Bændablaðið - 29.11.2018, Blaðsíða 40
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. nóvember 201840
Ég á heima á Lundarbrekku
í Bárðardal sem er í um 250
metra hæð yfir sjó. Frá 1974 til
1997 var ég mjólkurbílstjóri hjá
Mjólkursamlagi KÞ á Húsavík.
Daglega ók ég um sveitirnar og
varð vel kunnugur fólki, stöðum
og gróðri.
Gunnar og Þóra á Hrafnsstöðum í
Kinn voru með þeim fyrstu sem tóku
þátt í landshlutaskógaverkefninu,
þau voru miklir og góðir vinir mínir
og ég ræddi mikið við þau um þetta
verkefni og varð mjög spenntur. Þau
sögðu mér að einungis jarðir neðan
100 metra hæðarlínu fengju að taka
þátt í verkefninu.
Þá var ákveðið að veðja á það
hæðarbelti sem trúað var að gæfi
mestan vöxt. Norðurlandsskógar
voru svo formlega stofnaðir árið
2000. Þá var opnaður möguleiki
að við Hálendisbúar fengjum að
vera með í skógræktarverkefninu.
Við hjónin sóttum um árið
2001 og fengum inngöngu í
Norðurlandsskógaverkefnið. Hér á
Lundarbrekku eru blásnir melar móti
suðri og vestri, en nokkuð augljóst
að þar hefur verið þykkur jarðvegur.
Við tókum 23 ha. svæði norðan bæja,
mela, þurr holt, grasasund og sex
hektara af gömlu túni sem erfitt var
til heyskapar vegna vatnsgófa frá
melunum ofan túns. Þetta svæði
er í 250 til 280 metra hæð. Hluti
svæðisins er svo blautt að ekki
verður þar plantað. Við girtum
þetta og byrjuðum að planta 2000
Rússalerkiplöntum í september 2003.
Guðríður Baldvinsdóttir í Lóni
skipulagði svæðið og aðstoðaði
okkur á alla lund. Brynjar Skúlason
tók svo við umsjón verkefnisins.
Árið 2006 fengum við Gunnhildi
og Árna á Jódísarsöðum til að koma
með plöntuplóg sem Gunnhildur
hannaði og planta í túnið. Áður sló
ég það og rakaði, þar var plantað
um 9000 sitkabastarði og hvítgreni.
Einnig hengibirki og nokkrum
víðitegundum.
Grenið tók gríðarlega vel við
sér og rauk á stað, en snemma í
september fraus og drap það frost
fast að helming grenisins. Lítið er
eftir af hengibirkinu en víðirinn lifir
sæmilega. Í samráði við Brynjar
ákváðum við að reyna ekki meira
við túnið. Árið 2010 ákváðum við
í samráði við Brynjar Skúlason að
planta ekki meira í þetta svæði.
Rússalerkið öflugt
Langmest er þar Rússalerki, smávegis
af furu, ösp, elri og birki. Tókum annað
svæði, gamla landgræðslugirðingu
sem búið var að afhenda okkur.
Þetta svæði er um 35 ha. í blásnum
brekkum yst í Lundarbrekku landi.
í 200 til 250 metra hæð. Landið er í
beinu framhaldi af skógræktarsvæði
jarðarinnar Sandvíkur en þar er búið
að planta rúmar 200.000 plöntur. Í
þetta land erum við búin að planta,
mest Rússalerki, ögn af furu og
pínulítið af birki. Alls erum við búin
að planta 80–90 þúsund plöntum.
Vöxturinn hefur verið verulega
góður og afföllin lítil nema í greninu í
túninu. Lerkið frá 2003 er sumt orðið
4 metra hátt. Auðvitað eru þessi svæði
jaðarskógur og tvítoppar og brotnar
plöntur. Við hlið 4 metra trjáa eru
plöntur jafngamlar sem ekki eru nema
50 cm. Sumir verða bara ekki stórir.
Ómæld ánægja
Við höfum haft ómælda ánægju af
þessu brasi, og ánægjan vex með
auknum sjáanleika. Mikill áfangi var
árið 2016 þegar við söguðum okkur
jólatré úr eigin skógi. Samskipti okkar
við starfsmenn Norðurlandsskóga
hafa verið með ágætum. Sumt hef
ég undrast og sumu sé ég mikið eftir,
til dæmis tímanum sem ég hef eytt í
að planta birki. Hér kemur það sjálft
þar sem því líkar.
Hefði átt að leggja áherslu á furu
Mesta undrunin er að skógarbændur
í Bárðardal skuli fá birkiplöntur úr
Bæjarstaðaskógi þar sem úrkoman er
minnst hundraðföld á við hér. Enda
drepast Bæjarstaðabirkiplönturnar
flestar, eða vaxa í það minnsta
ekki neitt. Ef ég hefði haft vit á því
að skoða gamla skógarreiti hér í
Bárðardal hefði ég sótt fastar að fá
furu til plöntunar frekar en greni.
Það er augljóslega ánægðara með
úrkomuleysið hér.
Gamlir skógarhöggsmenn úr
Vaglaskógi eru vinir mínir og hafa
sagt mér frá tilraunum sem reyndar
voru þar og gáfust illa. Sömu
tilraunir fengum við að prófa með
sama árangri, svo sem að planta
plöntum úr frosti.
Ríkt í okkur að vilja
finna upp hjólið
Það er ansi ríkt í okkur að vilja
finna upp hjólið. Það er augljóst að
Rússalerki er sú landgræðsluplanta
sem hentar hér í Bárðardal. Hún
vex best í ísaldarmelum sem hvorki
Beringspuntur, lúpína eða nokkur
planta lifir í.
Kindur sýna lerkinu engan
áhuga
Ekki sýna kindur lerkinu nokkurn
áhuga, mér er sagt að þær tíni upp
nýplantaðar plöntur eins og að
gamni sínu, gæsir hafa gert það hér
í nokkrum mæli.
Mér finnst einsýnt að það tjón
sem sauðfé vinnur á lerki er svo
lítið að ekki er með nokkru móti
hægt að réttlæta þann kostnað
sem girðingar eru. Sérstaklega
á þeim svæðum þar sem snjór
sligar á hverjum vetri svo
aldrei verður endir á viðhaldi.
Ég væri til með að planta lerki
í austurbrúnir Bárðardals frá
Kálfborgará og suður að Svartá.
Frá um 200 metra hæð til 400.
Um 30 km 12 ferkílómetra svæði.
Bjóða útgerðum að kolefnisjafna
veiðiskap sinn með skógrækt.
Útgerðin borgaði allan kostnað
og fengi kolefnisbindinguna í
staðinn.
Bestu kveðjur
Jónas Sigurðarson
Lundarbrekku.
Sími: 517-8240 - Súðarvogur 20 - www.eyjalind.is
Vertu vinur okkar á Facebook
Sæti og varahlutir í
- Lyftara
- Vinnuvélar
- Vörubíla
- Báta
VIÐ SKÓGAREIGENDUR
Gugga í Lóni að kenna mér að planta fyrstu plöntum 2003.
Lerkið dafnar. Þetta er sami staður 11 árum seinna.
Sex ára gamalt lerki í ísaldarmel.
Vinsamlega hafið samband við Björgvin Guðjónsson, búfræðing
og löggiltan fasteignasala í síma 510-3500 og 615-1020
eða á netfangið bjorgvin@eignatorg.is
Skipholt 50b, 105 Reykjavík
Vegna aukinnar eftirspurnar óskum
við eftir bújörðum á söluskrá