Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 48
sem benda til þess að upphaflega hafi verið sterk merkingarleg tengsl milli
forliðarins og grunnorðsins. Síðar hafi sú þróun orðið að farið var að nota
liðina með annars konar lýsingarorðum og í annars konar samhengi, sbr.
sauðölvaður, ljónheppinn, ljónfjörugur o.s.frv., þ.e. lýsingarorðum sem erfitt
er að tengja merkingu áhersluforliðarins, og það bendir sterklega til merk-
ingarrýrnunar (e. semantic bleaching, sjá nánar í 3. kafla) og minni tak mark -
ana á tengingu þessara liða við annars konar grunnorð.
Í næsta kafla verður nánar fjallað um stöðu áhersluforliða innan orð -
myndunarinnar og hugsanlega kerfisvæðingu þeirra og þá hvort liðirnir
passi við skilgreininguna á forskeytislíki.
3. Áhersluforliðir: forskeyti, forskeytislíki eða sjálfstæð orð?
Í þessum kafla verður rætt um það hvort áhersluforliðir eigi heima innan
afleiðslu (forskeyti) eða samsetningar (sjálfstæð orð) eða einhvers staðar
þarna á milli og hvort þeir séu afsprengi kerfisvæðingar. Segja má að uppi
séu tvenns konar sjónarmið um mörk róta og aðskeyta (samsetningar og
afleiðslu). Annað sjónarmiðið felst í því að það séu skörp skil milli róta og
aðskeyta og því sé engin sérstök ástæða til þess að gera ráð fyrir einhverj-
um millistigum (sjá t.d. umfjöllun um hugmyndir Meibauer 2013 um
samsetningar með áhersluforliðum í þýsku í kafla 3.3). Hitt sjónarmiðið
er að til séu eitt eða fleiri millistig milli róta og aðskeyta og að aðskeytis-
líki (forskeytislíki og viðskeytislíki) séu eitt þeirra (sjá t.d. Stevens 2005,
Ascoop og Leuschner 2006, Kenesei 2007 og Goethem 2008 og um ís -
lensku sérstaklega hjá Þorsteini G. Indriðasyni 2016b). Síðara sjónar mið -
ið hefur verið nokkuð ráðandi í þýskri málfræði og málfræðingar sem
vinna með orðmyndun í öðrum tungumálum hafa svo fært sér það í nyt
(sbr. t.d. Booij 2005 um hollensku og Goethem 2008 um frönsku). Í
þessum kafla verða áhersluforliðir svo skoðaðir í ljósi þessara hugmynda
til þess að kanna hvort þeir séu kerfisvæddir og ef svo er þá að hve miklu
leyti? Ef þeir eru kerfisvæddir þá hljóta þeir samkvæmt skilgreiningu að
hafa öðlast eitthvert málfræðilegt hlutverk og þá má spyrja hvaða hlutverk
það er. Þetta tengist hugmyndinni um forskeytislíki því skilyrði þess að
hægt sé að kalla forlið forskeytislíki er að hann sé kerfisvæddur frá sjálf -
stæðu orði. Þessi umræða er svo nauðsynlegur undanfari 4. og 5. kafla þar
sem nánar verður farið í saumana á málfræðilegu hlutverki og merkingu
áherslu forliðanna til þess að styðja enn frekar kerfisvæðingarhugmynd-
ina.
Þorsteinn G. Indriðason48