Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 24

Ljósmæðrablaðið - des. 2019, Blaðsíða 24
24 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2019 Ég hef verið á skemmtilegu ferðalagi á Balí og eiga Balíbúar stóran þátt í því hversu yndislegt er að dvelja hér. Þeir eru allir svo yndislega almenni- legir og alltaf brosandi. Það segir manni hvað bros og hlýtt viðmót gefur mikið. Ég hef aðeins verið að ferðast um og verið forvitin að vita um siði og venjur. Hann Pandi bílstjóri hefur svo sannarlega verið duglegur að fræða mig um allt mögulegt, trúarvenjur, mataræði, sjúkdóma og fæðingar. Eins og gefur að skilja þà hafði ég mikinn áhuga á að heyra allt um fæðingar. Flestar fæðingar fara fram á sjúkrahúsi og eru feður viðstaddir fæðinguna ef allt gengur vel, þeir eru ekki við keisarafæðingar. Balíbúar bera mikla virðingu fyrir móðurinni því það er jú hún sem fæðir barnið og þeir leggja áherslu á það í uppeldi barna sinna að borin sè virðing fyrir „mömmu“. Mikið þótti mér til koma meðhöndlun þeirra á fylgjunni eftir fæðingu. Balíbúar beri mikla virðingu fyrir fylgjunni og það er hlutverk föðurins að þrífa hana og umvefja af mikilli lotningu. Þegar barnið er fætt þá liggur mamman sængurlegu á sjúkrahúsinu en faðirinn fer heim með fylgjuna. Þeir líta á fylgjuna sem „tvíbura“ barnsins og þar með barnið sitt líka. Faðir- inn þrífur fylgjuna varlega og notar til þess hægri hendi. Það er í hindúatrú að nota hægri hendi til flestra verka og í þessu tilfelli gert til að barnið verði með hægri hlið ríkjandi. Þegar faðirinn hefur þrifið fylgjuna er hún sett í kókóshnetuhylki og hún grafin í jörðu. Hennar er oft vitjað á ýmsum tímum og ef barnið verður t.d. lasið eða er óvært þá er farið með barnið að fylgjuleiðinu og tekin upp smá mold og sett á enni og höfuð barnsins. Já við ljósmæður vitum að fylgjan er magnað líffæri, en það mætti eflaust bera meiri virðingu fyrir henni heima hjá okkur í stað þess að segja „Oojj“ eins svo margir segja sem sjá fylgjuna. Mér fannst ég þurfa að deila þessu með ykkur. Guðrún Gunnlaugsdóttir, ljósmóðir. Fyrir rétt um ári voru samþykkt á Alþingi Lög um breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu (lyfjaávísanir hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra) https://www.althingi.is/altext/pdf/149/s/0737.pdf. Aðdrag- andi að þessum lagabreytingum er langur – þegar horft er til ljósmæðra þá spannar hann um 23 ár. Margar ljósmæður hafa lagt þessu máli lið gegnum tíðina fyrir hönd Ljósmæðrafélagsins, setið fundi og skrifað bréf. Ég hef komið að þessari vinnu og fyrir stuttu rakst ég á fyrstu bréfin sem við skrifuðum til þáverandi landlæknis Ólafs Ólafssonar. Þeim bréfum var fylgt eftir með nokkrum fundum. Í þessum bréfum voru ekki einungis rök fyrir mikilvægi þess að víkka út starfssvið ljósmæðra með því að heimila þeim að gefa út lyfjaávísanir fyrir hormónagetnað- arvörnum, heldur fylgdu með ýtarlegar lýsingar á innihaldi námskeiðs sem fyrirhugað var að setja upp fyrir ljósmæður. Á þessum tíma leitaði landlæknir umsagnar félags kvensjúkdóma-og fæðingarlækna og heim- ilislækna en þar þótti þetta hið mesta óþurftamál og því varð ekki úr að erindið færi áfram. Þegar nýr landlæknir tók við var leikurinn endurtekinn. Það verður að segja eins og er að landlæknar sem hafa breiða sýn á lýðheilsu og forvarnir hafa séð ávinning í því að efla þennan þátt í starfi ljósmæðra og smám saman jókst stuðningur við erindið. Við höfum farið með málið fyrir fjóra landlækna samfara því að tala við nokkra heilbrigðisráðherra. Á sama tíma hefur orðið breyting á viðhorfi innan raða okkar samstarfs- stétta þar sem sívaxandi þekkingarþróun kallar á breytingu á störfum heilbrigðisstétta. Sem fagstétt hafa ljósmæður alltaf lagt áherslu á að styrkja menntun sína og starfssvið og efla þannig heilsu konunnar og fjölskyldunnar á hverjum tíma. Sú mikla þekkingarþróun sem átt hefur sér stað innan heilbrigðiskerfisins hefur þau áhrif að ljósmæðramenntun er í stöðugri endurskoðun. Haustið 2019 var tekin í notkun ný námskrá í ljós- móðurfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Inntökuskilyrði í ljósmóðurnámið eru áfram BS-próf í hjúkrunarfræði en við þessar breytingar munu allar ljósmæður ljúka tveggja ára námi og útskrifast með meistaragráðu til starfsréttinda. Í nýrri námskrá verður sérstök áhersla á forvarnir, kyn- og kvenheilbrigði, þ.m. t. getnaðarvarnarráð- gjöf. Í námi ljósmæðra verður byggt á námskeiðum úr hjúkrunarnámi en til viðbótar verður frekari kennsla um lífeðlisfræði tíðahringsins, áhrif lífsstílsþátta á frjósemi, upplýsingaöflun og klíníska skoðun, ráðgjöf og fræðslu um hormónagetnaðarvarnir. Á vormisseri fyrra árs verður sérstakt 4 ECT eininga námskeið sem gefur faglegan og klíníska undir- búning til ávísunar getnaðarvarna. Í námskeiðinu verður m.a. almenn umfjöllun um lög og reglur varðandi lyfjaávísanir og ábyrgðarskyldu heilbrigðisstarfsmanna, farið verður í lyfjafræði hormónagetnaðarvarna út frá áhrifum þeirra á líkamann og milliverkun lyfja, gerð verður grein fyrir helstu frábendingum og fjallað verður um upplýsta ákvörðun um val á getnaðarvörnum. Lögð er áhersla heilsufarssögu konunnar og ráðgjöf. Þetta námskeið verður í boði í janúar 2020 í fyrsta sinn. Gert er ráð fyrir að hægt sé að taka 20 nemendur í námskeiðið en ákveðið var að gefa starfandi ljósmæðrum kost á því að sækja námskeiðið, þannig verða núna 10 pláss fyrir starfandi ljósmæður. Þessi fjöldi afmarkast m.a. af möguleika til að hafa góða sýnikennslu í námskeiðinu. Reiknað er með því að þetta námskeið verði haldið á hverju ári og þannig geti starfandi ljósmæður sem það kjósa átt kost á því að taka námskeiðið. Námskeiðinu lýkur með prófi en jafnframt þarf að skila inn skráningu á tilfellum sem sýna að klínískri starfsþjálfun hefur verið lokið. Lagt hefur verið til að útskrifaðar ljósmæður sem taka námskeiðið skili inn til Landlæknisemb- ættisins staðfestingu sem þær fá að loknu námskeiðinu. Vinna við reglu- gerð hjá heilbrigðisráðuneytinu er nú á lokastigi en þar verður nánari útfærsla á framkvæmd laganna. Það er ánægjulegt að nú sjái fyrir endann á þessari vinnu en mikilvægt er að nýta vel þá möguleika sem skapast við þessa breytingu. Hér kemur sérstaklega til kasta heilsugæslunnar sem stendur m.a. fyrir heilsueflingu og forvarnir. Markmiðið er að konur eigi fleiri valkosti varðandi getnaðarvarnarþjónustu og að þjónustan sé veitt á viðeigandi þjónustustigi. Því er mikilvægt að skapa rými fyrir þennan þátt í starfi ljósmæðra innan heilsugæslustöðva. Helga Gottfreðsdóttir, prófessor Námsbrautarstjóri í ljósmóðurfræði. ÁNÆGJULEG BREYTING Á LYFJALÖGUM – 23 ÁRA SAGA F R É T T I R BRÉF FRÁ BALÍ, Á FEISBÚKK: VIRÐING BORIN FYRIR FYLGJUNNI

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.