Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2019, Síða 103
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 103
seinna, þegar við vorum orðnar fullorðnar: „Það var allt svo spennandi
heima hjá þér.“ Þær hafa fundið að það var alltaf svo mikið að gerast,
andrúmsloftið var þannig. Þeim fannst svo gaman að koma í borðstofuna
heima hjá mér af því að þar var ritvél og mamma að vinna við hana. Þær
sáu aldrei ritvél heima hjá sér.“
En þú manst þá væntanlega ekkert eftir þér án þess að formaður
Félags íslenskra hjúkrunarkvenna væri á heimilinu?
„Nei, nei, og svo var hún líka formaður Hjúkrunarfélagsins Líknar sem
stóð fyrir berklavörnum og heimahjúkrun í Reykjavík. Ég ólst upp með
þessu fernu: Líkn, Félagi íslenskra hjúkrunarkvenna, ömmu og afa, og
vestfirskum ungmeyjum.
Ég lærði snemma að taka niður beiðnir um heimilishjúkrun – ég var bara
smástelpa. Skrifaði þær í gula bók. Þetta var fyrir Hjúkrunarfélagið Líkn
og þær beiðnir fóru í gegnum mömmu af því að hún var í formennsku
þar. Ég hef ekki verið meira en svona sjö, átta ára þegar ég byrjaði að taka
þessar beiðnir varðandi heimahjúkrun niður. Ég veit alveg hvað þetta allt
heitir … klisma, stólpípa og ulcus ventriculi … læknarnir töluðu við mig
á latínu og ég tók alltaf niður, ulcus ventriculi, magasár.
Ég komst ekki hjá því að heyra margt af því sem mamma talaði
um löngum stundum í símann. Bróðir minn kallaði hana „mamma
símalanga“ af því hún talaði svo mikið í símann. Hún var alveg mögnuð.
Ég dáðist að henni þegar hún var í þessum löngu símtölum, til dæmis
að bjarga lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna, ég held að hún hafi verið
meginstoðin þar á þeim tíma. Það féll í hennar hlut. Svo er annað sem
mér þótti líka mjög merkilegt en það er að hún hafði svo mikinn skilning
á aðstöðu kvenna. Ég man eftir því að ég heyrði hana einhvern tíma
segja í símann: „Þér ætlið þó ekki að segja mér, prófessor, að þér ætlið að
stoppa stúlkuna af því að hún er gravid?“ Ég hef þá verið mjög ung því ég
man að mig langaði svo að vita hvað þetta „gravid“ þýddi. En nú finnst
mér svo flott að hún skyldi hafi sagt þetta af því þetta er mjög snemma
á stríðsárunum og mikið verið að fjalla um siðsemi kvenna í sambandi
við hernámið. Mér finnst þessi afstaða vera mikil og góð framtíðarsýn
fyrir konur þegar ég hugsa um þetta núna. Því þá átti að stoppa stúlku í
Hjúkrunarskólanum af því að hún var gravid. Hún mátti ekki taka próf!
Meira að segja þegar ég var í menntó, í MR, og það er nú orðið dálítið
langt síðan, þá hættu stelpur í skólanum ef þær urðu barnshafandi.
Hættu í skóla og komu kannski aldrei aftur. Það að verða „gravid“
stoppaði framgang kvenna. En þetta hefur nú skánað. Stúlkan hefur
áreiðanlega fengið að taka próf af því mamma sótti það svo fast.“
Félagið alltaf hluti af lífi Vigdísar
Í starfi sínu sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna var frú
Sigríður í tíðum samskiptum við stallsystur sínar á Norðurlöndunum.
Hún var formaður Samvinnu hjúkrunarkvenna á Norðurlöndum um
tíma, sótti þar fundi og stóð í bréfaskriftum við starfssystur sínar á
Norðurlöndunum en það varð til þess að góð vinátta myndaðist á
vettvangi hjúkrunarfræða milli landanna. Í bókinni Saga hjúkrunar á
Íslandi á 20. öld er fjallað um þessa vináttu og þess meðal annars getið að
ritari Félags norskra hjúkrunarkvenna hafi nefnt það í bréfi til Sigríðar að
hún teldi að Vigdís væri orðin nógu stór til að koma með móður sinni á
fundi og ráðstefnur.
Ég spyr Vigdísi hvort hún hafi einhvern tíma farið með mömmu sinni
út?
„Nei, ég gerði það aldrei. En hún var ófrísk að mér á fundi í Finnlandi
held ég, frekar en Noregi, og hún var svo lasin að þær vissu strax að hún
hlaut að vera barnshafandi. Hún var ein af þeim fáu sem var frú, þær voru
allar frökenar, en þá var hún búin að vera gift í fjögur ár og var kölluð
frú Thorvaldson. Þær gátu ekki skilið að hún héldi eigin nafni eftir að
hún var gift, hún bara hlyti að hafa ættarnafn og af því að hún átti mann
sem var Þorvaldsson þá var hún kölluð Thorvaldson. En ég var alltaf svo
mikið í uppáhaldi hjá þessum konum, þessum fullorðnu ógiftu konum,
að eftir stríðið sendu þær mér afskaplega fallegan grip sem ég á enn þá.
Það er áletrað með friðardúfu …“
Vigdís stendur upp og kemur stuttu seinna með hálsmenið, forláta
silfurmen með friðardúfu og áritun: Vigdís - från nordiska
Gudmödrarna 1945.
„Vináttan hélst alla tíð og í útför frú Sigríðar komu tvær konur frá
Norræna samvinnufélaginu sem fluttu minningarorð úr kórnum í
Dómkirkjunni. En það tíðkast víða á Norðurlöndum að fleiri en prestur
flytji eftirmæli. Mér þótti vænt um það.“
Það má með sanni segja að félagið hefur verið stór hluti af æsku
Vigdísar …
„Svo átti ég dúkku sem hét Kristófína Mikkelína. Ég hafði fengið
hana að gjöf og skírði hana í höfuðið á stofnanda Félags íslenskra
hjúkrunarkvenna og fyrsta formanni þess, Christophine Mikkeline
Bjarnhéðinsson. Ég er eiginlega alin upp með Félagi íslenskra
hjúkrunarkvenna, eins og það hét, nú Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga,
ég er í raun litla systir, eða stóra systir. Og út á þetta er ég gerð að
heiðursfélaga.
Félagið hefur alltaf verið hluti af mínu lífi og ég hef einatt gert mér far
um að rækta það. Það er eins og félagið hafi vitað að það ætti eitthvað
í mér.“
Frú Sigríður Eiríksdóttir var formaður Félags íslenskra hjúkrunarkvenna
í 36 ár, 1924-1960. Á myndinni er hún með dóttur sinni, Vigdísi, á leið á
Hótel Sögu í tilefni af 50 ára afmæli Hfí árið 1969.