Læknablaðið - Jan 2020, Page 35
LÆKNAblaðið 2020/106 35
yfir staðfest krabbameinsvaldandi efni
fyrr en árið 2011.“
Hálftómt eða yfirfullt glas
Hún bendir myndrænt á hvernig líkaminn
virki. „Ég lýsi þessu sem eiturefnaglasi
innra með fólki. Við erum alltaf að verða
fyrir pínu eituráhrifum í senn og taka
inn hormónatruflandi efni. Alla ævina er
þetta glas að fyllast og tæmast.“ Líkaminn
hreinsi sig og afeitri eftir mætti.
„En ef alltaf er bætt á glasið og engar
ákvarðanir teknar um að sneiða hjá því
sem getur skaðað líkamann, yfirfyllist
glasið og það flæðir upp úr,“ segir hún.
„Þá getur sjúkdómur tekið sér bólfestu í
líkamanum.“ Afeitrunarlíffæri þurfi sinn
tíma til að starfa, eins og lifrin og nýrun.
„Ég er að segja þetta svo fólk geti tekið
málin í sínar hendur og aukið líkurnar á
að það haldi heilsu lengur. Mér finnst það
ein mikilvægustu skilaboð sem fólk getur
fengið frá okkur læknum,“ segir hún.
Danskir læknar fyrirmyndir
Una nefnir að í Danmörku stígi læknar
fram og vari við hættunni í umhverfinu
og nefnir Philippe Grandjean, prófessor í
umhverfislæknisfræði í Harvard og Syd-
dansk Universitet.
„Hann segir: Ekki borða ólífrænan mat,
sérstaklega ekki eigirðu von á barni því
í móðurkviði eru þau óvarin. Ýmislegt
getur því haft áhrif á taugakerfi þeirra,“
hefur Una eftir honum. Hún nefnir einnig
nýlega rannsókn á 948 mæðrum frá því
þær voru þungaðar til 18 ára aldurs barn-
anna þeirra sem leidd var af Syddansk
Universitet og Grandjean er meðhöfundur
að.
„Hún sýnir fylgni milli skordýraeiturs
í blóði mæðranna og þess að börn þeirra
væru með ADHD. Rannsóknin sýnir
marktæka fylgni og líkurnar á að börn-
in hefðu ADHD jukust næstum því um
helming hjá þeim mæðrum sem höfðu
mest skordýraeitur í blóðinu miðað við
þær sem höfðu minnst,“ segir Una.
„Þetta segir manni að fáfræði er alsæla
og langflestir lifa við hana. Mér finnst það
sárt. Mig langar að stoppa fólk á kassa
í búðum og benda því á hvað það er að
kaupa.“ Ákveðin litarefni í nammi valdi
til að mynda einbeitingarörðugleikum hjá
börnum.
„Það er skylda að merkja nammi með
innihaldslýsingu en það er auðvitað ekki
gert þegar það er í nammibarnum,“ segir
Una. „Börn eru því að innbyrða efni sem
hafa neikvæð áhrif á taugakerfi þeirra.“
En til hvaða ráða grípur hún sjálf nú
þegar hún ert ólétt? „Ég nota ekki ilmvatn.
Ég hætti að nota ilmkerti og vellyktandi
heima fyrir. Ég hef hent öllum kremum
sem ekki eru svansvottuð. Ég nýti öpp
sem hjálpa mér að fylgjast með eiturmagni
í snyrtivörum, meðal annars eitt sem heit-
ir Think Dirty,“ segir hún.
„Ég hef áttað mig á að ég hef eytt
hundruðum þúsunda króna í snyrtivörur
sem eru stútfull af ilmefnum og skaða mig
því þau hafa hormónatruflandi áhrif. Ég
kaupi eins mikið lífrænt og ég get, bæði
matvæli og snyrtivörur, og er meðvituð
um umhverfið,“ segir hún. Mikilvægt sé
að opna umræðuna í mæðravernd hér á
landi.
Öfgafullt eða alvöru áhyggjur?
En finnst læknum hún ekki öfgafull? „Ég
hef rætt við nokkra lækna sem hafa komið
á fyrirlestra mína. Þeir eru áhugasamir.
Þeir sem hafa talað við mig vita að ég
predika ekki persónulega skoðun mína
heldur byggi orð mín á rannsóknum. Ég er
ekki að selja neina vöru og hef enga beina
hagsmuni heldur vil aðeins fólki vel og
vara það við,“ segir hún. „Ég hef óbilandi
trú á þessu og áhuga. Þetta er mér hjart-
ans mál.“
Matarhugsun hefur brenglast í fólki
„Næringarfræði var ekki svona flókin í gamla daga. Þá var spurt um prótein, fitu
og kolvetni. Nú er staðan sú að búið er að framleiða matarstykki sem eiga að koma
í stað máltíðar og fólk hefur misst gagnrýna hugsun,“ segir Una Emilsdóttir læknir
og nefnir mikilvægi þess að læknar kynni sér fræðin og hversu mjög þau hafi breyst.
„Menntskælingur hugsar ekki: voðalega er skrítið að ég geti skipt út máltíð fyrir
orkustykki sem er eins og nammi. Hann hugsar bara hvort kökudeigsbragðið eða
súkkulaði sé betra,“ segir hún.
„Ungt fólk hefur alist upp við að hægt sé að fá allan fjandann úti í búð. Vítamín
í gúmmíbangsaformi, samanþjöppuð stykki í stað máltíðar með öllu því bragði sem
hugurinn girnist. Þau drekka fjólubláa og bláa orkudrykki, sem líta út fyrir að vera
baneitraðir og líkjast engu í náttúrunni,“ segir Una. Helsta gagnrýna hugsunin sem
fólk hafi gagnvart mataræði sé hvort það sé fitandi.
„Fólk hugsar um kaloríur. Það hugsar ekki; ætli séu litarefni í þessu sem eru mér
skaðleg? Ætli séu hormónatruflandi eða krabbameinsvaldandi efni í vörunni? Fáar
konur hugsa um skaðleg efni í snyrtivörum fyrr en eitthvað kemur upp á. Oft er það
þegar fólk lendir í áfalli, fær sjúkdómsgreiningu eða upplifir veikindi ættingja.“ Þá
fer fólk í naflaskoðun. Það er mikilvægt að efla gagnrýna hugsun fólks um neyslu
sína og mataræði.
Hlustið á viðtalið
á hlaðvarpi
Læknablaðsins