Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Page 8
8 | Tímarit hjúkrunarfræðinga
Stjórnarseta mín hjá Félagi íslenskra
hjúkrunarfræðinga hófst fyrir
11 árum en þá var ég formaður
fagdeildar bráðahjúkrunarfræðinga.
Ég hafði óþrjótandi áhuga á fag- og
félagsmálum hjúkrunarfræðinga og
vildi leggja mitt af mörkum þó ekki
hafi ég þá vitað hvert sú vegferð
myndi leiða mig.
Í formannstíð Ólafs G. Skúlasonar var
ég varaformaður félagsins og árið 2016,
þegar hann hvarf til annarra starfa á miðju
kjörtímabili, tók ég við embætti formanns eins
og lög félagsins kveða á um. Þó fyrirvarinn hafi
verið stuttur var mér ljúft og skylt að taka við
stjórnartaumunum enda komin með nokkra
reynslu í félags- og stjórnarstörfum.
Ég hef ekki séð eftir þeirri ákvörðun. Á því
ári sem ég leysti Ólaf af varð mér einnig ljóst
að ég hefði heilmikið fram að færa og taldi
mína áratugareynslu í hjúkrun geta nýst vel í
áframhaldandi baráttu í félags- og kjaramálum
hjúkrunarfræðinga. Þetta er klárlega eitt
af skemmtilegri og meira gefandi störfum
sem ég hef sinnt og segja má að ég stundi
áfram hjúkrun daglega í samskiptum mínum
við félagsmenn og aðra í fjölbreyttum og
óþrjótandi verkefnum sem öll hverfast um
hjúkrun á einn eða annan hátt.
Samstaða einkennir stéttarvitund
hjúkrunarfræðinga
Þegar ég tók við formannsembættinu í mars
2016 skynjaði ég vissa deyfð og vonleysi meðal
hjúkrunarfræðinga í kjölfar gerðardóms frá
í ágúst 2015. Greinilegt var í samræðum við
hjúkrunarfræðinga að þeir mátu dóminn sem
visst ofbeldi í baráttu þeirra fyrir bættum
kjörum og fannst yfirvöld hafa endanlega
hunsað sig. Gerðardómurinn skapaði viss
tímamót í baráttu hjúkrunarfræðinga í
kjaramálum sem ég tel að við gætum átt –
því miður – eftir að sjá raunveruleg áhrif af í
framtíðinni. Það tók vel á annað ár að ná
hjúkrunarfræðingum saman á ný en sem betur
fer er staðan önnur í dag. Þrátt fyrir að mikill
kraftur og samstaða einkenni stéttarvitundina
óttast ég að langt sé í land að trú og traust
til yfirvalda skapist á ný þar sem það beið
mikinn hnekki við gerðardóminn. Á sama tíma
hefur fagvitund hjúkrunarfræðinga styrkst
og merki ég það á þátttöku í þeim viðburðum
sem félagið hefur staðið fyrir undanfarið ár.
Því styð ég enn frekar eflingu faglegs starfs því
slíkur vettvangur er dýrmætur fyrir okkur til að
koma saman, gleðjast, fræðast og blanda geði
við aðra hjúkrunarfræðinga.
Baráttumálin þau sömu og
fyrir 100 árum
Það er óhætt að segja að saga hjúkrunar-
fræðinga endurtaki sig í ljósi þess að helstu
baráttumál þeirra á 100 ára afmæli félagsins
eru svo gott sem þau sömu og verið hafa
undanfarna áratugi. Má þar helst nefna að
menntun og ábyrgð í starfi sé metin í samræmi
við aðrar sambærilegar stéttir og að útrýma
kynbundnum launamun sem því miður er enn
til staðar. Félagið hefur unnið markvisst að því
að afla tölfræðilegra gagna um stöðu hjúkrunar
á Íslandi og endurspegla þær niðurstöður hve
staðan er alvarleg. Fyrirliggjandi gögn hafa
nú þegar og eiga eftir að nýtast vel í komandi
kjara- og réttindabaráttu hjúkrunarfræðinga.
Í undirbúningi afmælisársins hefur verið
fróðlegt að kynna sér 100 ára sögu félagsins.
Þrátt fyrir að hlutverk hjúkrunarstéttarinnar
hafi tekið miklum breytingum í áranna rás þá
skýtur það skökku við að baráttumálin hafi
ekki breyst meira en raun ber vitni. Það kemur
hvað best fram þegar flett er í gegnum ríflega
90 ára sögu tímaritsins okkar. Á 4. áratug
síðustu aldar var mikið skrifað um starfstíma
og laun hjúkrunarfræðinga og ritar Þorbjörg
Árnadóttir eftirfarandi í október 1935:
„Hæfileg stytting vinnutímans leiðir til meiri
starfsorku og þar af leiðandi betri vinnu. Hún
stuðlar að betra heilsufari, sem verður gróði
Saga hjúkrunarfræðinga,
saga endurtekninga
Áfangar í sögu hjúkrunar á Íslandi
FORMAÐUR FÉLAGS ÍSLENSKRA HJÚKRUNARFRÆÐINGA
Guðbjörg Pálsdóttir