Morgunblaðið - 23.11.2019, Side 45
MINNINGAR 45
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 23. NÓVEMBER 2019
✝ Anna Guð-mundsdóttir,
Blásölum 24, Kópa-
vogi, fæddist í
Reykjavík 23. apríl
1949. Hún lést á
Borgarspítalanum,
deild 7a, hinn 14.
október 2019.
Hún var dóttir
hjónanna Guðfinnu
S. Jónsdóttur, f. 22.
apríl 1927, d. 23.
desember 2013, og Guðmundar
Jóns Magnússonar, f. 4. október
1924, d. 12. apríl 1989.
Anna giftist
Friðriki Guð-
mundssyni 7.9.
1968. Þau slitu
samvistir 1981.
Synir þeirra eru:
Guðmundur Jón, f.
17.3. 1967, og Jó-
hann Magnús, f.
19.1. 1971.
Anna giftist
Matthíasi Daða Sig-
urðssyni 18.2. 1984.
Sonur þeirra er Finnur Daði, f.
25.9. 1987.
Jarðarförin hefur farið fram.
Mig langar að minnast í nokkr-
um orðum elskulegrar vinkonu
minnar Önnu sem lést þann 14.
október sl. 70 ára að aldri eftir erf-
iða baráttu við illvígan sjúkdóm
sem hafði hrjáð hana undanfarin
ár. Ég hitti Önnu fyrst fyrir 19 ár-
um er hún hóf störf hjá Fjársýslu
ríkisins árið 2000 þar sem ég vann.
Við þekktumst ekki vel fyrsta árið
en svo kynntumst við og áttum
vináttu sem aldrei bar skugga á.
Anna hafði svo fágað yfirbragð og
var mörgum kostum prýdd. Auk
þess að vera klár og dugleg var
hún sérlega hjálpsöm, skemmtileg
og hláturmild. Hún gat verið
hrókur alls fagnaðar ef svo bar
undir. Þessi glæsilega kona hreif
alla með sér sem þekktu hana. En
umfram allt var hún ákaflega hlý
manneskja. Sannur vinur vina
sinna. Svo heil í gegn. Aldrei
heyrði ég hana tala illa um nokk-
urn mann. Það er langt síðan ég
gerði mér grein fyrir því að hún
væri með þeim vönduðustu mann-
eskjum sem ég hef kynnst á lífs-
leiðinni. Ég er fegin að hafa sagt
henni það. Anna var mikil fjöl-
skyldukona og talaði oft um Matta
sinn, synina sína þrjá, barnabörn-
in og langömmubörnin tvö. Hún
var svo stolt af þeim öllum og var
dugleg að sauma út milliverk í
rúmföt handa þeim. Var svo glöð
þegar hún fékk lampa með stækk-
unargleri til að auðvelda henni
verkið. Svo keypti hún það besta í
sængurverin.
Anna lagði mikið upp úr gæð-
um, alveg sama í hvaða mynd það
var. Anna gat líka verið skemmti-
lega sérvitur. Ég sá hana aldrei í
sokkum. Var alltaf í bandaskóm
með táneglurnar sínar fallega
lakkaðar.
Ég minnist þess að ég orðaði
það við hana er hún kom í vinnuna
á ísköldum vetrarmorgni, hvort
henni væri ekki kalt. Nei, þetta er
ekkert mál var svarið. Kannski
loðfóðraðir kuldaskór í mesta
frostinu á milli staða. Hún gat líka
verið gikkur þegar kom að mat, en
kunni vel að meta það sem henni
þótti gott. Anna átti einstaklega
fallegan bíl, hárauðan Alfa Romeo
sem hún hugsaði svo vel um með
aðstoð frá Matta sínum. Þegar
sjúkdómurinn ágerðist gat hún
ekki keyrt hann og þótti henni það
miður. En hún gafst ekki upp bar-
áttulaust. Það er ekki langt síðan
við fórum til Sýslumanns, því hún
þurfti að endurnýja ökuskírteinið
sitt og þegar ég horfði á hana
skrifa nafnið sitt, þá minntist ég
þess hvað hún hafði fallega rit-
hönd. Hún trúði því eins og ég að
við fengjum hjálp frá ástvinum
okkar sem farnir voru þegar eitt-
hvað bjátaði á. Það var líka ein-
kennandi fyrir Önnu að þegar ein-
hver vandræði voru þá sagði hún
gjarnan: „Verra gæti það verið.“
Alltaf jákvæð og þrautseig. Við
göntuðumst stundum með það að
pabbar okkar væru örugglega að
spila saman á nikkurnar sínar í
efra.
En þeir voru báðir harmon-
ikkuleikarar. Mér er efst í huga
þakklæti fyrir að hafa kynnst
Önnu. Ég sakna hennar sárt. Fyr-
ir mér er Anna ekki farin neitt.
Hún er bara búin að flytja sig á
betri stað og þar vil ég hitta hana
þegar þar að kemur. Ég veit að
foreldrar hennar og aðrir ástvinir
hafa tekið vel á móti henni þegar
hún kom og pabbi hennar leikið
fyrir hana fallegt lag á nikkuna
sína.
Gulli og perlum að safna sér
sumir endalaust reyna.
Vita ekki að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina.
En viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
(Hjálmar Freysteinsson)
Elsku Matti, Finnur og aðrir
aðstandendur. Við Birgir vottum
ykkur okkar dýpstu samúð.
Guð blessi ykkur öll.
Rut Rútsdóttir.
Elsku Anna frænka mín. Það
var mikil sorg að heyra af andláti
þínu þar sem mér fannst eins og
þér liði miklu betur og þú varst
farin að hressast mikið eftir langa
sjúkrahúslegu. Það er léttir að
vita að þú þjáist ekki lengur eftir
langa baráttu við þennan sjúk-
dóm. Síðustu tíu árin voru þér erf-
ið.
Við frænkurnar vorum mjög
nánar þar sem mæður okkar voru
systur og voru bara tvær hér í
Reykjavík. Mamma mín var stóra
systir og mamma þín litla systir
enda fimm árum yngri. Það var
eins með okkur við vorum báðar
einkadætur. Ég stóra frænka og
þú litla frænka enda fjögur ár á
milli okkar.
Oft lenti ég í því hlutverki að
líta eftir litlu frænku og var það nú
ekki alltaf auðvelt. Um árabil
varst þú hjá okkur þegar mamma
þín fékk berkla og var á Vífilsstöð-
um. Þú varst 9 ára og eftir það
vorum við meira eins og systur.
Við áttum margar skemmtileg-
ar minningar frá þessum uppvaxt-
arárum. Sumarið sem við fórum til
Englands í skóla er ein skemmti-
legasta minningin. Þú fékkst auð-
vitað bara að fara af því að stóra
frænka fór. Eins og venjulega
hlustaðir þú ekki á mig þegar ég
var að reyna að gæta þín. þú varst
alltaf svo fljót að framkvæma það
sem þér datt í hug.
Við vorum búnar að hlæja oft
að því þegar þú varst búin með
alla peningana þína og fórst inn á
næsta pósthús og sendir skeyti
heim. Í því voru bara þrjú orð
„sendið peninga strax“. Ég vissi
ekki af þessu, en þegar við vorum
að borða kvöldmatinn í skólanum
var kallað upp í hátalarakerfinu á
þig og að það væri símtal frá Ís-
landi. Í þá tíma var ekki hringt til
útlanda nema á jólunum, það var
svo dýrt, enginn GSM þá.
Þetta hafði ekki gerst áður í
skólanum svo það héldu allir að
eitthvað slæmt hefði gerst. Jú, þá
var pabbi þinn í símanum og
mamma þín við hliðina þorði ekki
að tala, hélt að eitthvað hræðilegt
hefði gerst.
Það eru margar minningar sem
rifjast upp þegar ég hugsa um
gamla tíma. Það gæti fyllt margar
blaðsíður.
Ég mun alltaf muna eftir
frænkusystur minni með gleði.
Við hjónin vottum Matta, Gumma,
Jóa og Finni okkar dýpstu samúð
og eins öllum barnabönunum
hennar.
Erla Aðalsteinsdóttir.
Anna
Guðmundsdóttir
Það kom mér
mjög á óvart þegar
að ég frétti andlát
Jóns Emils. Mörg
umliðin ár höfðum við haft lítið
samband. En fyrr á ævinni áttum
við góð samskipti, þegar að ég
vann hjá Ingvari Helgasyni og
hann hóf þar vinnu um miðjan
sjöunda áratug síðustu aldar,
þegar Trabant-tímarnir hófust.
Jón var frábær starfsmaður,
léttur í lund, slitviljugur og eld-
klár til allra starfa. Lentum við í
mörgum ævintýrum sem ekki
verður tækifæri til að rifja upp
hér, þegar skall yfir alda mikilla
umsvifa við bílana. Var þá ekki
spurt um vinnu eða matartíma
því að allt varð að gera í einu,
helst í gær, og var þá oft við-
kvæðið hjá Ingvari: „Flýttu þér,
en farðu samt hægt,“ og átti þá
við að keyra hægt en gera annað í
hvelli.
Var ekki nema von að hann
segði það því að við vorum fáliðuð
og tíminn oft knappur, sérstak-
lega var það slæmt á föstudögum
og fram að hádegi á laugardög-
um. Átti Jón því stóran þátt í vel-
gengni fyrirtækisins í upphafi.
Jón var mikill áhugamaður um
flug og þrátt fyrir mikla vinnu þá
gaf hann sér tíma til að læra að
fljúga og tók flugmannspróf á litl-
ar vélar en ég veit ekki hvort
meira varð úr.
Enginn gerir sér grein fyrir
því hvað tíminn flýgur hratt fyrr
en eftir á og var alltaf ráðgert að
við myndum hittast, sem að ekki
varð úr, því miður.
Ég vil þakka Jóni gamla vin-
áttu og sendi eiginkonu og börn-
um mínar innilegustu samúðar-
kveðjur. Því miður þá hefi ég ekki
tök á að mæta í jarðarförina sem
ég hefði þó gjarnan viljað til að
votta honum virðingu mína og
þakklæti fyrir allt, verður þessi
grein því að duga.
Jón Emil var góður maður og
drenglyndur.
Agnar J. Levy.
Góður félagi og vinur er fallinn
frá. Jón Emil var alinn upp í
Jón Emil Árnason
✝ Jón Emil Árna-son fæddist 29.
september 1948.
Hann lést 6. nóv-
ember 2019.
Útför Jóns Emils
fór fram 22. nóv-
ember 2019.
Hraunbænum í
stórum bræðra-
hópi. Hann var
elstur þeirra
bræðra og góð fyr-
irmynd. Hann var
vel virkur í fótbolta
sem Fylkismaður
og var góður liðs-
maður og félagi á
yngri árum. Hann
var einnig góður
golfari.
Jón kom víða við á lífsleiðinni
eins og til dæmis í verslunar-
rekstri, brunavörnum og fé-
lagsstörfum. Hann stofnaði
ásamt félaga sínum fyrirtækið
Eldvarnarmiðstöðina hf. en það
fyrirtæki var eitt af frumkvöðlum
í reyk- og hitaskynjarakerfum
hér á landi en þeir seldu það síð-
ar.
Hann var um tíma í verslunar-
og veitingasölu með einum bróð-
ur sínum, bæði í Borgarnesi og
Reykjavík. Jón Emil starfaði í
áratugi hjá Slökkviliði Keflavík-
urflugvallar. Hann sat m.a. í
stjórn starfsmannafélags
slökkviliðsmanna og sat í ýmsum
nefndum sem fulltrúi félagsins er
varðaði launamál, tryggingar,
íþróttasamstarf bæði innanlands
og erlendis og var vel virkur í
flestum íþróttum og vann vel að
þessum málum.
Hann var góður samninga-
maður en fastur fyrir og hafði
góða yfirsýn, sem reyndist oft
vel. Jón var tryggur félagi og
hrókur alls fagnaðar í góðra vina
hópi.
Ég votta eiginkonu, börnum
og ættingjum mína innilegustu
samúð.
Guðmundur Haraldsson.
Mig langar til að kveðja vin
minn Jón Emil Árnason með
nokkrum orðum.
Á lífsleiðinni hittir maður
fjölda manns, alls konar fólk, en
aðeins örfáir setja mark sitt á
mann. Jón var maður sem tekið
var eftir, maður sem hlustað var
á, maður sem borin var virðing
fyrir, heiðarlegri og vandaðri
maður er vandfundinn. Jón setti
mark sitt á mig.
Á sínum yngri árum lifði Jón
ævintýralegu lífi víða um heim í
tengslum við vinnu sína við flug-
starfsemi. Þegar hann sagði frá
hlustaði maður oft agndofa, hvort
sem staðurinn var Gvatemala,
Kosovo, Bangladess eða Líbía.
Þarna talaði maður með mikla
lífsreynslu sem hann miðlaði
áfram á ótrúlega skemmtilegan
hátt.
Þess ber að geta að Jón var
einn af stofnendum flugfélagsins
Atlanta sem allir þekkja í dag.
Það var akkúrat í tengslum við
flug sem við Jón kynntumst, ég
verð Maríu ævinlega þakklátur
fyrir að hafa leitt okkur saman.
Jón talaði af stolti um dætur sína
og Ellu, sem var ekki aðeins
kletturinn í lífi hans, hún var Mo-
unt Everest í hans lífi.
Ég vil trúa því að Jón sé kom-
inn á betri stað og sendi samúð-
arkveðjur til hans nánustu.
Ómar R. Banine.
„Sæll gamli skarfur“, svona
byrjaði síðasta símtalið mitt við
Jón Emil núna í lok október en
við ætluðum að hittast yfir kaffi-
bolla og ræða málefni líðandi
stundar og þau verkefni sem Jón
var að dunda sér við. En Jón Em-
il var duglegur maður og einstak-
lega iðinn og þá sérstaklega þeg-
ar kom að félagsmálum enda
hrókur alls fagnaðar þar sem
tveir eða fleiri félagar hans hitt-
ust.
Þegar ég hóf störf í Slökkviliði
Keflavíkurflugvallar kom Jón
Emil að tali við mig og bauð mig
velkominn, útskýrði ýmsa hluti
og sagðist vita að ég myndi
ílengjast í þessu starfi, það var
hann viss um. Svona var hann við
alla, alltaf með opinn faðminn og
reiðubúinn til að aðstoða vini sína
í hverri þeirri vegferð sem þeir
lögðu í.
Fljótt komst ég að því að við
Jón Emil áttum eftir að verða
góðir mátar enda báðir víðtengd-
ir í flugi, golfi og svo félagsmál-
um.
Það var því einstaklega sárt að
heyra að hann hefði þurft að
kveðja áður en við hittumst því
mikið var að ræða. Veikindi Jóns
Emils hafa tekið á en hann gafst
aldrei upp, en í símtalinu okkar
ákváðum við að dvelja ekki við að
ræða þau heldur hvað tæki við
þegar batinn væri kominn og ein-
beita okkur að verkefnum dags-
ins og næstu daga.
Sárt er að kveðja eins góðan
vin og slökkviliðsmann og Jón
Emil, en í Hávamálum má lesa:
Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin.
...
Þessar þrjár línur finnst mér
lýsa Jóni Emil einstaklega vel og
veit ég að söknuður okkar vina
hans er mikill.
Með þessari bæn bið ég guð að
vaka yfir fjölskyldu þinni og okk-
ar:
Bæn slökkviliðsmanns
Ó elsku Guð, mitt ákall er
ef eldur verður laus,
að bæn mín megi þóknast þér
í því starfi sem ég kaus.
Og barnið smátt sem biður mig
því bráðum er of seint
sem aldur ber á ævistig
skal undan komast beint.
Gjör mér kleift að komast að
hvar minnsta kveinið brýst
og fela hröðum höndum það
sem heiftarbál af hlýst.
Eins neista sem að náungans
mun nísta börn og bú
að skýla húsi og frú.
Og ef að eftir vilja þinn
ef ég á að deyja nú.
Ég bið að konu og börnin mín
ávallt blessir þú.
Amen.
Fyrir hönd „gömlu“ félaganna
úr slökkviliðinu, Félags slökkvi-
liðsmanna á Keflavíkurflugvelli
og stjórnar Landssambands
slökkviliðs- og sjúkraflutninga-
manna,
Kristján Carlsson Gränz.
Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla
útgáfudaga.
Skil | Þeir sem vilja senda Morgunblaðinu greinar eru vinsamlega
beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morgunblaðslógóið í
hægra horninu efst og viðeigandi liður, „Senda inn minningargrein,“
valinn úr felliglugganum. Einnig er hægt að slá inn slóðina
www.mbl.is/sendagrein
Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin
að hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á
föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi).
Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber-
ist áður en skilafrestur rennur út.
Minningargreinar
Þökkum innilega samúð, hlý faðmlög og
vinakveðjur vegna andláts
GUÐFINNU STEFÁNSDÓTTUR
frá Fífilgötu 8
í Vestmannaeyjum.
Sérstakar þakkir sendum við starfsfólki
Hraunbúða í Vestmannaeyjum.
F.h. aðstandenda,
Margrét Rósa, Erna, Tómas, Stefán Haukur,
Ingunn Lísa og Iðunn Dísa Jóhannesarbörn
Innilegar þakkir til allra sem sýnt hafa
okkur samúð og stuðning við andlát og
útför móður okkar, tengdamóður, ömmu
og langömmu,
HÖNNU AÐALSTEINSDÓTTUR,
áður til heimilis í Hlégerði 37a,
Kópavogi.
Sérstakar þakkir fær starfsfólk 4. hæðar á Skjóli fyrir frábæra
umönnum og hlýhug til okkar í veikindum Hönnu.
Þór Fannar Guðrún K. Markúsdóttir
Heimir Fannar Cheryl Fannar
Valur Fannar Guðlaug I. Tryggvadóttir
Hanna Mjöll Fannar
barnabörn og barnabarnabörn
Innilegar þakkir fyrir samúð og hlýhug við
andlát og útför okkar hjartkæru
KRISTÍNAR HELGADÓTTUR.
Kærar þakkir færum við starfsfólki Sólvalla
á Eyrarbakka fyrir góða umönnun og hlýju.
Anna Þóra Einarsdóttir Halldór Ingi Guðmundsson
Hildur Einarsdóttir Guðmundur Arnoldsson
Gunnar Einarsson Hulda Gunnlaugsdóttir
Garðar Einarsson Sigríður Dýrfinna Jónsdóttir
Helga Einarsdóttir Sigge Lindkvist
og fjölskyldan öll
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð,
hlýhug og stuðning vegna andláts og
útfarar ástkærs eiginmanns, föður,
tengdaföður og afa,
JÓNS BJÖRNSSONAR
fisksala.
Sérstakar þakkir færum við starfsfólki
bráðalyflækningadeildar A2 fyrir sérstaka hlýju, virðingu
og umhyggju.
Svana Ragnheiður Júlíusdóttir
börn, tengdabörn og barnabörn