Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 17

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 17
17LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2019 Nemar í ljósmóðurfræði sem hófu nám nú í haust eru fyrstu nemarnir sem læra ljósmóðurfræði eftir breyttri námskrá. Nýja námskráin felur í sér ýmsar spennandi breytingar, svo sem aukna áherslu á eðlilegt barneignarferli í verknámi, námskeið um getnaðarvarnarráð- gjöf og valnámskeið á fjórða ári í hjúkrun. Náminu lýkur svo með meistaragráðu til starfsréttinda. FORKRÖFUNÁMSKEIÐ Á FJÓRÐA ÁRI Í HJÚKRUN Eins og áður eru inntökuskilyrði í nám í ljósmóðurfræði BS-gráða í hjúkrunarfræði og íslenskt hjúkrunarleyfi. Forkrafa fyrir umsókn er nú einnig að hafa lokið valnámskeiðum (16 einingum) á 4. ári í hjúkrunarfræði við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, eða samb- ærilegum námskeiðum úr öðrum háskólum, Kynheilbrigði 6e (haust) og Konur, heilsa og samfélag 10e (vor). Þessi námskeið voru fyrst kennd samkvæmt nýrri námskrá í hjúkrunarfræði skólaárið 2018- 2019. Hjúkrunarfræðingum sem hafa lokið námi býðst að taka þessi námskeið ef þeir hyggja á nám í ljósmóðurfræði. Í námskeiðinu Kynheilbrigði kynnast nemendur hugmyndafræði kynheilbrigðis og skoða mikilvæga þætti er varða kynheilbrigði einstaklingsins, parsins og hvernig samfélagið getur haft mótandi áhrif á kynheilbrigði fólks. Jafnframt skyggnast nemendur inn í margvíslega áhrifaþætti á kynheilbrigði eins og barneign, ófrjósemi, sjúkdóma og meðferð þeirra sem geta raskað eðlilegri starfsemi líkamans og haft áhrif á líðan. Námskeiðið Konur, heilsa og samfélag fjallar um líffræðilega, sál-/ félags- og umhverfislega þætti sem hafa áhrif á heilbrigði kvenna. Pólitísk stefnumótun og hugmyndir um heilbrigði eru skoðaðar í kynjafræðilegu samhengi. Unnið er út frá heildrænu sjónarmiði um æviskeiðin og fjallað um áhrif lífsviðburða, sjúkdóma, ýmissa kvilla og lausnir við þeim. Í námskeiðinu er einnig fjallað um sérhæfða líffærafræði kvenna, fósturfræði og barneignarferli og helstu hugtök í erfðafræði og litningarannsóknum í tengslum við meðgöngu. ÁHERSLA Á EÐLILEGT BARNEIGNARFERLI Í nýrri námskráá hefur kennsla um barneignarferlið verið endur- skipulögð þannig að nú er aukin áhersla á samfellda þjónustu og kennt samþætt um meðgöngu, fæðingu og sængurlegu í sama námskeiðinu. Kennt er um eðlilegt barneignarferli á fyrsta misseri og frávik í barneignarferlinu á seinna misseri fyrsta árs. Þetta gefur nemendum tækifæri til að læra um barneignarferlið sem heild frá upphafi náms, öðlast færni og skilning á því sem eðlilegt er fyrst, og dýpka svo þekkingu sína í ljósmóðurfræði með því að skoða frávik og áhættuþætti á seinna misseri. Til þess að styðja enn frekar við færni nemenda í eðlilegu barneignarferli byrjar klínískt nám fyrr í náminu og fer fram á fyrra misseri fyrsta árs í heilsugæslu og fæðingarstöðum C og D, þar sem gera má ráð fyrir að ljósmæður séu að mestu leyti að sinna heilbrigðum konum í eðlilegu barn- eignarferli. Háskóli Íslands gerði í sumar samning við Björkina um samstarf við klíníska kennslu nema og hafa nú allir nemendur á fyrra ári í ljósmóðurfræði fengið tækifæri til þess að sinna konum í eðli- legu barneignarferli bæði á Fæðingarstofu og í heimahúsum með ljósmæðrum Bjarkarinnar. Að auki fóru nemendur í verknám á eftir- farandi fæðingarstaði: Selfoss Keflavík, Akranes, Neskaupsstað og Ísafjörð. RÁÐGJÖF UM GETNAÐARVARNIR Til að bregðast við breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu er varða lyfjaávísanir hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, hefur námskeiði um ráðgjöf og getnaðarvarnir verið bætt við í náms- skrá í ljósmóðurfræði. Þar verður almenn umfjöllun um lög og reglur varðandi lyfjaávísanir og ábyrgðarskyldu heilbrigðisstarfsmanna en einnig farið í lyfjafræði hormónagetnaðarvarna út frá áhrifum þeirra á líkamann og milliverkun lyfja. Í námskeiðinu verður gerð grein fyrir helstu frábendingum getnaðarvarna og hvað skuli varast við ávísun þeirra og lögð áhersla á heilsufarssögu og fleiri áhrifaþætti er varða upplýsta ákvörðun um val á getnaðarvörnum. Nemendur fá þjálfun í ráðgjöf um getnaðarvarnir, heilsufarsmati kvenna og skimun á krabbameini í kynfærum kvenna. Aðgöngu að námskeiðinu hafa starfandi ljósmæður í gegnum Endurmenntun HÍ. Námskeiðið gefur réttindi til ávísunar getnaðarvarna. MEISTARANÁM TIL STARFSRÉTTINDA Ljósmóðurfræðináminu lýkur nú með meistaragráðu og munu nemendur vinna lokaverkefni sem eru 30 einingar í stað 8 eininga áður. Verkefnið er unnið að mestu leyti á öðru ári, en nemendur fá tækifæri til að dýpka sig í aðferðafræði og tölfræði strax á fyrra ári. Þar sem töluverður námstími fer nú í undirbúning og vinnu við meistararitgerð hefur hluti klínísks verknáms verið færður yfir á sumarmisserið. Nemendur verða því í launuðu verknámi yfir sumartímann milli fyrra og seinna námsárs, og fer verknámið fram á kennasviði Landspítala. Emma Marie Swift LJÓSMÓÐURFRÆÐI TIL FRAMTÍÐAR - kennt eftir nýrri námskrá í ljósmóðurfræði frá haustinu 2019 - F R É T T I R Hrafnhildur ljósmóðir og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands skrifa undir samning við Björkina. Lilja Kristín nemi með fyrsta ljósu- barnið sitt í Björkinni. Laufey Rún nemi með fyrsta ljósu- barnið sitt á Akranesi.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.