Bændablaðið - 29.11.2018, Blaðsíða 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. nóvember 2018 7
LÍF&STARF
S íðastliðið laugardagskvöld, 24. nóv., sat ég mikinn afmælisfagnað Gylfa Gunnarssonar, útgerðarmanns og
bónda í Grímsey. Gestum bauð Gylfi til
veislu í reiðhöll Léttismanna á Akureyri.
Mikla bauð hann gestum magafylli,
en ekki síður þétta dagskrá gleðiefnis og
söngs. Þótt reiðleiðir séu fremur knappar
úti í eyju, þá rækir hann hestamennsku
sína mikið í landi. Gylfi hefur um langt
árabil gengið haustgöngur fyrir bændur á
Gunnarsstöðum. Þeir Gunnarsstaðabræður,
Steingrímur, Jóhannes og Ragnar, ásamt
Pétri Péturssyni, fluttu samkomunni eins
konar útdrátt úr gangnakveðskap genginna
ára þar sem Gylfi kemur mjög við sögu.
Þær vísur sem fylla þennan þátt verða
ekki sérstaklega höfundaðar en samt allar
ortar af fyrrnefndum félögum. Fyrstu þrjár
vísurnar eru nýsmíði, sennilega eftir Pétur,
ortar í tilefni afmælisdagsins.
Með heiðri og sóma hetja slyng
heldur sinni vöku.
Því skal Gylfa Grímseying
glaður kveða stöku.
Sólarmegin salta dröfn
sigldu í leiði fínu,
og stýrðu alltaf heilu í höfn
happafleyi þínu.
Eigðu af gæðum öllum nóg,
ekkert hafðu að fela.
Haltu reiðhest, sæktu sjó
og súptu á landapela.
Þá koma tilvitnaðar vísur úr göngum með
Gunnarsstaðamönnum:
Þó lítt oss kæti kuldi og hríð,
krap og vætugöngur,
var í kofa vistin blíð,
vísur, gleði og söngur.
Situr djúpt í sálarmal
og seiðir hugann löngum,
hafir þú í Heljardal
hampað fleyg í göngum.
Aldrei meiri yl ég fann,
eða gleði sanna,
en þegar Kaldakvíslin rann
um kverkar gangnamanna.
Oft í göngum glöggt ég fann
að Gylfi leysir vandann,
þegar maður hittir hann
með hákarlinn og landann.
Gæti verið þarfaþing
og þjónað smölun betur
að láta Gylfa Grímseying
gelta fyrir Pétur.
Eykst mér stöðugt andagift,
artir lágar bönnum.
Í góðu veðri er glasi lyft
með Gunnarsstaðamönnum.
Sólin skein á skallana,
skorið fé í hrönnum,
en Gylfi bætti upp gallana
á Gunnarsstaðamönnum.
Inná heiði er ég frjáls,
er það létt að skilja.
Eru komin upp í háls
eistun bæði á Gylfa.
Ef í göngur Gylfi fer
með glás af áfenginu
furðu borubrattur er
þó blæði úr rassgatinu.
Er á lífi enn um sinn,
en aftur fyrir handan
get ég séð að Gylfi minn
graðgar í sig landann.
Upp til heiða sæll ég syng,
síðan ríð með flaumi.
Læt svo Gylfa Grímseying
glamra meðfram straumi.
Ekki var af verstu sort
vínið góða og söngur.
Drukkið mikið, dável ort,
dásamlegar göngur!
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
MÆLT AF
MUNNI FRAM
Sigurbjörg Níelsdóttir frá Bústólpa sem gaf verðlaun, þá Atli Már Atlason sem varð í þriðja sæti, Gunnar Halldórsson í öðru sæti og Kristján Elvar
Gíslason, Íslandsmeistari í járningu 2018, lengst til hægri er Björn Jóhann Jónsson, formaður Hestamannafélagsins Léttis. Myndir / Sigfús Helgason
Kristján Elvar Íslandsmeistari
í járningum 2018
Keppnin var spennandi og mjótt á munum.
Kristján Elvar Gíslason varð
Íslandsmeistari í járningum árið 2018,
en mótið fór fram í Léttishöllinni á
Akureyri á dögunum. Það var haldið í
samstarfi Járningamannafélags Íslands
og Hestamannafélagsins Léttis.
Keppnin var spennandi og svo mjótt
á munum að annar dómarinn, Anton Páll
Níelsson, tók sér í munn nýyrði þegar hann
sagði að það hefði tæplega slimmfjöður
komist á milli þeirra er unnu til verðlauna.
Gestur Páll Júlíusson hélt magnaðan
fyrirlestur um kynbótajárningar og nýjar
áherslur í þeim efnum. Var það samdóma
álit manna er á hlýddu að orð hafi þar
verið í tíma töluð. Trausti Óskarsson var
skráður með fyrirlestur um hælahæð og
olnbogaágrip og viðeigandi sýnikennslu,
en vegna veðurs var ekki flogið þannig
að Trausti ræddi við gesti í gegnum
skype. Sýnikennsla var í kynbótatálgun
og járningum áður en Íslandsmótið í
járningum hófst.
Kristján Elvar Gíslason varð í
fyrsta sæti og þar með Íslandsmeistari
í járningum árið 2018, í öðru sæti var
Gunnar Halldórsson og í því þriðja Atli
Már Atlason. /MÞÞ
Nýkrýndur Íslandsmeistari í járningum, Kristján Elvar Gíslason.