Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 11

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 11
11LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2019 öðru leyti eru handtök ljósmóðurstarfsins oft á tíðum framandi ef borin eru saman við veruleika okkar í dag. Það er ekki laust við að greinarhöfundur hafi endurtekið fundið fyrir þakklæti fyrir starfsumhverfi okkar nú á tímum og því sem áunnist hefur í faginu á síðustu öld. Hér verða gefin fjögur sýnishorn úr skrifum Þórunnar: 1. sýnishorn 7. feb, 1901, 28 ára frumbyrja. Barn bar að í sitjanda stöðu: Samantekt: Heilsa konunnar góð um meðgöngutímann, fullgengin, barn bar að í 1. sitjandastöðu. Hæg sótt til að byrja með, útvíkkun klárast á 15 klst. Svo smá ýttist þetta áfram, þar til ofurlítið sást á sitjandann í hríðunum, en sáralítið jókst það, sem sást á næstu 36 klst., enda þótt ýmislegt væri gert til að auka sóttina, t.d. að láta konuna ganga um gólf, hjálpa henni til að að fá hvíld um stund o.s.frv. Héraðslæknir hafði þá nýverið lesið um nýtt meðal til að auka sótt og óskaði hann eftir að ég reyndi það. Var ég heldur en ekki fáanleg til þess, og gjörði eins og hann lagði fyrir, en ekki sáum við neinn árangur af því. (Það var í því fólgið að láta konuna borða nokkur kvint af hvítasykri með litlu millibili). Þegar hjartahljóð barnsins fóru að dofna var sjálfsagt að fara að ná barninu. Ekki var hægt að ýta því inn, eða að ná í fót, og ekki varð náð taki í nárann. Varð þá að reyna að ná fyrir nárann með því að smeygja hring með bandi í hann. Það tókst að koma hringnum yfir um. G.B. læknir tók svo bandið, þegar hríðar komu og þetta fór allt vel. Barnið fæddist lifandi, lítið eitt táldautt. Naflastr. var vafinn um hálsinn. Barnið vóg 7 pund. Fylgjan kom hálftíma síðar við framlokkun. Naflastrengurinn var festur í himnurnar. Fæðing stóð yfir í 51,5 klst. Konan var mikið vel hress strax á eftir, er fæðing var afstaðin. Hún var mjög róleg og heilsaðist ágætlega á eftir (Þórunn Á. Björnsdóttir, 1929, bls.55). 2. sýnishorn 15. feb. 1914. 28 ára, Gift, fyrsta fæðing. Heilsan góð um meðgöngutíma. Barnið var í 2. hvirfilstöðu, hjartsláttur góður. Sóttin bærileg, en þó var fæðingin ganglítil, því stirðleiki var tals- verður í leghálsinum. Eftir að kona hafði haft nokkuð harða sótt í 2 1/2 dægur, var barnshöfuðið komið það niður, að unnt var að ná til þess með töng. Konan var þá orðin ógn-þreytt, þó enginn sótthiti en æðin tíð. Hríðar- nar voru við það hættar, en í þeirra stað stöðugar þrautir. Læknir var sóttur. Hann lét læknanema svæfa konuna og náði barninu með töng, gekk það allt án mikilla erfiðleika. Líf fannst með barninu þegar það fæddist, en var mjög dauft. Eftir að ég hafði reynt við það lífgunartilraunir í 1/4 klst, gat ég séð lífsvon með því og kom það til. Sveinbarn, 6 pund, 50 cm. Fylgjan kom sjálfkrafa. Í perineum voru saumuð 2 spor. Konunni heilsaðist mæta vel í sængurlegunni. Ekki er hér sjáanleg önnur ástæða til þess að hjálpar þurfti en sú, að kraftar konunnar hafa ofreynst við að vinna á hinni miklu mótstöðu við útvíkkunina. Konan hefir svo ekki haft þol til að færa barnið frá þar á eftir. Þessu líkt er það oft, þegar hjálpa þarf konum í fyrsta sinn, en svo gengur allt vel og eðlilega við síðari fæðingar hjá þeim (Þórunn Á. Björnsdóttir, 1929, bls.149). 3. sýnishorn 4. mars, 1925, 29 ára, fjórða fæðing. Gift. Heilsa konunnar hafði verið allgóð og var hún farin að vænta fæðingar. Hún var eitthvað lasin - þó á fótum - og bað mig þess vegna að finna sig. Ég bað hana að leggjast upp í rúm, því að ég vildi aðgæta hana í tíma, ekki síst vegna þessa að hún hafði tvisvar áður verið með barn í skálegu. Það var einnig í þetta skipti. Höfuðið var heldur niður á við til vinstri, en sitjandinn upp á við til hægri. Ég reyndi þá að færa þetta í rétt horf, höfuðið niður og hvoru tveggja fram á við. Mér tókst að koma höfðinu beint fyrir efra op grindarinnar. En nú óttaðist ég að allt sækti í sama horfið og það ekki síst þar sem engir samdrættir voru byrjaðir. Ég reyndi því að eggja legið til samdrátta, en þeir vildu ekki koma og ekki heldur næstu daga. Þegar ég var kölluð til konunnar aftur, eftir 6 daga, bjóst ég við að barnið væri aftur komið í skálegu. Ég varð því glöð er ég fann að svo var ekki, heldur var það í 2. hvirfilstöðu. Sóttin var góð og vatnið rann rétt áður en barnið fæddist. Það var lifandi meybarn, þ.3,25 kg, l. 50 cm. Fylgjan kom sjálfkrafa. Fæðingin varaði í 6klst-1klst-1/4 t. Gott var að ég kom til konunnar, þetta fyrir fæðinguna, úr því að mér lánaðist að laga leguna. Óvist er, að það hefði verið eins gott þegar sóttin var komin, því að konan er ekki stór og legvatnið var lítið, en sóttin talsvert hörð strax frá byrjun. Konunni heilsaðist ágætlega (Þórunn Á. Björnsdóttir, 1929, bls.285). 4. sýnishorn. 1901, frumbyrja 15 ára og 12 daga gömul. Tíðir byrjuðu hjá henni þegar hún var 13 1/2 árs. Hún var stór, vel byggð, stillt og góðlátleg. Hún hafði treyst og trúað kennara sínum, sem bjó hana undir fermingu. Hann sagði henni að hún væri unnusta sín og að þetta sem þeim fór á milli ætti að fylgja með. Einnig sagði hann, að hann skyldi alltaf elska hana sem og annast. En maður sá stóð ekki við neitt af því, sem hann lofaði, en lét barnið fara langar leiðir frá sér, svona á sig komið. Hún hafði ekki annað að fara en til fátækrar heilsubilaðrar móður sinnar. Svona var hann barnakennarinn sá. Heilsa stúlkunnar var góð og fæðingin kom að á réttum tíma. Fæddist lifandi sveinbarn í 2. hvirfilstöðu, þ. 4 kg, l. 52 cm. Fæðingin stóð yfir 7 -6 3/4-1/4 tíma. Stúlkan var dugleg meðan á fæðingunni stóð, gat gefið barninu gott brjóst og var að öllu móðurleg við það. Henni heilsaðist mæta vel, klæddist á 14. degi. Hún vann svo fyrir sér á heiðarlegan hátt, þar til hún giftist. Var þá orðin fullþroskuð (Þórunn Á. Björnsdóttir, 1929, bls.291). NIÐURLAG Á 100 ára afmæli okkar merkilega félags er ekki úr vegi fyrir okkur ljós- mæður að staldra við og hugsa til þeirra merku ljósmæðra sem ruddu braut- ina. Þar þarf nafn Þórunnar að vera ofarlega á lista. Þórunn gerði sér grein fyrir mikilvægi skráningar og íhugunar fyrir framþróun þekkingar. Hún vildi að hennar persónulega reynsla gæti nýst næstu kynslóðum ljósmæðra enda hafði hún óbilandi trú á gildi þess að deila þekkingu og innsæi. Hún gerði sér einnig grein fyrir mikilvægi verklegrar kennslu undir handleiðsu reyndari ljósmóður. Í sýnishornum hennar kemur einnig fram góð samvinna hennar við lækna, en þar sem þetta er bók um áhættufæðingar er þeirra oft vitjað og lýsir hún trausti og samvinnu þeirra á milli. Ingibjörg Eiríksdóttir ljósmóðir vann að hluta til meistararannsókn sína í ljósmóður- og hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands upp úr þessari merku bók, sem er ein af fyrstu meistararitgerðum í ljósmóðurfræði frá Háskóla Íslands. Í ritgerðinni sem var unnin undir leiðsögn Ólafar Ástu Ólafsdóttur og Hildar Harðardóttur bar Ingibjörg meðal annars saman tvíburfæðingar dagsins í dag við tvíburafæðingar á fyrri hluta aldarinnar og studdist þá við skráningu Þórunnar Á. Björnsdóttur. Í niðurlagi á grein þeirra Ingibjargar og Ólafar Ástu í Ljósmæðrablaðinu sem byggir á meistararitgerðinni segir m.a.: „Þórunn Á. Björnsdóttir lagði ákveðinn grunn með lýsingu sinni og skráningu á störfum sínum árið 1929. Verk hennar ættu að vera hvatning til ljósmæðra um að gera störf sín sýnileg, vinna að þjónusturýni og þróa rann- sóknir í ljósmóðurfræði með það fyrir augum að bæta umönnun barnshafandi kvenna“ (Ingibjörg Eiríksdóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir, 2003). Ingibjörg og Ólöf benda á að í skráningu Þórunnar er fremur lítið rætt um hina eiginlegu ljósmóðurmeðferð. Hvað gerði Þórunn til dæmis til að hjálpa konum að takast á við hríðir? Hvers vegna tekur bókin einungis á fæðingum þar sem eitthvað út af ber? Það hefði líka verið áhugavert fyrir komandi kynslóðir ljósmæðra að fá innsýn í fæðingar þar sem allt var eðlilegt og hvert hlutverk ljósmóðurinnar hafi verið í slíkum fæðingum. Ef til vill hefur Þórunni þótt slíkt vera of augljóst til að í frásögur væri færandi. Það hefur oft verið bent á að sá ósýnileiki og ósegjanleiki sem ljósmóður- meðferð fær í frásögnum frá þessum tíma sé lýsandi fyrir tiltekinn tíðaranda. Þar hafi „kvenleg“ þekking sem þessi ekki verið til þess fallin að setja niður á blað og greina í kjölinn. Í bók Þórunnar er þessu svipað farið - læknirinn er kallaður til og þá er skráð og beitt viðurkenndum viðmiðum læknisfræðinnar eins og stöðu á kolli, viðurkenndum tímaramma fæðingar (útvíkkunar- tímabil, 2. stig og fylgjufæðing), eða að svokölluðu Credes handtaki hafi verið beitt við fylgjufæðingu svo fátt eitt sé nefnt. Allt þetta „ósýnilega“, sem óneitanlega hefur verið margt í löngum frumbyrjufæðingum, þar sem 2. stig dregst iðulega á langinn, fær þar minna vægi í skráningunni. En vissulega er hægt að lesa inn á milli þann stuðning og hlýju sem átti sér stað í sambandi Þórunnar við þær konur sem hún sinnti í fæðingum. Þórunn Á. Björnsdóttir fékk ósk sína uppfyllta og draumur hennar rættist. Nú 100 árum síðar, eftir að hún tók þátt í að stofna Ljósmæðrafélagið, er mikilvægt að við sem samfélag höldum áfram að hvetja stúlkur og stráka, konur og karla, til að finna sinn eigin friðarboga og viðhalda þekkingarþróun í faginu okkar. HEIMILDIR Helga Þórarinsdóttir. (1984). Saga ljósmæðrafélag Íslands 1919-1979. Í Björg Einarsdóttir (Ritstj.), Ljósmæður á Íslandi (II bindi) (bls.7-134). Reykjavík: Ljósmæðrafélag Íslands. Ingibjörg Eiríksdóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir. (2003). Tvíburafæðingar á Íslandi fyrr og nú: ljós- móðurskráning lykilatriði fyrir þjónusturýni og rannsóknir í ljósmóðurfræði, Ljósmæðrablaðið, 81(1), 16-27. Steindór Björnsson. (1957). Þórunn Á. Björnsdóttir, Í Sveinn Víkingur (Ritsj.). Íslenskar ljós- mæður I-III (1. bindi). Akureyri: Kvöldvökuútgáfan. Þórunn Á. Björnsdóttir. (1929). Nokkrar sjúkrasögur. Úr fæðingarbók Þórunnar Á. Björnsdóttur. Reykjavík:Herbertsprent. Steinunn H. Blöndal.

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.