Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2015, Blaðsíða 10
Fagið03/07
að fá sýkingu út frá miðbláæðalegg. Tæplega 30% sjúklinga sem fá
blóðsýkingu frá miðbláæðalegg hafa fengið næringu í gegnum legginn
(Garancho-Montero o.fl., 2008).
Miðbláæðaleggir geta meðal annars verið notaðir til blóðskilunar
hjá sjúklingum með nýrnabilun. Rannsóknir hafa hins vegar sýnt
að tæplega helmingur sjúklinga sem eru í langtímablóðskilun fær
bakteríuvöxt á enda miðbláæðaleggs sem notaður er til blóðskilunar
og þar af eru 9,7% sem fá blóðsýkingu sem rekja má til leggsins
(Hammarskjöld o.fl., 2006).
Miðbláæðaleggir geta haft mismunandi margar rásir. Með auknum
fjölda rása eykst hætta á sýkingu. Hver aukarás getur aukið hættu á
blóðsýkingu rúmlega fjórfalt. Það að rás sé ekki í notkun getur líka
aukið hættuna (Templeton o.fl., 2008).
Líkt og aðrar sýkingar geta blóðsýkingar haft slæma kvilla í för
með sér. Þeir fylgikvillar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að tengjast
blóðsýkingum eru meðal annars:
Lengri legutími á sjúkrahúsi,
aukin tíðni sýklasóttar,
aukin dánartíðni,
aukinn kostnaður (Warren o.fl., 2006., Laupland o.fl., 2006).
Fyrirbygging blóðsýkinga af völdum miðbláæðaleggja
Til að koma í veg fyrir sýkingu af völdum miðbláæðaleggs er mikil-
vægt að meðhöndla legginn rétt. Hér verður fjallað um þau atriði sem
rannsóknir hafa sýnt að séu mikilvæg til að fyrirbyggja blóðsýkingar
af völdum miðbláæðaleggja.
Handþvottur er eitt lykilatriði í allri sóttvörn. Það sama á við um
meðhöndlun á miðbláæðalegg. Ávallt skal þvo hendur með sápu og
vatni eða nota handspritt áður en meðhöndla á leggina (Pronovonst
o.fl., 2006; CDC, 2011).
Hámarkssóttvörn við ísetningu á miðbláæðalegg eru viss vinnu-
brögð sem nota skal þegar hann er settur upp hjá einstaklingi. Þessi
vinnubrögð fela í sér að sá sem setur miðbláæðalegg í sjúkling á að
vera með húfu, maska, dauðhreinsaða hanska og vera í dauðhreinsuð-
um slopp og sjúklingur á að vera með stórt gatastykki yfir sér. Eftir
að þessi vinnubrögð voru innleidd hefur blóðsýkingum af völdum
miðbláæðaleggja fækkað verulega (Raad o.fl., 1994).