Bændablaðið - 29.11.2018, Blaðsíða 12
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. nóvember 201812
FRÉTTIR
Í byrjun nóvember gerðu tollverðir
upptæka sendingu af hollensku
nautakjöti sem var ófryst. Var það
gert í samræmi við gildandi lög að
mati Matvælastofnunar.
Er það í fyrsta sinn sem kjöt er
gert upptækt eftir dóm Hæstaréttar
varðandi innflutning á fersku kjöti.
Komst dómurinn að þeirri niðurstöðu
í október að bann við innflutningi á
ófrystu kjöti bryti í bága við EES-
samninginn. Ríkið er samkvæmt
þessari niðurstöðu skaðabótaskylt
gagnvart innflutningsaðilum,
sbr. dómsátt sem ríkið gerði við
innflutningsaðila í byrjun nóvember
sem hugðist flytja inn fersk egg í
byrjun síðasta árs. Féllst ríkið á
bótaskyldu sína í því máli og greiddi
fullan málskostnað.
Stjórnvöld tilneydd
til að gefa eftir
Steinþór Skúlason, forstjóri SS,
telur að stjórnvöld séu tilneydd
til að heimila innflutning vegna
skuldbindinga sinna í gegnum
EES-samninginn. Hins vegar sé
mikilvægt að fá inn kröfur sem
Norðurlönd geri um vöru sem sé laus
við salmonellu. Þá þurfi einnig að
krefjast þess að fersk vara sé laus við
kamfylobakter sem er ein algengasta
orsök matarsýkinga. Bannað sé að
selja ferskan innlendan kjúkling sem
er sýktur af þessari bakteríu.
„Aukinn innflutningur mun
augljóslega leiða til verðlækkunar
á innlendu kjöti. Mér finnst vanta
að bændum sé gerð grein fyrir í
hvað stefni með nautakjöt því það
er mjög áhættusamt að leggja í
stórar fjárfestingar í ungneytaeldi
og taka ekki tillit til þess að veruleg
verðlækkun getur verið yfirvofandi,“
segir Steinþór.
Nautakjötsframleiðsla á
Íslandi hefur tekið nokkrum
breytingum síðustu ár. Árin 2014
og 2015 var áhersla kúabænda
á mjólkurframleiðslu, enda
eftirspurnin gríðarleg á þeim tíma
og verð í samræmi við það. Eftir
að eftirspurn eftir mjólk minnkaði
og vandamál sköpuðust innan
sauðfjárræktarinnar hafa sífellt fleiri
horft til þess að framleiða nautakjöt
sem aðal- eða hliðarbúgrein.
Ýmis atriði ýtt undir
aukna framleiðslu
Margrét Gísladóttir, framkvæmda-
stjóri Landssambands kúabænda,
segir að bændur standi frammi
fyrir miklum áskorunum verði
innflutningur gefinn frjáls. Greinin
hefur verið í talsvert mikilli sókn
að undanförnu, innflutningur á
fósturvísum af holdanautakyni frá
Noregi hófst í fyrra og fyrstu kálfarnir
fæddust nú í september. EUROP
kjötmat var tekið upp á síðasta ári
og aukin umræða hefur verið um
innlenda nautakjötsframleiðslu og
vitundarvakningu meðal neytenda
um uppruna matvæla. Þá hafi
erfiðleikar innan sauðfjárræktarinnar
leitt til þess að einhverjir hafa fært
framleiðslu sína yfir í nautakjöt.
Þessar breytingar hafi líklega haft
áhrif á aukna framleiðslu samhliða
breytingum á búvörulögum sem fela
í sér aukinn styrk við nautakjöts-
framleiðslu, miðað við fyrri samning.
Þessi atriði hafi aukið meðvitund
um að það væru fólgin tækifæri í
nautakjötsframleiðslu hér á landi.
Stefnumótun fyrir hvora grein
Margrét segir að Landssamband
kúabænda sé nú að koma fram með
stefnumótun til 10 ára. Sú nýbreytni
sé í þeirri stefnumótun að nú sé í
fyrsta sinn gerð aðskilin stefnumótun
fyrir mjólkur framleiðslu annars
vegar og nautakjötsframleiðslu hins
vegar.
„Við ákváðum að gera þetta
hvort í sínu lagi, og við ræddum
við fólk alls staðar í virðiskeðjunni,
bændur, verslun, heildsala,
innflutningsaðila, matreiðslumenn
og framleiðendur, svo einhverjir
séu nefndir,“ segir Margrét.
Þetta sé liður í því að gera
nautakjötsframleiðslu hærra
undir höfði sem búgrein og efla
fagmennsku innan greinarinnar.
„Það er alveg óhætt að segja að
í mörgum tilfellum hefur verið
litið á nautakjötsframleiðsluna
einungis sem hliðarafurð við
mjólkurframleiðsluna, en því
viljum við breyta. Aðrir eru
að standa sig gríðarlega vel
og leggja mikinn metnað í
kjötframleiðsluna,“ segir Margrét.
Hún segir að auknir tollkvótar
og almennar launahækkanir í
landinu séu meðal þeirra ógna
sem nautakjötsframleiðendur
standi frammi fyrir, auk þess sem
aukinn innflutningur sé mikil ógn
við samkeppnishæfni innlendrar
framleiðslu. Mikilvægt sé að grípa til
aðgerða og ólíkra mótvægisaðgerða.
Regluverk sem greininni er skapað,
upplýsingagjöf til neytenda,
upprunamerkingar og fleiri atriði
þurfi að vinna markvisst í.
Mótvægisaðgerðir fjölbreyttari en
sem snýr að sjúkdómastöðu
Í umræðum um innflutning á hráu
ófrosnu kjöti, ógerilsneyddum
mjólkurvörum og hráum eggjum
er gjarnan rætt um áhrif sem slíkt
hefði á lýðheilsu og sjúkdómastöðu
íslensks búfjár. En það er ekki
síður mikilvægt að vera vakandi
fyrir efnahagslegum áhrifum slíkra
aðgerða fyrir íslenskan landbúnað,
að mati Margrétar.
„Ég tel ótal rök fyrir því að við
eigum að fara fram á að halda í
frystiskylduna á grundvelli sérstöðu
okkar hér á landi. Ef ekki er hægt
að semja um það vitum við nokkurn
veginn hvaða mótvægisaðgerðir
þarf að ráðast í til að reyna að
halda búfjárheilsu hér á landi í
skikkanlegu horfi og hefur sú
vinna verið í ferli. Þegar kemur hins
vegar að samkeppnishæfni íslensks
landbúnaðar þurfum við að spyrja
okkur að því hvaða kröfur við viljum
að séu uppi í landbúnaði og hvað
við erum tilbúin til að greiða fyrir
þær. Ef við viljum áfram hafa háar
kröfur um dýravelferð, aðbúnað og
lyfjanotkun, svo dæmi séu tekin – og
ég efast ekki um að við sem þjóð
viljum – þá er ekki hægt að fara á
sama tíma fram á að varan sé sem
ódýrust. Sé okkur ætlað að keppa
við vörur sem framleiddar eru undir
allt öðrum kringumstæðum en eru
hér á landi þá þarf hið minnsta að
upplýsa neytendur um uppruna og
framleiðsluferli vörunnar því lágt
verð kemur alltaf niður einhvers
staðar,“ segir Margrét.
Framleiðsluferlið er oft þannig
að það er ekki alltaf hægt að ganga
úr skugga um hvernig aðstæður
dýranna, og þeirra sem starfa við að
meðhöndla dýrin og afurðirnar, eru.
Telur neytendur standa
með bændum
Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi
í Hofstaðaseli í Skagafirði, segir
að bændur í nautakjötsframleiðslu
séu uggandi yfir stöðu greinarinnar
og að það sé áhyggjuefni að þegar
starfsfólk í afurðastöðvum fái
lögbundnar launahækkanir þá þurfi
að sækja þær kostnaðarhækkanir til
bænda.
„Verð til bænda fyrir nautakjöt
hefur lækkað um 5–7% á árinu.
Verðþrýstingur vegna innflutnings
og kostnaðarhækkanir hjá
sláturhúsum og úrvinnsluaðilum
þurrka í mörgum tilfellum út launalið
bænda í nautakjötsframleiðslu,“
segir Bessi.
Vitund neytenda um uppruna
matvæla hefur aukist umtalsvert og
telur Bessi að upplýstir neytendur
standi með íslenskri framleiðslu og
kjósi hana. Jafnframt segir hann að
standa þurfi vörð um tollavernd og
leita leiða til hagræðingar meðal
afurðastöðva.
„Það eru nóg verkefni fram
undan við að standa vörð um
greinina, bændur eru áhugasamir
um að bæta framleiðsluna, aðstöðu
og aðbúnað dýranna og eru
vakandi fyrir tækifærum íslenskrar
matvælaframleiðslu. Ef stjórnvöld
standa ekki í lappirnar varðandi
óheftan innflutning á nautakjöti
þarf greinin að fara fram á
mótvægisaðgerðir, mögulega aukinn
stuðning við greinina. Greinin getur
ekki keppt við óheftan innflutning á
kjöti sem framleitt er undir öðrum
kringumstæðum en hér. Tollverndin
er því afar mikilvæg,“ segir Bessi
Freyr.
Mikið framboð af nautakjöti í
heiminum
Þurrkar í Evrópu og óstöðugt
veðurfar í Suður-Ameríku hefur
ýtt undir framboð á nautakjöti
á heimsmarkaði. Lönd eins og
Þýskaland og Noregur og fleiri
lönd í Evrópu hafa neyðst til að
fækka gripum hjá sér í kjölfar
uppskerubrests og þurrka sem
geisuðu á svæðinu í sumar. Á sama
tíma hafa aðföng hér á landi hækkað
undanfarið vegna uppskerubrestsins.
Má að mestu leyti rekja þær
hækkanir til veikingar krónunnar.
Þetta hefur ekki auðveldað bændum
lífið og sér í lagi haft áhrif á þá sem
eru að feta sín fyrstu spor innan
greinarinnar.
Samkvæmt tölum MAST hefur
framleiðsla á nautakjöti hér á landi
aukist um 3,5% sl. 12 mánuði og
sala um 4%. Framleiðslan er um
4.755 tonn. Í tölum Hagstofunnar
má sjá að innflutt nautakjöt nam
um 1.421 tonni árið 2017 og
1.123 tonnum árið 2016 (kjöt með
beini). /BR
Margrét Gísladóttir.
Gunnar Sæmundsson
GUNNAR Í HRÚTATUNGU
Hér segir frá unglingnum sem var of efnalítill til að komast
í Héraðsskólann á Reykjum. En einnig vormanni í upprisu
sveitanna.
Í byrjun nóvember gerðu tollverðir upptæka sendingu af ófrosnu hollensku nautakjöti:
Forstjóri SS telur að stjórnvöld séu
tilneydd til að heimila innflutning
– hins vegar sé mikilvægt að gera kröfu um að varan sé laus við salmonellu og kamfylobackter