Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Side 35
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 35
er sem hefur haft mest áhrif á mig og mótað
mig sem stjórnanda þá er það námskeið um
þjónandi forystu sem Sigrún Gunnarsdóttir
kenndi þegar ég var í meistaranáminu í
stjórnun. Þarna fann ég alveg samhljóminn,
þetta var leiðin sem ég vildi fara og tileinka
mér og hef reynt að hafa að leiðarljósi sem
stjórnandi.
Í mínum huga er þjónandi forysta ekki bara
hugmyndafræði stjórnunar heldur finnst mér
hún nátengd hugmyndafræði hjúkrunar.
Á vefsíðunni thjonandiforysta.is er þessa
lýsingu að finna: „Í stuttu máli má lýsa
þjónandi forystu sem samspili þriggja
meginstoða sem allar eru tengdar innbyrðis
og mynda eina heild.
1) Fyrsta stoðin er einlægur áhugi á
hugmyndum annarra sem birtist með
einbeittri hlustun og aðgerðum sem efla aðra
og aðstoða þá til að blómstra og að njóta sín.
2) Önnur stoðin er vitund og sjálfsþekking
sem birtist í sjálfsöryggi, auðmýkt og
hugrekki.
3) Þriðja stoðin er framsýni og skörp sýn
á hugsjón sem birtist með sýn á tilgang og
ábyrgðarskyldu.“
Virk hlustun og einlægur áhugi á
skjólstæðingunum
Fyrsta stoðin, eða virk hlustun og einlægur
áhugi á skjólstæðingnum, er eitt af því fyrsta
sem kennt er í hjúkrun og í raun má segja að sé
rauður þráður í gegnum allt okkar nám. Virk
hlustun er ekki bara að hlusta heldur að hafa
einlægan áhuga á því sem fólk hefur að segja
og hafa áhuga á að hjálpa. Í mínu starfi finnst
mér þetta eitt það mikilvægasta. Í því flókna
samfélagi sem við búum í er hver einstaklingur
með mörg hlutverk og oft getur verið erfitt að
samræma þau. Starfsmaðurinn er líka foreldri,
umönnunaraðili aldraðs föður, tengiliður í
fótboltanum, í bæjarstjórn, syngur í kór og
svo framvegis. Það er því mikilvægt að hafa
skilning á aðstæðum starfsfólksins og reyna
að hjálpa því að samræma vinnuna við öll hin
hlutverkin. Ég held að það sé alltaf að koma
betur og betur í ljós að því betra jafnvægi sem
er á milli vinnu og einkalífs, því minni líkur
eru á að fólk brenni út. Þetta er stór þáttur í
minni vinnu. Auðvitað þarf að manna allan
sólarhringinn og vaktavinnan er erfið en
yfirleitt er hægt að liðka til og koma til móts
við mismunandi þarfir fólks. Þá er gott að nýta
fjölbreytileikann – skólastrákurinn vill aðrar
vaktir en sjómannskonan – og að lokum náum
við að púsla öllum vöktum saman. Við sjáum
líka miklar breytingar hvað varðar hugmyndir
og sýn á vinnu, unga fólkið okkar er ekki
eins bundið vinnunni og fyrri kynslóðir. Ef
fólk er ekki ánægt í vinnu hikar það ekki við
að breyta til, vinnan er sjaldnast númer eitt
og fólk veit að lífið hefur upp á svo margt
skemmtilegt að bjóða. Það er því mikilvægt að
skilja fjölbreytileikann, finna út hvað hentar
og reyna að mæta hverjum og einum á þeirra
forsendum.
Mikilvægt að geta treyst og vera treyst
Önnur stoðin snýst í mínum huga um traust.
Það er svo mikilvægt að geta treyst og vera
treyst. Með árunum fer maður að þekkja
sjálfan sig, takmarkanir og styrkleika. Það eflir
sjálfstraustið en það er undirstaðan fyrir að
geta treyst öðrum. Ég hef alltaf haft það að
leiðarljósi að hafa verkefnisstjórana mína inni í
öllum málum, þannig að ef ég dytti skyndilega
út einn daginn væri allt starfhæft án mín. Þetta
felst í að þora að útdeila verkefnum, hafa góða
yfirsýn en vera ekki endilega með nefið ofan
í öllu. Það er alla vega þannig sem ég reyni að
hafa það. En það er ekki bara mikilvægt að geta
treyst starfsfólkinu sínu, mér finnst ómetanlegt
að finna að yfirmenn mínir treysti mér. Ég
hef alltaf verið mjög þakklát fyrir það traust
sem þeir hafa sýnt mér og í raun gefið mér
nokkuð lausan taum þegar kemur að stjórnun á
hjúkrunarheimilunum Bergi og Eyri.
Móttaka nýrra starfsmanna skiptir
höfuðmáli fyrir framhaldið
Þriðja stoðin fjallar meðal annars um tilgang
og ábyrgðarskyldu. Þegar einstaklingur velur
sér starf á hjúkrunarheimili tekur hann mikla
ábyrgð á sig. Okkar megintilgangur, ábyrgð og
aðalstarf er að sjá til þess að hinum aldraða líði
eins vel og hugsast getur á heimilinu. Þegar nýtt
starfsfólk kemur á Berg eða Eyri fær það góða
aðlögun og fer í gegnum nýliðafræðslu. Ég tel
að móttaka nýrra starfsmanna skipti höfuðmáli
fyrir framhaldið. Á þessum nýliðanámskeiðum
tala ég mikið um ábyrgð, virðingu, trúnað og
samskipti sem grunninn að góðu samstarfi bæði
við heimilismenn og aðra starfsmenn.
Með þetta að leiðarljósi reyni ég að gera mitt
besta. Mörg mistök hef ég gert og mun gera,
en viljinn til að læra af mistökunum og gera
betur er svo sannarlega til staðar.
„Í MÍNUM HUGA ER ÞJÓNANDI FORYSTA EKKI BARA
HUGMYNDAFRÆÐI STJÓRNUNAR HELDUR FINNST MÉR HÚN
NÁTENGD HUGMYNDAFRÆÐI HJÚKRUNAR“
1931
Landspítalinn tekur til starfa Hjúkrunarskóli Íslands stofnaður
Hjólað óháð aldri.