhverjir kennarar sem leggja
áherslu á ljóðið en ekki margir, ég held að þetta
sé mjög áhrifarík móðurmálskennsla, kennslu-
form sem er mjög oft vanmetið ef kennarar eru
hættir þessu,“ segir Gunnhildur að lokum, um
leið og hún leyfir okkur að gægjast inn í nýju
ljóðabókina hennar; Upphaf - Árstíðarljóð
Ljóð næra
sál mína
Við erum líklega öll fædd með
ákveðna hæfileika, snemma beygist
krókurinn. Spurningin er hvað
verður úr hæfileikum okkar?
Gunnhildur Þórðardóttir hefur
samið ljóð frá því að hún man eftir
sér og fimmta ljóðabókin hennar
er nýkomin í bókaverslanir.
Við hittum Gunnhildi ljóðskáld rétt
áður en óveðrið skall á í liðinni viku
og spurðum hana út í kveðskapinn.
Mar ta Eiríksdóttir
marta@vf.is
VIÐTAL
Svört beð
Í veðsettri víðáttu eru fjarskyldir farmiðar
til sölu.
Á brautarstöðinni eru hamingjusamar hænur
í leit að æti.
Þar er lýst eftir mannshvarfi.
Í túnfætinum eru rammvillt blómabeð
í svart hvítu.
Ofbirta í augum og sólbruni.
Á vegi mínum strekktar sálir
elskenda.
Í leit að innri frið.
Oculus
Auga jarðar fylgist grannt með
galopið gullinsnið.
Hringlaga í óvissu sinni
og endalausu formi.
Fiðraður gítar og kvalafullt kvæði
sungið sem lækningaljóð.
Vélrænn hjartsláttur
heitur og hreinn.
Snerti tómið með fingurgómum
fell í kalda vök.
Til þess eins að vakna
finn minn innri styrk.
Get tekist á við allt.
Heil í hjartanu.
Heil með þér.
Öll skapandi skrif efla að
auki læsi og máltilfinningu.
Áður fyrr var mikilvægt
að kunna að fara með
kvæði, ljóðmæli og rímur,
allskonar kveðskapur naut
virðingar ...
10 MANNLÍF Á SUÐURNESJUM f immtudagur 19. desember 2019 // 48. tbl. // 40. árg.