Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Page 13
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 13
til að kalla eftir aðstoð. Ég kynntist kerfinu
á ráðstefnu ICN (International Council
of Nursing) í London árið 1999 og var
harðákveðin í að nýta kosti þess í Sóltúni.
Þannig lætur Vökull starfsfólk vita ef íbúi
í fallhættu fer fram úr rúmi en ætti ekki að
gera það án aðstoðar. Einnig getur kerfið sent
starfsfólki skilaboð ef íbúi hefur vætt rúm eða
svitnað mikið og þarfnast aðstoðar. Vökull
getur einnig látið vita ef einhver ráfar inn á
herbergi annars íbúa án þess að vera boðið
þangað. Hægt er að skoða svartíma á bjöllum
og boðum og hefur svartími bjölluhringina
um langan tíma verið rúmlega 3 mínútur. Á
ári eru um það bil 34 þúsund bjölluhringingar
svo starfsfólk stendur sig mjög vel þar. Íbúar
geta fylgst með viðburðum sem eiga sér stað í
samkomusal heimilisins í sjónvörpum sínum
og úr sjónvörpum í dagstofum á sambýlunum.
Þannig eru þeir þátttakendur í því sem er að
gerast þó þeir treysti sér ekki þá stundina í
salinn. Að sama skapi getur starfsfólk og íbúar
hlustað á vikulega fræðslufundi úr fræðslusal
um allt hús. Skipulagsform hjúkrunar er
einstaklingsbundið og hefur það reynst afar
vel og stuðlað að vellíðan íbúa. Sóltún hefur
verið eftirsótt af þeim sem þurfa á þjónustu
að halda og annar hvergi nærri eftirspurn.
Viðhorfskannanir og niðurstaða gæðavísa
hafa komið vel út og verið birtar á heimasíðu
heimilisins, www.soltun.is. Sóltún hefur
einnig margoft fengið samþykkt að kynna
erindi og niðurstöður gæðavísa á alþjóðlegum
ráðstefnum þar sem mikil samkeppni hefur
verið um að koma erindum að.
Framtíðarþróun
Sóltún hefur útvíkkað starfsemi sína í anda
hugmyndarinnar um Sóltúnsþorpið sem ég
setti fram árið 2001. Byggðar voru öryggis-
og þjónustuíbúðir í Sóltúni 1-3 og eru þær
seldar á almennum markaði til 60 ára og
eldri. Margir sem búa þar eru tengdir íbúum
á hjúkrunarheimilinu. Íbúar í Sóltúni 1-3
geta keypt máltíðir í kaffiteríunni Kaffi Sól á
hjúkrunarheimilinu og ef eftirspurn er næg
er heimsendur matur í boði í hádeginu virka
daga. Þá var stofnað systurfélagið Sóltún
öldrunarþjónusta ehf. árið 2010,
www.soltunheima.is, sem vinnur m.a. að
forvörnum og heilsueflingu til að styrkja
fólk til áframhaldandi búsetu á eigin
heimili. Í boði er þjálfun í heimahúsum,
hópþjálfun í íþróttahúsi og sundleikfimi
svo eitthvað sé nefnt. Jafnframt standa
hjúkrun og aðstoð við heimilishald til boða.
Þetta er vaxandi starfsemi með sterkum
starfsmannahópi. Áform eru um frekari
uppbyggingu í Sóltúnsþorpinu með byggingu
hjúkrunarheimilis í Sóltúni 4 og tengibyggingu
milli þessara tveggja hjúkrunarheimila. Í
tengibygginunni yrði möguleiki á að þjóna
íbúum í hverfinu mun betur.
Sjúkratryggingar Íslands og Ríkiskaup buðu
út rekstur hjúkrunarheimilisins Sólvangs í
Hafnarfirði í nýrri byggingu sem er risin á
Sólvangsreitnum. Sóltún öldrunarþjónusta
sendi inn tilboð í reksturinn sem byggðist
á Sóltúnsfyrirmyndinni og vann þá sam-
keppni. Sólvangur verður því hluti af Sóltúns-
fjölskyldunni þegar byggingin verður tilbúin
2019.
Þolinmótt fé
Það hefur verið ótrúlega spennandi og
um leið strembið viðfangsefni að reka jafn
umfangsmikla starfsemi og hjúkrunarheimilið
Sóltún með frábærum stjórnendahópi og
starfsfólki. Reynsla af rekstri hjúkrunar-
þjónustu á vegum hins opinbera hefur
gefist vel auk þeirrar menntunar sem
hjúkrunarstjórnendur og starfsfólk hefur aflað
sér. Að starfa í samræmi við vel skilgreindan
þjónustusamning hefur gert það að verkum
að verkefnið er alveg skýrt fyrir stjórnendum
og starfsfólki og hafa allir lagst á eitt að standa
undir þeim merkjum. Einkaaðilar þurfa
þó að hafa borð fyrir báru og leggja þarf til
verulegt fjármagn til að hafa í handraðanum
þegar á þarf að halda. Það þarf því þolinmótt
fé til að geta farið út í rekstur af þessu tagi. Ef
mannauðsmálin ganga vel og starfsfólki líður
vel í starfi og sér árangur verka sinna, eins og
það gerir í Sóltúni, þá líður íbúum okkar vel og
reksturinn gengur betur.
En það má hvergi slaka á, það er ekki nóg
að ná einu sinni 10 í einkunn, það er miklu
vandasamara að halda í við tíurnar.
Tölvugerðar myndir sem sýna hvernig nýja húsið á Sólvangi í Hafnarfirði verður.