Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Page 137
Auk atriðisorðaskráa er mikils um vert að í hverju bindi er að finna
íðorðaskrá með skýringum; margar skýringanna eru þannig úr garði
gerðar að beinlínis er um að ræða skilgreiningu viðkomandi hugtaks. Að
umfangi eru íðorðaskrár þessar 10 og upp í 20 síður í hverju bindanna.
Því má ugglaust telja að einkar mikill fengur sé að íðorðaskránum fyrir
stúdenta og almenning, sem og fyrir þá málfræðinga sem þarfnast upp-
rifjunar í öðrum geira málvísindanna en þeim sem hverjum er hugleikn-
astur dags daglega.14
Eins og vikið verður nánar að hér fyrir neðan eru skýringarnar einnig
til þess fallnar að lesandi átti sig svolítið á því hvernig höfundar og rit-
stjórar staðsetja sig gagnvart viðfangsefninu og málfræðikenningum enda
hafa ýmis málfræðihugtök mismunandi innihald eftir því hver nálgunin
er.
Í Norsk språkhistorie I–IV eru skýringar (skilgreiningar) í þessum
skrám flestar afar knappar. Mér virðist sem þær hitti þrátt fyrir það yfir-
leitt í mark og nái kjarnanum í viðkomandi hugtaki. Sem dæmi um stuttar
skýringar má hér nefna tvö hugtök, úr ólíkum áttum, gotnesku og aukaföll:
„gotisk: Utdøydd austgermansk språk“ (III:518); „oblike kasus: Samle -
nemning for akkusativ, genitiv og dativ“ (I:644).
Hinar lengri skýringar hafa sums staðar að geyma dæmi til skilnings-
auka, t.d. „spørjesetning: → Heilsetning som normalt blir brukt til å stille
spørsmål for å søke informasjon om noko: Levde kongen lenge? Hvem
levde lenge?“ (I:649). Norska hugtakið heilsetning er skýrt annars staðar í
skránni eins og örin bendir til. Athygli mína vekur að enda þótt hugtakið
spørjesetning hafi verið útskýrt með dæmum, eins og hér var sýnt, er yfir-
hugtakið setning útskýrt í mjög stuttu máli, án skýringardæmis: „setning:
Ytring som normal inneheld eit subjekt og eit finitt verb“ (I:648). Hug -
takið ytring er raunar ekki að finna í skránni.
Einn kostur við það verklag að ritstjórar gefi hugtakaskýringar er
vissulega sá að aðrir málfræðingar hafa þar með betra tækifæri til að átta
sig á því hvernig höfundar og ritstjórar verksins nota eða skilja ýmis hug-
tök eins og þegar hefur verið drepið á. Hér á ég við hugtök sem notuð
hafa verið á mismunandi hátt í gegnum tíðina í málvísindaritum, austan
hafs og vestan. En vitaskuld á þetta ekki við um nema hluta hugtakanna.
Saga máls og samfélags 137
14 Til samanburðar kemur í hugann að aftast í I. og III. bindi Íslenskrar tungu (2005)
eru skrár um málfræðihugtök með enskum og íslenskum jafnheitum. Þær eru góðar til síns
brúks en enn betra hefði verið að hafa þar efnislegar skýringar, eins og gert er í Norsk
språkhistorie I–IV.