Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 14

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 14
14 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2019 ÁHERSLA Á FULLNÆGJANDI SVEFN Í HEILSU- EFLINGU BARNSHAFANDI KVENNA Síðasti þriðjungur meðgöngu virðist vera mikilvægasta tímabilið í tengslum skertra svefngæða og svefnlengdar við inngrip og vanda- mál í fæðingum en það hefur einnig verið mest rannsakað. Núver- andi gagnreynd þekking bendir til að skert svefngæði og stutt svefn- lengd á síðasta þriðjungi meðgöngu geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir útkomu fæðinga, bæði fyrir móður og barn. Michele Okun, doktor í sálfræði, hefur mikið skoðað svefn á meðgöngu og tengsl við útkomu fæðinga. Hún setti fram tilgátu þess efnis að skerðing á svefnheilbrigði snemma á meðgöngu gæti verið sjálfstæður áhættuþáttur fyrirburafæðingar (Okun o.fl., 2009). Eftir nánari athugun og rannsóknir (Okun o.fl., 2011; Okun o.fl., 2012) ályktaði hún þó að líklega væri það ekki raunin. Hún vildi í kjölfarið meina að líklegra væri að aðrir undirliggjandi sálfélagslegir þættir, t.d. streita, sem mögulega hefðu áhrif á svefngæði væru mikilvægari þættir í tengslum við ótímabært upphaf fæðingar. Ljóst er þó að svefn og streita haldast í hendur og hafa gagnkvæm áhrif á hvort annað. Streita eykur líkur á skertum svefngæðum en sömuleiðis veldur skortur á svefni og hvíld aukinni streitu (Walker, 2017). Þannig getur reynst erfitt að átta sig á hvort er orsökin og hvort er afleiðingin. Af þeim rannsóknum sem hafa skoðað alla þriðjunga meðgöngu hefur engin þeirra veitt upplýsingar um hvernig svefngæði barns- hafandi kvenna þróuðust á meðgöngu, þ.e.a.s. hvort það væru tilfelli þar sem kona upplifði skert svefngæði á fyrsta þriðjungi meðgöngu en ekki á seinni tveimur (Li o.fl. ,2017; Okun o.fl., 2011; Sharma o.fl., 2016). Velta má fyrir sér, í ljósi þess að rannsóknir hafa sýnt að skerðing á svefngæðum og svefnlengd aukist með aukinni meðgöngulengd (Chang o.fl., 2010; Facco o.fl., 2010; Mindell, Cook og Nikolovski, 2015; Plancoulaine o.fl., 2017; Sedov o.fl., 2018; Wilkerson og Uhde, 2018), hvort það sé ekki líklegra að þegar kona upplifir skert svefngæði á fyrsta þriðjungi meðgöngu geri hún slíkt hið sama á seinni hluta meðgöngunnar. Því gæti reynst erfitt að sýna fram á það að skert svefngæði og svefnlengd eingöngu á fyrsta eða öðrum þriðjungi meðgöngu tengist útkomu fæðinga. Líklegt er að sá hópur kvenna sem aðeins upplifir skert svefngæði á fyrsta eða öðrum þriðjungi meðgöngu sé fámennur eða jafnvel ekki til. Hvort sem svefngæði eða svefnlengd á fyrstu tveimur þriðjungum meðgöngu tengjast útkomu fæðinga eða ekki er ljóst að upplýsingar um svefnheilbrigði svo snemma á meðgöngu eru mikilvægar fyrir ljósmæður þar sem skerðing bæði á svefngæðum og svefnlengd eykst yfirleitt með aukinni meðgöngulengd. Þannig væri hægt að greina svefnvandamál hjá barnshafandi konum snemma og aðstoða þær sem á þurfa að halda með áherslu á að fyrirbyggja enn frekari vanda. Eins væri mikilvægt að fylgja þessum konum vel eftir ekki síst í ljósi þess hvaða tengsl skert svefngæði og svefnlengd á síðasta þriðjungi meðgöngu virðast hafa við útkomu fæðinga. Ljósmæður eru ábyrgir fagaðilar í umönnun kvenna í barn- eignarferli og geta haft mikil áhrif á velferð þeirra. Eitt af megin- markmiðum ljósmæðra er að stuðla að bættu heilbrigði en þar er lykilatriði að viðhafa heildræna sýn á konuna og fjölskyldu hennar og til þess þarf að taka tillit til allra þátta heilbrigðis (Dunkley- -Bent, 2017) þ.á.m. svefnheilbrigðis. Hlutverk ljósmæðra eru fjöl- þætt en þau felast m.a. í því, í samráði við konur, að veita stuðning, umönnun og ráðgjöf til kvenna á meðgöngu, í fæðingu og sængur- legu (Ljósmæðrafélag Íslands, e.d.). Þar sem niðurstöður rannsókna sýna að svefngæði og svefnlengd virðast tengjast útkomu fæðinga snertir það óhjákvæmilega störf ljósmæðra, ekki síst þeirra sem sinna meðgönguvernd. Meðgönguvernd er eitt af klínískum sérsviðum ljósmæðra en með því er átt við störf sem fela í sér bein samskipti við konur, ljósmóð- urfræðilega greiningu, meðferð og forvarnir á meðgöngu (Reglugerð nr. 1089/2012). Skipulag meðgönguverndar á Íslandi tekur mið af klínískum leiðbeiningum en markmið þeirra er að birta yfirgrips- miklar og gagnreyndar upplýsingar um bestu mögulegu þekkingu um meðgönguvernd heilbrigðra kvenna sem ganga með eitt barn. Þeim er þannig ætlað að auðvelda fagfólki og barnshafandi konum að taka upplýsta ákvörðun um meðferð sem byggð er á gagnreyndri þekk- ingu (Landlæknisembættið, 2008). Engu að síður er hvorki minnst á svefn á meðgöngu né afleiðingar skerts svefnheilbrigðis fyrir barns- hafandi konur og börn þeirra þrátt fyrir vaxandi safn gagnreyndrar þekkingar á efninu. Vert er þó að taka fram að íslensku klínísku leið- beiningarnar voru síðast yfirfarnar árið 2010 (Landlæknisembættið, 2010) og því kominn tími á endurútgáfu. Þar verður svefn, hinn órjúfanlegi partur af tilveru okkar og heilbrigði, vonandi tekinn með inn í heildarmyndina. Grein þessi er fyrst og fremst skrifuð til að vekja máls á mikil- vægi svefns í heilsueflingu barnshafandi kvenna og draga fram nýjustu þekkingu sem vonandi getur nýst ljósmæðrum sem starfa í meðgönguvernd og sinna fræðslu um heilsueflingu til barnshafandi kvenna. Skert svefngæði og stutt svefnlengd á meðgöngu virð- ast geta aukið líkur á að barn fæðist fyrir tímann, lengri tímalengd virkrar fæðingar, áhaldafæðingu og keisaraskurði. Þetta eru mikil- vægar upplýsingar sem ljósmæður þurfa að vera meðvitaðar um þegar þær sinna konum í meðgönguvernd. Fyrirburafæðing getur haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér, ekki síst fyrir nýburann, en til að mynda eru fyrirburafæðingar ein helsta ástæða burðarmáls- dauða (Petty, 2017). Fæðing getur verið valdeflandi og styrkjandi upplifun sem skilur eftir sig jákvæðar minningar en lengd fæðing, notkun áhalda í fæðingu og keisaraskurður geta aukið líkur á að konur upplifi fæðingarreynslu sína erfiða (e. traumatic birth). Erfið fæðingarreynsla getur haft alvarlegar líkamlegar og tilfinningalegar afleiðingar í för með sér fyrir móður og nýbura eins og t.d. fæðingar- þunglyndi, skerta tengslamyndun og jafnvel áfallastreituröskun. Slíkt getur dregið dilk á eftir sér fyrir konuna og fjölskyldu hennar, jafn- vel mörgum árum eftir að fæðing á sér stað (Jomeen, 2017). Ljós- mæðrum ber að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sporna við slíku en þar gætu fyrirbyggjandi aðgerðir og heilsuefling á meðgöngu þar sem viðhöfð er heildræn sýn verið lykilatriði. Áhersla var lögð á svefngæði og svefnlengd í þessari grein vegna þess að þau geta snert svefn allra, ekki síst kvenna á meðgöngu, á meðan önnur svefnvandamál eins og t.d. öndunartengdar svefnrask- anir og fótaóeirð eru afmarkaðari og eiga við fámennari hóp einstak- linga (Sedov o.fl., 2018; Wilkerson og Uhde, 2018). Þannig er mögu- lega hægt að yfirfæra efnið á stærri hóp kvenna en ella. Greininni er þannig ekki síst ætlað að gagnast ljósmæðrum í meðgönguvernd sem sinna almennt heilbrigðum konum í eðlilegri meðgöngu. Ljósmóðir sem sinnir meðgönguvernd má búast við því að allt að helmingur þeirra kvenna sem hún sinnir upplifi skert svefngæði og svefnlengd (Sedov o.fl., 2018). Af þessum sökum er nauðsynlegt að ljósmæður sem starfa í meðgönguvernd geri sér grein fyrir þeirri staðreynd að svefn, sem slíkur, hefur verið vanræktur þáttur heilsueflingar (Erla Björnsdóttir, e.d.; Walker, 2017) og að nú sé kominn tími til að forgangsraða svefni ofar í meðgönguvernd heldur en hefur verið gert til þessa. Þetta er ekki síst mikilvægt á stafrænni öld og í ljósi þeirrar ofurkonu-ímyndar sem nútímasamfélag dregur upp af konum (Chang o.fl., 2010). Í slíkri forgangsröðun þurfa ljósmæður sem starfa í meðgönguvernd í fyrsta lagi að vera meðvitaðar um áhrifa- þætti svefnheilbrigðis hjá barnshafandi konum og í öðru lagi að hafa úr fjölbreyttum úrræðum að velja. Stór hluti barnshafandi kvenna upplifir eðlilegar breytingar á svefni tengdum lífeðlisfræðilegum breytingum meðgöngu (Oyiengo o.fl., 2014). Hins vegar er ljóst að það er fleira sem hefur áhrif þar á og getur gert hlutina verri en þeir þurfa að vera. Til að mynda eru flestar konur í nútímasamfélagi starfandi á vinnumarkaði án þess að ábyrgð þeirra hafi minnkað heima við. Það gerir það að verkum að þær hafa oft mikið á sinni könnu og hafa lítinn tíma til að sinna sjálfum sér og í þannig tilfellum mætir svefn oft afgangi (Chang o.fl., 2010). Ýmislegt annað tengt nútímasamfélagi getur einnig haft áhrif á svefnheilbrigði barnshafandi kvenna en stöðug notkun gervi- lýsingar (e. artificial light), t.d. frá ljósaperum og stafrænum búnaði eins og spjaldtölvum og snjallsímum, koffín-notkun, notkun vekjara- klukku o.fl. geta valdið skertum svefngæðum og styttri svefnlengd. Gervilýsing truflar tímasetningu á seyti melatonins úr heiladingli og getur sem dæmi valdið því að einstaklingur sofnar hugsanlega

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.