Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Side 64
64 | Tímarit hjúkrunarfræðinga
Tímabilið sem ég gegndi formennsku í Hjúkrunarfélagi
Íslands var sögulegt. Þar sem hjúkrun er ein af
grundvallarstoðum heilbrigðisþjónustunnar og þar með
góðs þjóðfélags, tók ég glöð þeirri áskorun að gefa kost
á mér sem formaður félagsins með það að markmiði að
reyna til hlítar að vinna að sameiningu hjúkrunarfræðinga
í eitt fag- og stéttarfélag. Þetta var árið 1991 og þá hafði
Hjúkrunarfélag Íslands og Félag háskólamenntaðra
hjúkrunarfræðinga reynt í um 14 ár að vinna að því
markmiði. Mörgum þótti ég hafa meiri forsendur en margir
aðrir að stýra þeirri vinnu af hálfu félagsins þar sem ég
hafði bæði lokið þriggja ára námi frá Hjúkrunarskóla
Íslands og fjögurra ára námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla
Íslands.
Bakgrunnur minn, viðhorf mitt og framtíðarsýn um hlutverk hjúkrunar
í samfélaginu tel ég að hafi haft úrslitaáhrif varðandi það að mér var
treyst til að hafa yfirumsjón með þessari vinnu. Verkefnið var stórt og
væntingarnar miklar því margir töldu að ef þetta tækist ekki við þessar
aðstæður væri rétt að leggja þessa vinnu á ís. Erfið ár voru að baki þar
sem deilur voru um áherslur í hjúkrunarmenntun en enn var einhver
ágreiningur um hvernig menntun hjúkrunarfræðinga skyldi metin til
launa og ýmissa starfsréttinda. Ég fann frá fyrsta degi að ég naut mjög
mikils trausts félagsmanna í báðum hjúkrunarfélögunum.
Málefnavinna tengd stofnun nýs félags hjúkrunarfræðinga var
meginmarkmiðið og inntakið í verkefnum mínum en alls ekki eina
viðfangsefnið. Verkefnum fjölmenns fag- og stéttarfélags varð að vinna
að samhliða. Það varð að vinna þau verkefni vel því að öðrum kosti
hefði það getað haft mikil áhrif á skrefin að stofnun nýs félags. Þau
verkefni tengdust meðal annars sýnileika starfa hjúkrunarfræðinga
og sjálfstæði starfa þeirra, kjaramálum og vinnuaðstæðum,
niðurskurði á fjárveitingum til heilbrigðisstofnana, menntunarmálum
hjúkrunarfræðinga, samskiptum við önnur stéttarfélög innan
heilbrigðisþjónustunnar, samskiptum við stjórnvöld og erlend
hjúkrunarfélög, útgáfu hjúkrunarfræðingatals og tímarits félagsins auk
margþættra verkefna sem tengdust störfum einstakra hjúkrunarfræðinga.
Verkefnin sem tengdust stofnun nýs hjúkrunarfélags voru ýmiss konar
málefnavinna en einnig ásýnd og skipulag. Þar var áhersla lögð á
virðingu fyrir öllum félagsmönnum úr hvoru félagi fyrir sig. Allir urðu
að finna sig í nýju fag- og stéttarfélagi. Sem dæmi um verkefnin má
nefna stefnu, sýn og hlutverk félagsins, ný lög, nýjar siðareglur, nafn
félagsins, húsnæðismál og staðsetningu félagsins, starfsmenn félagsins,
skipulag svo sem stjórn, nefndir, fagdeildir og þátttöku í erlendu
samstarfi. Afstöðu varð að taka til merkis sem ætti að einkenna nýja
félagið. Það er broslegt til þess að hugsa að oft og tíðum virtist það vera
aðalágreiningsmálið.
Einu stóru verkefni var unnt að ljúka nokkrum mánuðum áður en
nýtt félag hjúkrunarfræðinga var stofnað. Það var nýtt fagtímarit
hjúkrunarfræðinga þar sem mörkuð var ný ritstjórnarstefna og fulltrúar
beggja hjúkrunarfélaganna áttu sæti í ritstjórn.
Formennska í Hjúkrunarfélagi Íslands þetta tímabil fól í sér gífurlega
mikla vinnu en tilfinning mín er sú að það hafi alltaf verið gaman. Það
var unnið mjög málefnalega að hverju verkefni. Við aðstæður sem
þessar skapaðist drifkraftur þar sem allir voru reiðubúnir að leggja sitt af
mörkum. Þar reyndi á þrautseigju og samtakamátt hjúkrunarfræðinga
og alltaf ríkti samhugur, traust og virðing meðal þeirra sem komu að
vinnunni hvers eðlis sem hún var. Mikil áhersla var síðan lögð á að
kynna allar þessar hugmyndir og málefnavinnu fyrir félagsmönnum
um land allt. Í allsherjaratkvæðagreiðslu sem fram fór haustið 1993,
meðal allra félagsmanna í báðum hjúkrunarfélögunum, svöruðu yfir
95% þeirra sem afstöðu tóku því játandi að Hjúkrunarfélag Íslands og
Félag háskólamenntara hjúkrunarfræðinga skyldu lögð niður og Félag
íslenskra hjúkrunarfræðinga stofnað 15. janúar 1994.
Saga hjúkrunar á Íslandi er saga framfara og stórstígra skrefa til að sinna
sem best hjúkrunarþörfum einstaklinga á hverjum tíma. Stofnun Félags
íslenskra hjúkrunarfræðinga 15. janúar 1994 er eitt þeirra stóru skrefa.
Og það er enn vor í lofti …
Formaður á
sögulegum tíma
FRÁ FYRRVERANDI FORMANNI
Vilborg Ingólfsdóttir
formaður Hjúkrunarfélags Íslands
1991-1994