Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Qupperneq 101
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 101
„Vel hefir konungurinn alið oss. Feitt er mér
enn um hjartarætur,“ sagði hann þá og hné
dauður niður (Heimskringla II, 539-540).
„Úr hvorra liði sem eru“
Í Víga-Glúms sögu má lesa um Halldóru
Gunnsteinsdóttur, konu Glúms, sem sögð
var „væn kona ok vel skapi farin“. Í orustu á
Hrísateigi, þar sem reidd voru „stór hǫgg ok
mörg“ með mannfalli, kveður Halldóra með
sér konur á vettvang og segir: „skulum vér
binda sár þeira manna, er lífvænir eru, ór
hvárra liði sem eru.“ Ekki eru konurnar fyrr
komnar að en Þórarinn á Espihóli er höggvinn
af Má Glúmssyni „ok var öxlin hǫggvin frá,
svá at lungu fellu út í sárit.“ Batt Halldóra
um sár Þórarins og sat yfir honum þar til
bardaganum lauk. Þetta varð eiginmanni
hennar til lítillar gleði því að bardaganum
loknum mælti Glúmur til konu sinnar: „För
vár mundi hafa orðit góð í dag, ef þú hefðir
heima verit ok hefði Þórarinn eigi lífs brott
komizt.“ Lét Halldóra sér fátt finnast um
snuprur hans (Ísl. fornr. IX, 35, 78).
Göfuglyndi Halldóru Gunnsteinsdóttur,
hlutleysi hennar gagnvart þeim sem sárir
eru og umönnunarvilji vekur aðdáun. Ríkari
ástæðu hafði Þuríður spaka í Hörgsholti sem
frá er sagt í Landnámu. Þegar Guðlaugur
auðgi og Þorfinnur Selþórisson féllu báðir
eftir hólmgöngu „grœddi [Þuríður] þá báða
ok sætti þá“ enda tengdamóðir annars en
mágkona hins (Ísl. fornr. I, 100).
Ónefndar eru enn margar konur sem
Íslendingasögurnar greina frá að grætt hafi
menn og annast þá særða. Njála greinir frá
Hildigunni þeirri sem græddi sár Þorgeirs
og Starkaðar eftir bardagann við Knafahóla.
Í Droplaugarsona sögu segir af Álfgerði á
Ekkjufelli sem bindur sár Gríms og í Harðar
sögu og Hólmverja er getið um Helgu
Haraldsdóttir í Geirshólmi sem græddi Geir
eftir viðureign hans við Ref. Skörungurinn
Ólöf Hrolleifsdóttir í Þórðar sögu hreðu og
Gríma, kona Gamla, í Fóstbræðra sögu sem var
„svarkr mikill“ en engu að síður „gǫr at sér
um mart, læknir góðr ok nǫkkut fornfróð“
(Ísl. fornr. VI, 242).
Læknisdómar í fórum kvenna
Þekking á verkun grasa til að lina þrautir
eða létta sóttir voru lykilatriði varðandi það
hvernig til tókst við græðslu sára og meina. Í
goðafræðinni lesum við að Menglöð „sú hin
sólbjarta“ hefst við á Lyfjabergi með meyjum
sínum, eins og segir í Fjölsvinnsmálum
(Eddukvæði, 419).
Lyfjagerð og -gjafir hafa þess vegna tengst
konum frá upphafi vega enda liður í
heimilishaldi og meðhöndlun matvæla og
drykkja sem voru í verkahring kvenna. Á
hverju íslensku heimili var að finna ýmis
efni sem nota mátti í lyf og smyrsli: Mjólk,
mysu, smjör og ýmis grös og jurtir. Má geta
nærri að það hafi komið í hlut kvennanna að
útbúa grashnyklana sem hér tíðkuðust lengi
og innihéldu sérstaklega umbúinn skammt
lyfjagrasa í tiltekið magn seyðis eða soðs. Um
einn slíkan er getið í Kormáks sögu þar sem
maður státar sig af því að hafa aldrei þurft að
binda sér „belg at hálsi, urtafullan“ (Ísl. fornr.
VIII, 249).
Auk þekkingar á grösum og meðferð þeirra
þurfti hver sá sem græða vildi mannamein að
kunna skil á lækningarmætti náttúrusteina
sem voru viðurkennd meðul í heiðni og lengi
fram eftir öldum. Náttúrusteinar hafa oft
fundist í heiðnum kumlum hérlendis, ekki síst
kvenkumlum. Er þess vegna talið að steinninn
í fórum konunnar eigi sér mun dýpri rætur
en svo að hann hafi einungis verið til skrauts
(Kristján Eldjárn 1956; Jón Steffensen 1975,
184-185).
Sálhjúkrun kvenna
Eddukvæðið Oddrúnargrátur greinir frá
sálhjúkrun eða sállækningu. Þegar Oddrún
hefur aðstoðað Borgnýju í barnsnauð upphefur
hún raunasögu sína og verður það tregróf
báðum konunum til hugarhægðar. Höfum við
þar eitt elsta dæmi fornra kvæða um geðlausn
sem veitist með samtali.
Í Íslendingasögum sjáum við konur oft í
hlutverki græðara en karla í stöðu sjúklings
þó að hvorki sé talað um lækningu né hjúkrun
af því tilefni. Karlinn – oftar en ekki náinn
fjölskyldumeðlimur – þiggur af konunni
sálfræðiaðstoð eða sállækningu sem ólíkt
sáralækningum á vígvellinum fer fram innan
veggja heimilisins með málrænni meðferð.
Gott dæmi er samtalsmeðferðin sem
Þorgerður, elsta dóttir Egils Skallagrímssonar,
veitti föður sínum þegar hann eftir sonarmissi
var lagstur í rekkju sína til að deyja og vildi
hvorki vott né þurrt. Með vel útfærðu samtali
fær Þorgerður föður sinn til þess að tyggja söl
og drekka. Þar með er hungurferlið rofið svo
að lífslöngun kviknar á ný. Annað glöggt dæmi
eru hjónin Bjargey og Hávarður sem frá er sagt
í Hávarðar sögu Ísfirðings. Með samtalstækni
kemur Bjargey Hávarði á fætur þegar hann
hefur legið rúmfastur í sorg eftir víg sonar síns
mánuðum saman. Hún kemur honum til þess
að sækja rétt sinn og ná fram hefndum. Við það
nær hann andlegum bata og verður eftir það
„svá kátr ok glaðr við hvert mannsbarn sem
ungr væri“ (Ísl. fornr. VI, 336).
Konur ruddu brautina
Konur hafa frá fornu fari gegnt lykilhlutverki
í lækningum, fæðingarhjálp, hjúkrun
og sálrænni aðhlynningu á Íslandi og
Norðurlöndum, ekki aðeins innan veggja
heimilisins þar sem þær tóku á móti
börnum, gerðu lyf og grashnykla, mögnuðu
náttúrusteina, önnuðust sjúka og veittu
geðlausn í hugarangri og harmi heldur einnig
þar sem sárir menn lágu óvígir eftir orustur.
Við getum þess vegna skyggnst mun aftar en til
Florence Nightingale (1820-1910) til þess að
finna rætur hjúkrunar og lækningaskipulags í
menningu okkar daga. Til forsögulegra kvenna
má rekja elstu lærdóma um ljósmóður- og
lækningastörf. Til kvenna eins og Þorgerðar
Egilsdóttur Skallagrímssonar og Bjargeyjar
í Hávarðar sögu Ísfirðings má rekja sálræna
aðhlynningu og samtalsmeðferð.
Til kvenna á borð við Halldóru Gunnsteins-
dóttur úr Víga-Glúms sögu má rekja það
göfuga sjónarmið sem Rauði krossinn,
Læknar án landamæra og raunar allt
menntað heilbrigðisstarfsfólk virðir enn
í dag, tíu öldum síðar: Að líkna og hjúkra
særðum og sjúkum „úr hvorra liði sem eru“.
Heimildir
Eddukvæði. Gísli Sigurðsson sá um útgáfuna. Mál og
menning. Reykjavík 1998.
Heimskringla I-III. Mál og menning. Reykjavík 1991.
Íslenzk fornrit I-XVI. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík
1933-2002.
Jón Steffensen (1975). Menning og meinsemdir.
Ritgerðasafn um mótunarsögu íslenzkrar þjóðar og
baráttu hennar við hungur og sóttir. Sögufélagið.
Reykjavík.
Kaiser, Charlotte (1998). Krankheit und
Krankheitsbewältigung in den Isländersagas.
Medizinhistorischer Aspekt und erzälhtechnische
Funktion. Seltman & Hein Verlag. Köln.
Kristján Eldjárn (1956). Kuml og haugfé úr heiðnum sið á
Íslandi. Norðri. Akureyri.
Vilmundur Jónsson (1949). Lækningar – Curationes
– séra Þorkels Arngrímssonar sóknarprests í Görðum á
Álftanesi. Helgafell. Reykjavík.
2019
100 ára afmæli Félags hjúkrunarfræðinga