Bændablaðið - 20.09.2018, Blaðsíða 22
Bændablaðið | Fimmtudagur 20. september 201822
Það væri til að æra
óstöðugan ef greint
yrði frá öllum þeim
kúm víða um heim sem
hljóta viðurkenningu
fyrir glæsileika, hátt
kynbótagildi og aðra
kosti.
Heimasíða Lands-
sambands kúabænda, Naut.
is, gerði undantekningu
á þessu af augljósum
ástæðum fyrir skömmu
þegar kýr með hið einkar
viðkunnanlega og fallega
nafn Iceland var kosin kýr
ársins af valnefnd fyrir kanadískar
mjólkurkýr af stutthornskyni.
Kýrin er frá kúabúinu Richford
Farms í St. Mary‘s í Ontario en
búið er í eigu hjónanna Karen og
Don Richardson. Iceland er á þriðja
mjaltaskeiði og sögð afburðagripur
útlitslega og skilar verðefnamikilli
mjólk, bæði hvað varðar fitu og
prótein. SS/VH
Færst hefur í aukana að hópar
erlendra ferðamanna heimsæki
Landbúnaðarsafn Íslands á
Hvanneyri og hljóti þar fræðslu
um íslenskan landbúnað, leiðsögn
um safnið og Hvanneyrartorfuna.
Ragnhildur Helga Jónsdóttir,
umhverfisfræðingur og safnstjóri
Landbúnaðarsafns Íslands á
Hvanneyri, sér um móttöku hópanna
og fræðslu henni tengdri með
ítarlegum fyrirlestri.
Krefjandi hópar
Ragnhildur segir að þetta séu
aðallega hópar sem koma frá
Bandaríkjunum í gegnum
Ferðaþjónustu bænda, Hey Iceland.
Um tuttugu ár eru síðan fyrstu
hóparnir komu og fá þeir fyrirlestur
á vegum Landbúnaðarsafnsins. „Í
byrjun voru þetta fáir og frekar litlir
hópar en undanfarin ár hefur þeim
fjölgað mikið og hóparnir stækkað.
Að öllu jöfnu eru þetta liðlega
tuttugu manns af báðum kynjum,
flestir um og yfir sextugt, vel
menntað fólk með háskólabakgrunn
á ýmsum sviðum og því með
víðtæka þekkingu.
Flestir eru búnir að lesa sér vel til
um landið fyrirfram en markmiðið
með þessari heimsókn að Hvanneyri
er að fræða það um íslenskan
landbúnað með ítarlegum fyrirlestri.
Að fyrirlestrinum loknum spyr
fólkið mann í þaula um alls konar
mál sem snerta íslenskan landbúnað
og stundum geta spurningarnar
verið ansi sérhæfðar, enda gerir
fólkið kröfur um að fræðslan sé í
lagi.
Einn gesta sem kom nýlega
spurði ítarlega um búfjársjúkdóma
og af hverju við værum að flytja
inn fósturvísa af nýju nautgripakyni
til kjötframleiðslu en ekki sæði og
hvaða sjúkdómar það væru sem
gætu borist til landsins með sæði.
Í svona tilfellum verður maður
einfaldlega að viðurkenna að maður
veit ekki allt.“
Hreinleikinn vekur athygli
„Fyrirlesturinn er um klukkustundar
langur og þar fjalla ég um sögu
íslensks landbúnaðar, uppruna
búfjárkynjanna og segi frá
sérkennum þeirra og svo hvernig
landbúnaður er í dag. Eitt af því
sem hóparnir horfa til er hvað er
lítið notað af eiturefnum hér á
landi og að bannað sé að gefa búfé
vaxtarhormóna og að sýklalyfjagjöf
með fóðri sé bönnuð.
Hóparnir ræða oft um reynslu
sína af landbúnaði í Bandaríkjunum
og bera saman við það sem hér er að
loknum fyrirlestrinum og dást að því
sem við erum að gera. Oft og tíðum
lýsir fólk aðdáun sinni á þessu að
fyrra bragði og varar okkur við að
fara inn á þá braut sem bandarískur
landbúnaður er á hvað þetta varðar,“
segir Ragnhildur.
Leiðsögn um safnið og torfuna
Auk fyrirlestursins fá hóparnir
leiðsögn um Landbúnaðarsafnið,
Ullarselið, kirkjuna og Hvann-
eyrartorfuna. „Yfirleitt eru þetta
rólegir hópar sem gefa sér góðan
tíma til að spá, spekulera og njóta í
þá tvo tíma sem heimsóknin tekur.“
Ragnhildur segir að vörurnar
í Ullarselinu veki alltaf
mikla hrifningu fyrir gæði og
hreinleika og eins uppbygging
Landbúnaðarsafnsins. „Og ófáir
sem segja að safnið sé það flottasta
sem þeir hafa heimsótt.“ /VH
Arngrímur Thorlacius og Elísabet Axelsdóttir við massagreini.
Efnagreining ehf. komin með fullkominn gagnagrunn til fóðurmælinga:
Greinir heysýni til útflutnings og stundar
efnagreiningar fyrir bændur og áhugafólk
Helstu verkefni Efnagrein ingar
ehf. eru hey- og jarðvegsefna-
greiningar fyrir bændur, efna-
grein ingar vegna rannsókna í
landbúnaði, greiningar fyrir
garðyrkjubændur og áhugafólk
í garðrækt. Elísabet Axelsdóttir
og Arngrímur Thorlacius eru
eigendur Efnagreiningar ehf.
Að sögn Elísabetar fram kvæmir
fyrirtækið stein- og snefilefna-
greiningar í skít, blóði, vatni, fóðri,
matvælum og nánast hverju sem er.
Auk orku efnamælingar, mælinga
á prótein, fitu, ösku og þurrefni, í
hvers kyns efniviði úr lífheiminum.
„Við gerum einnig einfaldar
örverugreiningar, einkum á
neysluvatni. Greining gróffóðurs
fyrir bændur krefst auk þess margra
sérhæfðra mæliþátta s.s. sykurs,
mjólkursýru, smjörsýru, ediksýru,
ammóníaks og leysanlegs próteins.“
Gráfóðurgreiningar gerðar
með afsegulbylgjum
Að sögn Arngríms er mikilvægur
hluti gróffóðursgreininganna
svonefndar NIR-greiningar, kenndar
við nær-innrautt svið rafsegul-
bylgna.
„Innrauða sviðið hefur lengri
bylgjulengdir og því minni orku
en geislar sýnilegs ljóss. Þetta
bylgjusvið er okkur ósýnilegt, en
við skynjum það sem varmageislun.
Sá hluti sem næst er sýnilega
litrófinu nefnist nær-innrautt ljós.
Allt lífrænt efni gleypir í sig ljós
á þessu bylgjusviði og gleypnin
ræðst af margvíslegum efnatengjum
efnanna.
Nær-innrautt róf endurvarpaðs
ljóss, geislunin sem ekki er gleypt,
af þurru fóðursýni endurspeglar
því lífrænt efnainnihald sýnisins.
Samhengi efnainnihalds og litrófs
er flókið því sérhvert lífrænt efni
hefur mörg efnatengi og í sýni sem
upprunnið er úr náttúrunni eru efnin
óteljandi og styrkur þeirra misjafn.
Til að sækja marktækar
upplýsingar um efnainnihald í
slíkt róf þarf að reikna líkön með
aðferðum fjölbreytustærðfræði
og byggja á allstórum grunni
(mældum litrófum) sýna með þekkt
efnainnihald. Slík fjölbreytukvörðun
skilar mjög hraðvirkum mælingum
og eitt róf getur gefið af sér marga
mæliþætti ef rétt er staðið að
undirbúningsvinnunni.
Við notum NIR-greiningu
til að ákvarða þætti á borð við
prótein, meltanleika, tréni, sykur
og leysanlegt prótein. Ef nota ætti
hefðbundnar aðferðir til að greina
þessa þætti yrði greiningin svo
tímafrek og svo dýr að hún svaraði
alls ekki kostnaði.“
Vildum gera betur
Elísabet segir að um áramótin
2014 og 2015 hafi Landbúnaðar-
háskóli Íslands hætt með
þjónustuefnagreiningar sínar. „Við
ákváðum að freista þess að opna
nýja efnagreiningastofu og þar
sem rannsóknastofa Landbúnaðar-
háskólans hafði dregist aftur
úr varðandi tækjavæðingu og
fyrirkomulag ákváðum við að gera
betur.
Haustið 2015 opnuðum við
Efnagreiningu ehf. Að koma upp
rannsóknastofu sem þessari er bæði
kostnaðarsamt og mikil vinna. Við
fengum lán frá Byggðastofnun
og Landsbanka Íslands til
tækjakaupa og til framkvæmda
við húsnæði. Lánin eru til stutts
tíma og afborganir erfiðar.
Mikilvægir styrkir, meðal annars
frá Atvinnumálum kvenna og
Framleiðnisjóði landbúnaðarins,
gerðu fjármögnun auðveldari.
Vinir og ættingjar á Hvanneyri
og víðar lögðu mikla vinnu í að
breyta húsnæðinu, sem var aflögð
nautastöð, og innrétta það.
Við höfum bæði heilmikla
reynslu af svona rekstri en stungum
okkur þó hálfsynd út í djúpu
laugina að mörgu leyti.“
Heysýnin heim
Forsendur fyrir rekstri Efnagrein-
ingar ehf. eru heysýni frá bændum
og segir Elísabet að ef litið sé yfir
farinn veg og rýnt í fyrstu þrjú
rekstrarárin komi ýmislegt á óvart.
„Okkur hefði satt best að segja
ekki órað fyrir að bændur myndu
halda áfram að senda heysýni til
útlanda til efnagreiningar í þeim
mæli sem raun varð. Það má
auðvitað deila um hvort við vorum
frá byrjun með alla mæliþætti
sem þurfti til að fullnægja þörf
kröfuhörðustu kúabænda eða þeirra
sem höfðu með leiðbeiningar að
gera fyrir þessa tilteknu kúabændur,
en í öllu falli þá var þetta ekki það
sem við sáum fyrir. Við vorum
ekki fyllilega meðvituð um þá
þróun sem hafði átt sér stað með
veftengda gagnagrunna og annan
hugbúnað.
Núna erum við komin með
fullkominn gagnagrunn sem tengist
NordFor, jord.is og gagnakerfi
Líflands beint yfir netið og treystum
á að bændur muni í kjölfarið strax í
haust steinhætta að senda heysýni
utan. Fyrir utan að það hlýtur að vera
farsælast fyrir íslenskan landbúnað
að nota innlenda þjónustu. Þá hefur
okkar þjónusta ákveðna kosti fram
yfir hinn erlenda valkost. Mikið
af sýnunum sem send eru utan
lenda í dýrustu greiningu óháð
þurrefnisinnihaldi. Ef sýnið kemur
til okkar aftur á móti eru hægari
heimatökin að velja greiningar eftir
þurrefni og sýrustigi. Meirihlutinn
af heyi frá íslenskum bændum eru
lítið eða ekkert gerjuð og þarfnast
því mun einfaldari og ódýrari
greiningar en verkuð sýni.“
Elísabet segir það ánægjulegt
að tilkynna að fyrirtækið sé komið
með alla mæliþætti sem þarf fyrir
dýrustu greiningarnar og að í haust
bættist við smjörsýrumæling sem
er bein mæling með ELISA-tækni.
„Það ætti að vera nokkur
akkur fyrir bændur að hafa
rannsóknarstofuna innan lands.
Alltaf er hægt að hringja eða
senda póst til okkar og ræða
niðurstöðurnar og við endurmælum
alltaf að kostnaðarlausu ef fólk er
hugsi yfir niðurstöðunum.“
Heyútflutningur til Noregs
Í lokin er vert að nefna að
Efnagreining ehf. hefur fengið
nokkuð af heysýnum vegna sölu til
Noregs.
„Við erum í samstarfi við
rannsóknarstofu í Norður-Noregi,
Ofotlab., sem tekur við niðurstöðum
frá okkur og bætir við útreiknuðum
stærðum eins og hentar fyrir þeirra
markað.“ /VH
Heysýni í þurrkofni.
Landbúnaðarsafn Íslands:
Erlendir ferðamenn fræddir
um íslenskan landbúnað
Ragnhildur Helga Jónsdóttir,
Land búnaðarsafns Íslands á
Hvanneyri.
Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri. Mynd / HKr.
Iceland er kýr ársins
í Kanada
LÍF&STARF