Gríma - 01.09.1940, Page 13
ÞÁTTUR AF STUTTU-SIGGU
11
in, var hún ekki nema tvær álnir á hæð í mesta lagi
(125 sm.), en töluvert gild eftir hæðinni. Var hún
því vanalega kölluð Stutta-Sigga. Hún var kringlu-
leit í andliti og nokkuð greppileit, en ekki ófríð;
með aldrinum varð hún hrukkótt; augun voru grá
og töluvert glettnisleg, þegar vel lá á henni, en hvöss
og heiftúðug, ef hún skipti skapi. Hún var smámælt
og málfærið tæpitungulegt, en hún reyndi að kveða
hart að, þegar henni var mikið niðri fyrir.
Að líkindum hefur Sigga að ásköpuðu eðlisfari
haft sæmilegar sálargáfur, en því má svo sem geta
nærri, að við annað eins uppeldi hlaut hún að verða
fákæn, hjárænuleg og barnaleg í framkomu. Hún var
fröm og hafði yndi af að sitja á tali við gesti; voru
orð hennar þá oftast hvorki vegin né hugsuð, heldur
flest látið fjúka. Ekki kunni hún neitt til almennra
húsverka, og svo segir maður nokkur, sem henni var
kunnugur, að hann muni ekki til að hafa séð hana
halda á prjónum. — Hún var oft látin líta eftir smá-
börnum, þar sem hún dvaldi, og svo er sagt af kunn-
ugum, að hún hafi verið barngóð.
Eins og áður er sagt, var Sigga talin heimilisföst í
Flöguseli til ársins 1846. Upp frá því var hún sveit-
arómagi á Skriðuhreppi alla sína löngu æfi og dvaldi
á mörgum bæjum. Hafði hún ákaflega gaman af
ferðalögum og var á sífelldu randi um dalinn, inn á
Akureyri og jafnvel í fjarlægari sveitir. Var henni
víðast tekið vel, og flestir töldu sér skylt að greiða
götu hennar fremur en hitt.
Fyrst eftir það er Sigga fór alfarin frá Flöguseli,
dvaldi hún eitthvað á Myrká og í Dunhaga, en um
langt skeið átti hún heima hjá Rósu systur sinni og
Guðmundi manni hennar. Bjuggu þau á Nýjabæ,