Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Side 74
74 | Tímarit hjúkrunarfræðinga
Rannsóknasjóður Ingibjargar R.
Magnúsdóttur (RIM) var stofnaður
29. júní 2007 að frumkvæði Ingibjargar
R. Magnúsdóttur, fyrrverandi
skrifstofustjóra í heilbrigðis- og
tryggingamálaráðuneytinu og
formanni námsbrautarstjórnar í
hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.
Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir í
hjúkrunar- og ljósmóðurfræði og eru styrkir
veittir til hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í
doktorsnámi vegna rannsóknarverkefna sem
falla að markmiðum sjóðsins. Ingibjörg var,
eins og kunnugt er, einn helsti hvatamaður
að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði
árið 1973 og sannkallaður brautryðjandi
í menntunarmálum hjúkrunarfræðinga
hérlendis. Eins og flestir vita hefur Ingibjörg
reynst íslenskri hjúkrunar- og ljósmóðurstétt
einstakur velgjörðarmaður en hin síðari ár
hefur hún einbeitt sér að eflingu RIM með
peningagjöfum og margvíslegum stuðningi
sem vert er að þakka.
Frá stofnun sjóðsins hefur verið úthlutað 10
sinnum, samtals 24 styrkjum til doktorsnema
í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum.
Heildarupphæð styrkjanna er orðin
8.300.000 kr. Sextán af 20 styrkhöfum hafa
nú þegar útskrifast en um þessar mundir
stunda 15 nemendur doktorsnám við
Hjúkrunarfræðideild HÍ. Rannsóknarverkefni
styrkhafa hafa spannað vítt svið og lagt
umtalsvert af mörkum til fjölbreyttrar
þjónustu og rannsókna hjúkrunarfræðinga og
ljósmæðra.
Fjölbreytt verkefni
Doktorsverkefnin hafa verið unnin á vettvangi
flestra sérsviða hjúkrunar- og ljósmóðurfræði
og beinst m.a. að fólki með langvinna verki,
lífslokameðferð, heimafæðingum sem valkosti,
unglingum með athyglisbrest og ofvirkni,
endurhæfingu, gaumstoli, upplýsingatækni
og heilsufari þeirra sem nýlega hafa flust
á hjúkrunarheimili. Mörg verkefnanna
hafa falið í sér íhlutanir, s.s. framsetningu
meðferðarsamtala fyrir fjölskyldur
mismunandi skjólstæðingahópa, til dæmis
fyrir fjölskyldur barna og unglinga með
astma, eftirgæslu eftir legu á gjörgæsludeild,
geðvernd sem beinist að ungu fólki,
skipulagningu meðferðarúrræða fyrir þolendur
kynferðisofbeldis, fræðslu fyrir skurðsjúklinga
og svo mætti lengi telja.
Það er óhætt að segja að allir styrkþegar
RIM eru í dag mjög virkir í rannsóknum og
framþróun eigin sérgreina. Flestir, ef ekki allir,
taka þátt í að veita nemendum leiðsögn, m.a.
í meistara- og doktorsnámi. Framlag þeirra
er ómetnanlegt fyrir íslenska hjúkrunar- og
ljósmóðurstétt, þeirra sem svo bera kyndilinn
áfram. Þannig þróast fagið, ný þekking skapast
sem síðan nýtist í þjónustu við skjólstæðinga.
Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnús-
dóttur starfar eftir staðfestri skipulagsskrá og
hefur sjálfstæða stjórn. Val á styrkhöfum er
í höndum stjórnarmanna en stjórn sjóðsins
skipa Jóhanna Bernharðsdóttir, formaður
stjórnarinnar, Stefán Bragi Bjarnason,
lögfræðingur, fulltrúi Ingibjargar R.
Magnúsdóttur, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, fulltrúi
Ljósmæðrafélags Íslands, Auðna Ágústdóttir,
fulltrúi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga,
og Dagmar Huld Matthíasdóttir, fulltrúi
velferðarráðuneytisins.
Að leggja sjóðnum lið
Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður eru
hvattar til að leggja sjóðnum lið svo hann
megi þjóna sem best tilgangi sínum. Gerum
orð Ingibjargar að okkar og höfum hugfast
að margt smátt gerir eitt stórt. Veitum
doktorsnemum og doktorsverkefnum í
hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum brautargengi
með stuðningi okkar.
Hægt er að styrkja Rannsóknasjóð Ingibjargar
R. Magnúsdóttur með ýmsu móti, t.d. með
gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar.
Einnig er hægt að senda minningarkort og
tækifæriskort frá sjóðnum.
NÁNARI UPPLÝSINGAR
sjodir.hi.is/rannsoknasjodur_
ingibjargar_r_magnusdottur.
Veitir doktorsnemum
brautargengi
Dr. Jóhanna Bernharðsdóttir
hjúkrunarfræðingur og lektor við hjúkrunarfræðideild HÍ
Fjárhæðir má leggja inn á
eftirfarandi bankareikning:
0513-26-004057
Kennitala Styrktarsjóða HÍ er
571292-3199
Rannsóknasjóður
Ingibjargar R. Magnúsdóttur
1980 1980
Vigdís Finnbogadóttir kosin forseti Íslands