Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 35

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 35
35LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2019 Sumar ákvarðanir einstaklinga leiða til keðjuverkunar atburða í lífi annarra mörgum árum síðar. Svo var með ákvörðun Páls Sigðurðssonar þegar hann ákvað árið 2002 að fara sem skiptinemi til Rússlands. Engan hefði grunað þá að þetta spor sem hann steig mundi leiða til þess að 26 íslenskar ljósmæður færu 17 árum síðar í kynnisferð til Sankti Péturs- borgar í Rússlandi. En til að gera langa sögu stutta þá er Páll sonur Sigríðar Pálsdóttur ljósmóður á Selfossi. Sigríður fór sjálf að læra rúss- nesku og fór í tenglsum við það í skiptinám til Pétursborgar. Þar komst hún í kynni við rússneskar ljósmæður sem brunnu fyrir því að bæta hag ljósmæðra þar. Þær óskuðu eftir stuðningi frá Íslandi og ámálguðu það við Sigríði hvort að gerlegt væri að fá nokkrar íslenskar ljósmæður í heimsókn. Þetta smávatt upp á sig og að lokum fór það svo að 44 manna íslenskur hópur fór, 26 ljósmæður og 18 makar og fylgifólk í sex daga afar fróðlega kynnis- og skemmtiferð. Ljósmæðrunum gafst kostur á að skoða tvö sjúkrahús. Annað var stórt háskólasjúkrahús og hitt var fæðingarhús nr. 17. Fæðingarhús á ekkert skylt við fæðingarheimili, þar fer fram öll venjuleg barneignarþjónusta en hún er öll í einu húsi og engin önnur starfssemi fer þar fram. Það má eiginlega segja að þetta sé kvennadeild. Við vitum ekki hvað svona hús eru mörg í Pétursborg en það má leiða getum að því að þau séu a.m.k. 17. Áslaug Valsdóttir FÆÐINGARHÚS NR. 17 Það var spennt ljósmóðir frá litlu Akureyri sem hélt af stað ásamt nokkrum kollegum í skoðunarferð að morgni 10. október sl. Hópurinn minn átti að fá að heimsækja fæðingarheimili á meðan hinn helmingur- inn af hópnum fór á háskólasjúkrahús borgarinnar. Kata, konan hans Péturs fararstjóra, var okkar fararstjóri þennan dag og þar sem hún hafði nýlega gengið í gegnum það að eiga fyrsta barn sagði hún okkur aðeins frá fæðingarþjónustunni, fæðingarorlofi og slíku á leið á staðinn. Við fengum t.d. að vita að meðgönguvernd væri í umsjá lækna og að um tvöfalt kerfi væri að ræða, einkarekið og ríkisrekið. Ef maður væri vel fjáður væri hægt að kaupa sér þá þjónustu sem maður vildi, t.d. að tryggja sér ákveðinn lækni og jafnvel ljósmóður til að sjá um sig í fæðingunni. Hún leiðrétti fljótlega þann misskilning að við værum að fara á eitthvað kósí fæðingarheimili, heldur væru ríkisreknir fæðingarspítalar reknir sem sjálfstæðar stofnanir um borgina, þessi væri einn af tíu eða ellefu slíkum. Á rússnesku heitir slík stofnun í beinni þýðingu ,,fæðingarhús“ og þaðan var líklega misskilningurinn um fæðingarheimili upprunninn. Hún sagði okkur líka að í fæðingarorlofi væru mæðrum tryggð full laun í 140 daga, 70 daga fyrir fæðingu og 70 daga eftir hana. Það þýðir að maður getur farið í fæðingarorlof á fullum launum 30 vikur gengin. Eftir það tæki við fæðingarorlof í 18 mánuði á 40% launum og síðan 18 mánaða launalaust foreldraorlof, þar sem maður heldur stöðu sinni á vinnumarkaði, sem flestar mæður nýttu sér. Feður ættu líklega tæknilega rétt á að fá hluta af fæðingarorlofinu en engin hefð væri fyrir að nýta það. Þegar við renndum loksins inn á planið hjá spítalanum mátti þar sjá glænýjan bíl, með risastóra slaufu á toppnum, þar rétt hjá var verið að stilla upp myndavél á þrífót. Ég hugsaði sem svo að þetta væri nú undarleg staðsetning á einhverri auglýsingamyndatöku! Meira um það síðar. Þegar inn var komið mættu okkur læknir spítalans og túlkur, ein af ungu konunum sem ætlaði að vera með okkur á ráðstefnunni daginn eftir, félagsfræðistúdent í doktorsnámi sem rannsakaði störf ljósmæðra. Byggingin var greinilega aðeins komin til ára sinna en allt skínandi hreint og ræstingarilmur í lofti. Enda voru okkur afhentar skóhlífar og hlífðarsloppar sem við klæddumst á meðan á heimsóknin stóð. Fátt kom á óvart til að byrja með. Við þræddum dæmigerða spítalaganga, kíktum inn á áhættumeðgönguvernd, sængurlegustofur og skurðstofur. Allt var snyrtilegt en enginn íburður í aðbúnaði, rúm sængurkvennana aðeins beddar með frekar þunnum dýnum, sængurfötin líkt og saman- safn afganga héðan og þaðan, þó tæki eins og hjartsláttarsíritar væru í meðgönguverndinni og barnavogir við hvert rúm á sængurlegustofunum. Vaktaðstaða starfsfólks var aðeins eitt skrifborð í opnu rými á miðjum gangi og á sængurlegudeildinni höfðu ljósmæður eina vaktaðstöðu og barnahjúkrunarfræðingar aðra í sitt hvorum enda gangsins. Ljósmæð- urnar áttu fyrst og fremst að þjónusta konurnar og hjúkrunarfræðingarnir börnin þó báðar stéttir ættu að geta hjálpað til við brjóstagjöf og slíkt. Hvergi var gert ráð fyrir einbýlum og talaði yfirljósmóðirin um að aldur húsnæðisins takmarkaði starfsemina að einhverju leiti. Á spítalanum voru tæplega 4000 fæðingar á ári og tekið var á móti börnum eftir 34. viku meðgöngu. Þó var sérhæfing þessa spítala eða yfirlæknis hans Twin-to-twin transfusion syndrome (TTTS) og var aðgerð í gangi tengdu slíku tilfelli þegar við komum á svæðið. Svo fengum við m.a. að vita að mögulegt er að útskrifast sem ljósmóðir eftir tæplega þriggja ára nám á framhaldsskólastigi sem þýðir að yngstu nýútskrifuðu ljósmæðurnar eru 17-18 ára. Einnig að keisaratíðni væri á bilinu 10-30% eftir stofnunum og tíðni mænurótardeyfinga á þessum spítala væri um 30%. Þegar komið var á fæðingarganginn kom maður fyrst í þann raun- veruleika sem maður óttaðist. Á undirbúnings- eða móttökuherbergi voru sjö beddar eða ambúlansar þétt saman, aðeins skilrúm á hjólum á milli, ekkert pláss til að hreyfa sig og örugglega ekki auðvelt að komast á snyrtingu þegar mikið var að gera. Fæðingargangurinn, þar sem fæðingarstofurnar voru, var læstur og okkur skýrt frá því að þar fengi aðeins að koma inn starfsfólk á vakt. Fyrsta fæðingarstofan blasti við á aðra hönd þegar komið var rétt inn fyrir dyrnar, á henni voru vængja- hurðir með svo stórum gluggum að auðveldlega mátti sjá hvað þar færi fram. Önnur eins stofa kom þar næst og síðan stærri stofa með fjórum fæðingarrúmum í. Engin skilrúm þar á milli. Við fengum þó að vita að feður gætu mögulega verið viðstaddir fæðingar, slíkt væri þó ekki almennt og væri enn frekar nýtt fyrirbæri, líklega um 10 ára gamalt. Það fyrsta sem maður hugsaði var hvort þeir gætu jafnvel gengið fram hjá og séð inn á fæðingarstofur hjá öðrum konum en sinni eigin? Við því fengust ekki skýr svör. Að heimsókninni lokinni urðum við vitni að skemmtilegu atviki, þegar móðir með nýbura sinn var sótt til heimferðar. Öll fjölskyldan var mætt til að fagna þeim, myndir teknar, blóm og blöðrur, hlátur og hamingja í loftinu. Okkur hafði verið tjáð að sængurkonur væru yfirleitt þrjá daga á spítalanum eftir fæðingu og lagt væri upp með að þær fengju næði til að jafna sig og lítið væri um heimsóknir, þannig hefði skapast þessi hefð að öll fjölskyldan kæmi að sækja og sjá þá nýburann jafnvel í fyrsta sinn. Okkur var einnig sagt að með batnandi efnahag þætti það verulega svalt að geta fært konu sinni bíl á sængina. Þarna var komin RÚSSLANDSFERÐIN F R É T T I R

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.