Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.2018, Blaðsíða 192
13. kafli: Eignarsambönd
(höf.: Höskuldur Þráinsson, Einar Freyr Sigurðsson og Eiríkur Rögnvaldsson)
Fyrsta athugunarefnið hér er staða eignarfornafns og eignarfalls. Leitað var eftir
dómum um orðalag eins og Hans þekking á ítalskri matargerð er mjög mikil, Hug -
myndir hans um starfsemina eru óvenjulegar. Flestir þátttakendur samþykktu báð ar
orðaraðirnar (69–92% já) og fylgni við félagslegar breytur reyndist lítil. Íslenska
hefur nokkra sérstöðu á meðal germanskra mála að því leyti að eign – eigandi (hús
Péturs, hugmyndir hans) er hlutlaus orðaröð í eignarsamböndum; venjulegasta
röðin í öðrum germönskum málum er eigandi – eign (Peter’s house, his ideas).
Þessi „almenna germanska röð“ er merkt í íslensku en tæk, einkum þegar eignar-
fornafn ber andstæðuáherslu: HENNAR hugmyndir eru betri en þínar o.s.frv.
Þetta gengur síður þegar eigandinn er nafnliður: KONUNNAR hugmyndir …,
þótt finna megi aðstæður þar sem þetta er ekki alveg útilokað (?Maðurinn hafði
stórbrotnar hugmyndir en konunnar hugmyndir voru raunsærri). Dæmin sem hér
voru athuguð voru aðeins fjögur og ekkert þeirra innihélt eignarfallsnafnlið. Það
væri athyglisvert að bera saman dæmi eins og hans þekking (69% já í könnuninni),
Péturs þekking, mannsins þekking, prófessorsins þekking, gamla prófessorsins þekking.
Hans þekking gengur vel með andstæðuáherslu en öll hin dæmin eru hæpin eða
ótæk í mínu máli. Samtengd eignarföll fara líka betur á eftir höfuðorðinu: þekking
ykkar og þeirra og eignir Maríu og Jóns en ??ykkar og þeirra þekking og ?*Maríu og
Jóns eignir. Aftur á móti gengur vel að segja hans mikla þekking og allar þínar
furðulegu hugmyndir án andstæðuáherslu.
Annað athugunarefnið í þessum kafla er samspil greinis, eignarfornafns og
eignarfalls, en þetta er reyndar þrískipt: 1) Hlutstæð eign með eða án greinis +
eignarfallseinkunn: Hestur Maríu kom fyrstur í mark (79%), Peysan mömmu
varð eftir á snúrunni (11%), o.s.frv. 2) Óaðskiljanleg eign með eða án greinis +
eignarfallseinkunn (eða eignarfornafn): Hann hefur eyðilagt líf sitt (94%), Hann er
óánægður með lífið sitt (56%) o.s.frv. 3) Eign með eða án greinis + eignarfallsein-
kunn með ákvæðisfornafni: Lið hans Nonna sigraði með yfirburðum (22%),
Báturinn hans Lúlla var ekki kominn (97%) o.s.frv. Það sem helst vekur athygli
hér er að yngri aldurshóparnir voru vel sáttir við orðalagið lífið sitt, hárið hennar
en reyndar líka lið hans Nonna. — Þetta er flókið og margbrotið efni þar sem ólík-
ar tegundir eignar og eiganda sýna mismunandi samverkan. Mér finnst t.d. eðli-
legt að segja bíllinn minn, bíllinn hennar Maríu, bíll kennarans en skoðun mín/
Maríu/kennarans. Líf mitt eða einfaldlega lífið er mér líka eðlilegt mál (Ég er
ánægður með líf mitt/lífið, ekki ??lífið mitt) en hins vegar segi ég helst augun í mér
og hárið á mér (eða einfaldlega augun og hárið) en varla augu mín eða hár mitt
nema í hátíðlegu máli og ekki ??hárið mitt eða ??augun mín. En reyndar er
athyglisvert að lífið mitt, augun mín o.s.frv. er „óþægilegt“ eða hæpið frekar en
„gargandi ómálfræðilegt“. Þetta orðalag er því e.t.v. bara eitthvað sem ég á ekki
að venjast fremur en að það sé algerlega á skjön við „málfræðikerfið í mér“ og
mér finnst raunar líklegt að mikið af þeim málbreytileika sem sagt er frá í Til -
brigðum í íslenskri setningagerð stafi af ólíkum venjum fremur en ólíkum mál fræði -
kerfum.
Ritdómar192