Bændablaðið - 20.09.2018, Blaðsíða 58
Bændablaðið | Fimmtudagur 20. september 201858
LESENDABÁS
Þjóðvegur 60 – Saga sigra
og svikinna loforða – seinni hluti
Hér er framhald greinar Kristins
Bergsveinssonar úr síðasta
Bændablaði um vegagerð í
Reykhólahreppi. Skipulagsstofnun
leggur nú til að farið verði með
veginn út á Reykjanes og yfir að
Melanesi, þrátt fyrir mótmæli
heimafólks.
Löng barátta við kerfið
Á árunum í kringum 1980 barðist
Reynir Bergsveinsson, þá oddviti
í Gufsu, fyrir því að Þorskafjörður
yrði brúaður frá Kinnarstöðum að
Þórsstöðum. Ég veit að hann átti
bréfaskipti við Vegagerðina um það
mál. Yfirvöld vegamála völdu brúnni
hins vegar stað inni í fjarðarbotni sem
verður til þess að eknir eru nærri 10
km lengri leið en þurfti hefði. Dágóð
upphæð í 40 ár.
Það mun svo hafa verið í
ráðherratíð Kristjáns Möllers
að allir Gufsarar auk póstsins,
skólabílstjóranna og eigin kvenna
þeirra, sömdu kröfu á samgöngunefnd
Alþingis um tafarlausa brú á
Þoskafjörð frá Kinnarstöðum að
Þórisstöðum. Þar var gagnrýnt að
velja ætti leiðir sem væru ekki aðeins
dýrari, heldur fælu í sér meira rask á
landi sem nýtt væri til landbúnaðar,
verra vegarstæði eða að gert væri ráð
fyrir að áfram yrði keyrt um fjallvegi.
Bréfið var í sjö liðum og sá síðasti
hljómaði svo:
7. Loks vekur það furðu okkar
sem íbúa í Reykhólahreppi að
Vegagerðin skuli með því að
hafna leiðum B og B1 virða að
vettugi nýsamþykkt aðalskipulag
fyrir Reykhólahrepp, sem gerir
ráð fyrir að Vestfjarðavegur nr.
60 skuli einmitt lagður samkvæmt
þeirri leið.
Undirskriftalistar lágu frammi
í þremur þorpum fyrir vestan,
í Búðardal og í sjoppunni á
Reykhólum. Eftir nokkra daga
sagði Jón kaupmaður mér að taka
undirskriftalistana að kröfu oddvita
Reykhólahrepps sem hafði sýkst af
Melanes–Reykjanes veirunni. Komin
aðeins um 25 nöfn úr Reykhólasveit.
Nú hafði í viðbót við veg yfir
Þorskafjörð komið upp ennþá
alvarlegri sýking; nefnilega
sjávarfallavirkjun og háspennulagnir.
Sú veira stóð í nokkur ár. Einar
sonur minn afhenti Birni V.
Gíslasyni, þáverandi formanni
samgöngunefndar Alþingis um
400 undirskriftir, undir kröfum að
Þorskafjörður væri þveraður frá
Kinnarstöðum að Þórisstöðum.
Á sama tíma var vegagerðin að
hallamæla á D leið yfir báða hálsana.
Íbúafundur
Vorið 2003 boðaði Vegagerðin til
íbúafundar í Bjarkalundi um áætlanir
þeirra að leiðum til umhverfismats.
Það voru aðallega tvær leiðir lagðar
til sem ekki fólu í sér að fara eftir
svæðisskipulagi frá 1998, (sem var
að fara yfir firðina þrjá; Þorskafjörð,
Djúpafjörð og Gufufjörð).
Lagðar voru til D leið yfir báða
hálsana og C leið út á Grónes og
yfir Gufufjörð. Þeir Gísli Eiríksson,
þáverandi yfirmaður vegagerðar á
Vestfjörðum, og Kristján Kristjánsson
forst jóri hönnunardeildar
Vegagerðarinnar, fylgdu málinu
eftir og svaraði Kristján greiðlega
fyrirspurnum fundargesta sem voru
margir, líklega yfir 100 talsins.
Harðar deilur urðu við félagana
Gísla og Kristján á fundinum. Gísli
var frekar fáorður en þó man ég eina
setningu í gagnrýni hans á veg um
Teigskóg. Þetta voru orðin:
„Það yrði fyrst að fella trén í
skóginum,“ skógi sem ekki náði
upp í pilsfaldinn á Hönnu Birnu,
þáverandi samgönguráðherra.
Einn fundargestanna, Gústaf
Jökull, krafðist þess að leiðin
Reykjanes–Melanes yrði einnig sett í
umhverfismat. Gísli og Kristján töldu
það fráleitt en nú hefur sú meinloka
grasserað síðan í fámennum en
háværum hóp.
Kristján kom með tillögu að
B-leið haustið 2003 sem verkaði
eins og sprengja þar sem gert var
ráð fyrir að vegurinn lægi nánast
um bæjarhlaðið á bænum Gröf. Á
sama tíma unnu vegagerðarmenn
að hallamælingum á D leið vestur
Gufudalssveit, þvert gegn löglegu
skipulagi. Til vitnis um það eru
járnhælar sem sjást víða vel meðfram
vegi úr Þorskafjarðarbotni og vestur
á Ódrjúgsháls. Það hlýtur að hafa
verið gert að skipan Gísla, sem er
slæm hegðun.
Undarleg ákvörðun
Í staðin fyrir að velja endurskoðaða
útgáfu af B-leiðinni, sem kölluð er
Þ.H.leið (Þórisstaðir – Hallsteinsnes)
er stefnt á að fara leið A1 með
veglínuna Reykhólar - Melanes.
Verði hún valin þarf að byggja veg
frá sjó við Árbæ að vegamótun í
Berufirði. Veghelgunarsvæði er 60
m breitt og vegalengdin um 25 km.
Og hvað með Barmahlíð, er öllum
sama um hana „Hlíðin mín fríða
hjalla meður græna”?
Í ritum Vegagerðarinnar er ítrekað
sagt:
„Vegasamband mun versna á 40
km kafla.”
Bjarkalundur og flestir bæir og
sumarhús í Gufudalssveit eru einmitt
á þeim kafla. Það verður að hafa í
huga að 90–95% vegfarenda eiga
ekki erindi á Reykhóla og að flestir
sækja í fuglasöng og rólegheit lausir
við umferðahávaða.
Leið A1 fylgir gígantískur
kostnaður, hún er 2 sinnum dýrari en
Þ.H leið og 8 km lengri. Vantar ekki
eitthvað á milli eyrnanna á fólkinu?
Fyrir sauðfjárbændur er augljós
kostur að vegur komi eftir Þ.H. leið.
Sauðfé á vegum veldur slysum og
fjárhagstjón bænda er verulegt.
Að bera saman Þ.H. leið og
B-leið sem lögð var fram haustið
2003 er eins og svart og hvítt hvað
áhrif á náttúruna snertir. Plöntur
og reyniviður sem áðurnefndur
Gunnlaugur Pétursson taldi í hættu
eru langt frá veglínu Þ.H. leiðar.
Í frummatstillögu Vegagerðar innar
eru flestar umsagnir jákvæðar um
Þ.H. leið t.d frá Breiðafjarðarnefnd,
bændum á Stað, Árbæ, jarðeigendum
í austanverðum Þorskafirði og
sveitarstjórn Reykhólahrepps. Allir
vildu Þ.H. leiðina.
Deilt um náttúruskaða
Þú leysir ekki styrjöld nema að orsakir
hennar séu ljósar og að satt sé farið
með staðreyndir. Í þessu tilfelli að
náttúruskaði sé rétt metinn. Það mat
liggur allt fyrir í fjölmörgum ritum
sem sveitarfélagið hefur fengið frá
Vegagerðinni. Í þeim ritum er öllum
5 leiðunum lýst og mat lagt á þær.
Það er skylda sveitarstjórnar-
manna og annarra að lesa vandlega
niðurstöður um hverja leið.
Kostnaður Vegagerðarinnar er orðinn
ótrúlega margir tugir milljóna og
vinnubrögð eru orðin gjörólík því
sem Gísli Eiríksson lagði til um
haustið 2003.
Á sama tíma er sveitarstjórn að
berjast við að fá veg eftir löglegu
skipulagi. Það er ekki fyrr en 2013
sem Vegagerðin lætur af þráhyggju
sinni að fara vestur yfir hálsana
með leiðum D eða D1 „Með smá
lagfæringum undir Mýrlendisfjalli“
eins og það er orðað í eldri skjölum.
Skipulagsstofnun neitaði að
samþykkja nýtt aðalskipulag
2006, enda þá var maðurinn
kominn á fjósbitann þar á bæ.
Svandís Svavarsdóttir, þáverandi
umhverfisráðherra, samþykkti það
hins vegar og gerði því aðalskipulagið
löglegt.
Síðastliðin 10 til 15 ár hefur
Skipulagsstofnun verið með
stofnanaofbeldi og talið algjört bann
við lagningu vegar. Vegagerðin og
sveitarstjórnir hafa verið á öndverðri
skoðun.
Umfjöllun
Öllum er frjálst að hafa skoðun
á mismunandi veglínum. Þegar
skoðanir ganga þvert á skynsamleg
rök um kostnað, öryggi á leiðum og
skaða á náttúrunni, vandast málið.
Hlutdrægni RÚV og Skessuhorns
er sláandi. RÚV vildi ekki segja frá
Gallup-könnun sem leiddi í ljós að
yfir 90% Vestfirðinga vildu veg eftir
Þ.H. leið.
RÚV neitaði að segja frá
vegna þess að einstaklingur
kostaði könnunina. Á sama tíma
glumdi í RÚV fáránleg niðurstaða
Norðmannanna í marga daga, kostuð
af Pálmasonum.
„Öfgahópar sjálfskipaðra náttúru-
unnenda,“ hamla lífs nauðsynlegum
umbótum í samgöngumálum og nú
einnig í raforkumálum.
Að lokum
Undirbúningur svæðisskipulags
Austur-Barðastrandarsýslu og
Dala hefur tekið mörg ár. Gætu
þá fullyrðingar mínar um að
Bjarni P. Magnússon, fyrrverandi
sveitarstjóri Reykhólahrepps, og
Snæbjörn Jónasson, fyrrverandi
vegamálastjóri, hafi komið þar við
sögu verið réttar?
Tilgangurinn með þessum skrifum
er sú von að áratugadeilur um
samgöngumál í Gufudalssveit leysist
og stuðli að því að Alþingi setji lög
sem heimili Vegagerðinni að hefja
útboð og framkvæmdir strax í haust
á Þ.H. leið. Enn fremur að Alþingi
endurskoði lög um Skipulagsstofnun
og láti rannsaka vinnubrögð þar á
bæ síðastliðin 15 ár, hvað varðar
Þjóðveg 60 í Gufudalssveit. Ábyrgð
þeirra er mikil, sem árum saman
stöðva lífsnauðsynlegar framfarir
í samgöngumálum Vestfirðinga.
Óraunhæf óskhyggja um aðrar leiðir,
þar sem kostnaður er skýjum ofar
og skaði á náttúru um Barmahlíð og
víðar, er mun meiri en á Þ.H leið
sem er eini raunhæfi kosturinn. Allir
kostir valda „skaða“ og breytingu
sem líka er til bóta. Vil ég þar nefna
opnun á leiðum sem hafa verið
lokaðar vaxandi ferðastraumi.
Kristinn Bergsveinsson
frá Gufudal
Kristinn Bergsveinsson. Mynd / HÞM
Gula leiðin á kortinu, sem Vegagerðin lagði til að yrði farin og liggur m.a. um Teigskóg er 22,5 km styttri.