Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Qupperneq 82
82 | Tímarit hjúkrunarfræðinga
Hjúkrunarfélags Íslands. Kannski var það út af
þessari ræðu við útskriftina sem ég var kjörin
í kjaramálanefnd, samninganefndina, og var í
henni í fyrsta verkfallinu með BSRB árið 1977.
Í því stappi, lokuð inni í Austurbæjarskóla í
samningaviðræðum, þá var ég spurð hvort ég
vildi koma á framboðslista Alþýðubandalagsins
í Reykjavík. Ég hafði þá ekki hugsað neitt
um pólitík en kem frá róttæku heimili svo ég
sagði já. Þannig tengdist ég inn í pólitíkina,
eiginlega í gegnum trúnaðarstörf fyrir
hjúkrunarfræðinga.“ Hún flutti með fjölskyldu
sinni til Egilsstaða 1983 og ári síðar voru aftur
verkfallsaðgerðir hjá BSRB. Þá fréttist að hún
hefði einhverja reynslu og þar með var hún
drifin í sveitarstjórnarmálin á staðnum.
„Pólitík hafði aldrei verið á dagskrá hjá mér,
en svona leiðir eitt af öðru,“ segir Þuríður.
Eftir átta ár í sveitarstjórn með fullri vinnu,
fjölskyldu og tilheyrandi álagi ákvað hún að
hætta öllu pólitísku vafstri 1998. Það dugði nú
ekki lengi því þegar VG var stofnað var talað
við Þuríði. Stefna VG var eins og sniðin að
hennar hugmyndafræði svo það veittist henni
auðvelt að verða við beiðninni. Kjördæmið
fyrir austan þótti erfitt og fyrir fram álitið
vonlaust að ná inn manni. Kárahnjúkavirkjun
var í uppsiglingu og búin að vera mikil
mótmæli gegn henni. „En það vantaði mann
til að leiða listann og ég tók mér mánaðarfrí til
þess að fara í kosningabaráttuna af krafti. Svo
varð ljóst á kosninganóttina að ég væri á leið
inn á þing, eitthvað sem ég átti alls ekki von á,“
segir Þuríður.
Áður en Ásta fór á þing var hún búin að
vera virk innan Sjálfstæðisflokksins um
hríð. Hún hafði verið á lista í tvennum
kosningum og formaður heilbrigðisnefndar
flokksins. Hún man eftir umræðu um að
heilbrigðismál væru aldrei rædd inni á þingi.
„En þarna vorum við svo komnar þrjár á
þing. Katrín Fjeldsted læknir var þarna líka
og Sif Friðleifsdóttir sjúkraþjálfari. Það voru
nú ekki fleiri heilbrigðisstarfsmenn á Alþingi
þá, eftir því sem ég man. Stundum hugsar
maður eftir á: Hvaða gagn gerði ég? En mér
fannst heilbrigðismálin komast á koppinn á
þessum tíma. Mér fannst umræðan komast af
stað, umræða um mismunandi rekstrarform
til dæmis. Hjá félaginu var ég búin að berjast
fyrir því að halda samningi sjálfstætt starfandi
hjúkrunarfræðinga við Tryggingastofnun
ríkisins frá 1989. Allan tímann sem ég var
formaður vorum við að verja þennan samning
og hugsanlega skapa hjúkrunarfræðingum
annan vettvang en bara innan opinbera
kerfisins. En á sama tíma voru tannlæknar,
sjúkraþjálfarar og stór hluti lækna sjálfstætt
starfandi. Mér fannst alltaf vera talað svolítið
tveimur tungum því á sama tíma og fólk
sagði: Við viljum ekki einkarekstur, eða við
viljum ekki samstarf ríkis og einkaaðila, þá
voru margir aðrir heilbrigðisstarfsmenn með
svona samninga. Og öll öldrunarheimili voru
meira eða minna rekin af einkaaðilum eða
sveitarfélögum. Fólk talaði eins og það væri
enginn einkarekstur og fann honum allt til
foráttu. En svo komu nú þarna dæmi, t.d. gerði
Ingibjörg samning um Sóltún.“
Ásta segir að á þessum tíma hafi verið ákveðin
hreyfing inni á þingi þannig að það var talað
meira um heilbrigðismál og „ég bara leyfi
mér að þakka okkur fyrir það,“ segir hún. „Ég
óskaði til dæmis eftir utandagskrárumræðu
um rekstrarform í heilbrigðisþjónustu og fólk
ætlaði að tala sig alveg hást, æsa sig og allt
það. En svo þegar maður fór að skoða hvað
var sagt í umræðunum þá var fólk miklu nær
hvað öðru heldur en áður var haldið. Þannig
að mér fannst verða ákveðin þróun og fannst
Framsóknarráðherrarnir, þú Ingibjörg og svo
Jón í framhaldinu, vera kjarkaðir.“
Ingibjörg segir að samningur um Sóltún hafi
verið erfiður því það var dýrara en venjulegt
hjúkrunarheimili og það vakti deilur. Enda
átti Sóltún að vera fyrir allra veikustu eldri
notendurna. „En þá hugsaði ég með mér:
Svona eigum við að reka öll öldrunarheimili.
Þetta var bara módel að því. Það hefur tekið
langan tíma að fara þessa leið og við erum
ekkert komin alla leið og síðan eru liðin
tuttugu og eitthvað ár. En þrátt fyrir fjárskort
eru hjúkrunarheimilin rekin með sérstaklega
góðri þjónustu og til fyrirmyndar á flestum
stöðum.“
Þuríður kemur með annað sjónarhorn. „Eitt
varðandi Sóltún – eftir að hafa gert þann
samning og reiknað út hvað kostaði að reka
hjúkrunarþjónustu á öldrunarheimili þá hefði
átt að nota það sem fyrirmynd til að byggja
rekstur annarra hjúkrunarheimila á. Þau hefðu
þá átt að fá samsvarandi fé. Það var það sem
hefði þurft að koma í framhaldinu. Mér finnst
ekki rétt að segja að vegna þess að Sóltún
er einkarekið þá sé það til fyrirmyndar og
bera svo saman við önnur hjúkrunarheimili
vegna þess að það hefur sérstöðu sem hin
öldrunarheimilin hafa ekki fengið.“
Ingibjörg segir að það sem helst standi
í sér varðandi einkarekstur sé hættan
á að rúsínurnar verði bara teknar út og
hitt skilið eftir. Landspítalinn og aðrar
grundvallarstofnanir standi svo eftir
berrassaðar. „Það er mjög freistandi að geta
stjórnað vinnutímanum þannig að þú sért ekki
að vinna um helgar eða á nóttinni. En hver vill
taka geðið? Hver vill taka hjartað? Og heilann
og fæðingarnar og vökudeildina? Það er svo
mikil hætta á að við brjótum þetta niður og
þess vegna stendur það í heilbrigðisyfirvöldum
að sjá hvernig við getum samið við einkaaðila
um ákveðinn fjölda aðgerða sem kosta ákveðna
upphæð og ekki meira og ekki minna.“
Þuríður segir að það þurfi að taka ábyrgð á
hugsanlegum afleiðingum með í reikninginn.
Hingað til hafi einkareksturinn verið allt of
eftirlitslaus og að það vanti ramma. Ingibjörg
tekur undir það og segir að það verði að taka
Landspítalann með í myndina. „Það er verið
að taka inn fjölveika sjúklinga og það getur allt
gerst í svona aðgerðum sem einkaaðilar ráða
kannski ekki við og þá er súrt fyrir þá sem eru
að vinna dag og nótt á spítalanum að taka á
móti aukaverkununum eða erfiðleikunum.“
Álagið er að fara með þessa stétt
Ásta segir þau viðhorf fara voðalega í
taugarnar á sér að hjúkrunarfræðingar, þessi
vel menntaða stétt, ætti bara að hafa sinn
starfsvettvang innan ríkiskerfisins. Sem
formaður félagsins leitaðist hún við að losa
þarna um. Í þessu samhengi veltir hún nú
fyrir sér hvort það myndi skapa vettvang fyrir
hjúkrunarfræðinga sem starfa við annað til að
koma til baka ef þeir hefðu aðra möguleika
og gætu nýtt þekkingu sína eins og þeir lærðu
fagið. Töluvert er um að hjúkrunarfæðingar
starfi við annað vegna betri kjara.
Þuríður telur að það sé hugsanlegt með
einkarekstrinum. Það feli í sér möguleika á
að geta stjórnað sínum vinnutíma og vera
ekki stöðugt undir þessu mikla álagi. „Það
er náttúrlega álag sem er að fara með þessa
stétt. Og það er líka svo stór hópur sem er
nú á efri árum og er búinn að halda uppi
hryggjarstykkinu í hjúkrun á Íslandi í langan
tíma.“
„ÞAÐ AÐ HJÚKRUN KALLI Á
STÖÐUGA ENDURMENNTUN
OG ENDURSKOÐUN GERIR
VINNUNA MEIRA SPENNANDI
OG GEFUR SJÚKLINGUNUM
ÁN EFA MÖGULEIKA Á
SKJÓTARI BATA“
1990 1990
Hjúkrunarfélag Íslands segir sér úr BSRB