Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 8

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 8
8 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2019 F R É T T I R Ú R F É L A G S S TA R F I FRÉTTIR AF ALÞJÓÐASTARFI LJÓS- MÆÐRAFÉLAGS ÍSLANDS ÁRIÐ 2019 Ljósmæðrafélag Íslands fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 2019 og bar allt starf félagsins innan lands þess merki og verður í þessum pistli aðeins fjallað um alþjóðastarf félagsins. STJÓRNARFUNDUR NJF Fundurinn var að þessu sinni haldinn í Reykjavík dagana 30. apríl í Borg- artúni og 1. maí á Nauthól. Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands bauð stjórn NFJ til kvöldverðar á heimili Eddu Sveinsdóttur ljósmóður. Á fundinn voru mættir tveir fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum. Áslaug Valsdóttir formaður bauð gesti velkomna og síðan var gengið til dagskrár og var formaður NFJ fundarstjóri. Fulltrúar félaganna allra kynntu sig stuttlega og farið var yfir fundargerð síðasta fundar sem haldinn var í Þórshöfn í Færeyjum og hún samþykkt með smávægilegum breytingum. Forseti NJF, Hildur Kristjánsdóttir tók saman helstu mál frá síðasta fundi í stuttu máli og minnti á það sem enn stendur út af verk- efnalistanum. Farið var yfir meðlimalistann og netföng og símanúmer uppfærð. Síðan var skýrsla formanns flutt og sagt frá því að tvær hollenskar ljós- mæður hefðu óskað eftir að fá að fylgjast með stjórnarfundinum síðari dag hans og var það samþykkt með tölvupósti fyrir fundinn svo þær vissu um svar okkar með góðum fyrirvara. Forseti tók til umræðu bréf sem barst til samtakanna um beiðni frá Vårdförbundet að gerast meðlimir í NJF. Allir stjónarmenn NJF höfðu fengið bréfið í hendur og urðu umræður um þetta mál allgóðar. Forsaga þess er sú að Ljósmæðrafélag Svíþjóðar sagði sig úr Vårdförbundet vegna þess að þeim fannst hag þeirra ekki sinnt nægjanlega vel þar. Vårdförbundet telur um 114 þús. meðlimi og félög innan vébanda þess eru hjúkrunarfræðingar, röntgen-hjúkrunarfræðingar, líftæknifræðingar og ljósmæður sem eru u.þ.b. 5-6000 sjá nánar á vefsíðu: https://vardforbundet.se/). Forsvarsmenn ljós- mæðra töldu félagi sínu betur borgið innan SRAT samtök háskólamennt- aðra heilbrigðis-starfsmanna hjá ríki og í einkageira (sjá:https://www. srat.se/ ). Um þetta mál urðu talsverðar umræður og var beiðni Vårdför- bundet hafnað kurteislega á þeim forsendum að skv. lögum samtakanna getur aðeins eitt félag frá hverju landi verið aðili að samtökunum. Málið er viðkvæmt og ljósmæður sem hafa verið innan Vårdförbundet til fjölda ára þurfa nú að taka afstöðu til þess hvar þeim finnst þær eiga heima. Málið mun verða rætt frekar á næsta stjórnarfundi NJF. Þessar umræður leiddu til frekari upplýsinga um nám og þjálfun ljósmæðra og stóru spurningarinnar um hvort sé betra/heppilegra að hafa hjúkrunarmenntun sem inntökuskil- yrði í ljósmæðranám eða svo kallað ,,direct entry“ nám. Næst var rætt um Stefnuyfirlýsingu NJF sem fjallar m.a. um menntun og störf ljósmæðra og var hún endanlega samþykkt á því formi sem hún er nú en ítrekað að um lifandi plagg sé að ræða. Enn bólar ekkert á svari við bréfi sem forseti NJF og Lillian Bondo formaður danska ljósmæðrafé- lagsins sendu til Norrænu Ráðherranefndarinnar i nóvember 2017 þar sem NJF lýsti stuðningi við stofnun þverfaglegs norræns vísindaseturs sem ætti að fjalla um forvarnir vegna ófrjósemi. Hvert landanna sex fluttu skýrslur sínar og erindi sem óskað var eftir að fjallað yrði um á fundinum og spunnust um þessi efni góðar og gagnlegar umræður. Hér á eftir er stuttlega fjallað um það helsta sem kom fram. Fulltrúar Danmerkur lýstu 6 liða áherslum sínum í starfi félagsins sem hófst eftir launastríð þeirra 2008, þessar áherslur eru: Gott vinnuumhverfi, verkefni/verksvið ljósmæðra, skipulag ljósmæðraþjónustu, rannsóknir og menntun, stjórnun og staða/virðing. Þessi vinna gengur misvel og hefur verið mjög ögrandi sérstaklega hvað varðar verksvið ljósmæðra. Búið er að setja á laggirnar unglingamóttökur allvíða en útbreiðsla starfseminnar gengur hægt og þar sem innleiðing er hafin gengur allvel. Dönskum ljósmæðrum sem vinna sjálfstætt eða hjá einkafyrirtækjum fjölgar hratt og hefur ljósmæðrafélagið beitt sér fyrir starfsumhverfi þessara ljósmæðra og hvatt til þess að konur geti tekið upplýst val um fæðingarstað. Verkefnið ,,þekktu ljósmóðurina þína“ (d. kendt jordmor) hefur verið innleitt á langflestum fæðingardeildum landsins og hófst vinna við það einnig á sjúkrahúsunum fjórum í Kaupmannahöfn á árinu. Vonir eru bundnar við að verkefnið nái fótfestu, muni laða að ljósmæður til vinnu og fjölga heimafæðingum í borginni. Atvinnuleysi meðal ljósmæðra er nánast ekki til og er það viðsnún- ingur frá því sem verið hefur. Á sumum sjúkrahúsum er skortur á ljós- mæðrum og hefur félagið áhyggjur af því að ljósmæður sem koma frá öðrum löndum t.d. Íslandi leiti ekki til félagsins danska og skapast af þessu umræður um samskipti erlendra ljósmæðra við ljósmæðrafélögin í löndunum. Engin ákveðin niðurstaða fékkst í málinu, en allir eru þó sammála um að heppilegt sé að erlendar ljósmæður gangi í félag ljós- mæðra í viðkomandi landi og hafi þannig bakland ef eitthvað bjátar á. Vorið 2014 hófst kandidats menntun (ígildi meistaraprófs) í ljósmóð- urvísindum við Syddansk Universitet í Odense. Námið er eftirsótt og þær ljósmæður sem útskrifuðust úr fyrsta hollinu fengur allar vinnu við sitt sérsvið. Finnskar ljósmæður heldu upp á 100 ára afmæli sitt á árinu (septem- ber) og var þema ársins; réttur kvenna til að fá þjónustu ljósmæðra (e. women‘s rights to midwife). Þær leggja mikla vinnu í að hafa áhrif pólitískt á að ljósmæður verði aðalumönnunaraðili kvenna á meðgöngu, í fæðingu og sængurlegu og að finnskar konur eigi rétt á þjónustu ljósmæðra á hverju æviskeiði sínu. Finnskar ljósmæður hafa bent á kosti þess að getnaðarvarnir verði gjaldfrjálsar fyrir ungt fólk og hafa um 50 borgir/sveitarfélög hrint þessu í framkvæmd. Finnska ljósmæðrafélagið hefur lagt áherslu á að eðlilegar fæðingar séu viðmið/hugmyndafræði ljósmæðra og haldið fjölda námskeiða fyrir ljósmæður sem þær telja að hafi haft áhrif á að t.d. vatnsfæðingum hefur fjölgað. Félagið hefur hvatt til þess að nám ljósmæðra verði 5 ára mastersnám. Eins og kom fram í skýrslu okkar á síðasta ári er í Færeyjum áfram ákveðinn vandi á eina sjúkrahúsi landsins, yfirljósmóðirin var rekin og starfið lagt niður af stjórnendum spítalans. Ljósmæðrafélagið kærði þessa uppsögn og vann málið og yfirljósmóðirin kom aftur til starfa í ágúst, en áfram undir sömu stjórn spítalans. Þetta reyndist þungur róður og endaði með því að hún sagði starfi sínu lausu 1. mars. Mikið hefur reynt á stjórn- endur ljósmæðra á undanförnum árum og hefur ljósmæðrafélagið hlutast til um að unnin verði vinna með stjórn spítalans til að skoða skipulag varðandi þessa þjónustu og starfslýsingu yfirljósmóður. Árið einkenndist að auki af kjarabaráttu ljósmæðra og stigvaxandi verkföllum sem enduðu með því að 24. nóvember kl 15.00 var engin ljósmóðir á vakt á öllum eyjunum. Sunnudaginn 26. nóv var þeim boðið til fundar með fjármálaráðherra og á mánudeginum þann 27. skrifuðu ljósmæður undir nýjan kjarasamning til þriggja ára. Samningurinn hafði í för með sér umtalsverðar kjarabætur fyrir ljósmæður. Sem dæmi má nefna að ljósmæðrum hefur fjölgað um sex á sjúkrahúsinu (3,75 stöðu- gildi). Mikil eftirvænting er eftir því að ný fæðingardeild opni í nýja hluta sjúkrahússins og mun það verða árið 2021 ef áætlanir standast. Áslaug Valsdóttir formaður Ljósmæðrafélags Íslands kynnti skýrslu félagsins og sagði frá kjaraviðræðum og gangi þeirra. Íslenska félagið á 100 ára afmæli 2019 og hefur árið litast af undirbúningi afmælisins og ráðstefnu NJF sem verður haldin í Hörpu 2. – 4. maí. Hún sagði einnig frá Twinning verkefni við hollenska ljósmæðrafélagið KNOV. Frekari upplýsingar um stöðuna á Íslandi má finna í skýrslu formanns frá aðalfundi 2019.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.