Bændablaðið - 29.11.2018, Blaðsíða 36
Bændablaðið | Fimmtudagur 29. nóvember 201836
Ferskjur eiga sér langa
ræktunarsögu í Kína. Talið er að
Alexander mikli hafi haft þær með
sér til Evrópu eftir að hann lagði
Persíu að velli. Nektarínur eru
afbrigði af ferskjum.
Framleiðsla á ferskjum
og nektarínum hefur aukist
hratt undanfarin ár og áætluð
heimsframleiðsla á ferskjum og
nektarínum árið 2016 er rúm 25
milljón tonn. Framleiðslan er
langmest í Asíu, um 17,5 milljón
tonn, næstmest er hún í Evrópu, tæp
4,8 milljón tonn. Í Norður- og Suður-
Ameríku rúm 2,1 milljón, í Afríku er
áætluð ræktun 860 þúsund tonn og
84 þúsund tonn í Eyjaálfunni.
Þegar kemur að einstökum
löndum er Kína langstærsti
framleiðandinn og framleiðir ríflega
13 milljón tonn af ferskjum og
nektarínum á ári, sem er 11 milljón
tonnum meira en Spánn, sem er
annar stærsti framleiðandinn með
um tvær milljónir tonna á ári. Ítalía
er í þriðja sæti með framleiðslu á
um 1,5 milljón tonnum og Bandaríki
Norður-Ameríku og Grikkland í
fjórða og fimmta sæti og framleiðslu
upp á rúm milljón tonn.
Eins og gefur augaleið er Kína
stærsti útflytjandi ferskja og
nektarína í heiminum en þar á eftir
koma Spánn og Bandaríki Norður-
Ameríku. Stærstu innflutningslöndin
eru Þýskaland, Rússland, Hvíta-
Rússland og Frakkland.
Samkvæmt upplýsingum á vef
Hagstofu Íslands voru flutt inn rúm
190 tonn af ferskum ferskjum og
nektarínum árið 2017. Mest var flutt
inn frá Spáni, rúm 95 tonn, og Ítalíu,
tæp 81 tonn. Auk þess sem eitthvað
af ferskjum og nektarínum er flutt
inn sem þykkni og bragðefni.
Ættkvíslin Prunus
Um 430 tegundir trjáa og runna,
sem eru sígrænir eða lauffellandi,
tilheyra ættkvíslinni Prunus sem
er af rósaætt. Þar á meðal ferskjur,
plómur, kirsuber, perur, apríkósur
og möndlur.
Ferskjur og nektarínur
Ferskjur eru sætir ávextir ferskjutrjáa,
Prunus persica. Ferskjutré eru
lauffellandi og ná hæglega tíu metra
hæði í náttúrulegum heimkynnum
sínum í Asíu. Í ræktun eru tré yfirleitt
ekki hærri en þrír til fjórir metrar.
Stofninn sem vex upp af grunnt
liggjandi trefjarót er grannur og
sjaldan yfir 15 sentímetrar í þvermál
á fullvöxnum trjám. Laufið stakstætt,
lensulaga 7 til 16 sentímetra langt
og 2 til 3 sentímetrar að breidd.
Trén blómstra snemma á vorin
fyrir laufgun, blómin bleik 2,5 til
3 sentímetra í þvermál með fimm
krónublöðum. Aldinið, steinaldin,
rauðbleikt og gult á ytra borði en
hvítt gult og jafnvel rautt að innan
eftir afbrigðum. Angar vel. Utan um
fræið er brúnleitt, hrjúft og egglaga
fræhulstur sem er einn til tveir
sentímetrar að lengd. Fræið sjálft er
hvítt og eilítið minna en fræhulstrið.
Þrátt fyrir að til séu hundruð
mismunandi ræktunarafbrigði,
staðbrigði og landsortir af ferskjum
sem eru ólík að stærð, lögun, lit
og bragði eftir vaxtarstað, er þeim
yfirleitt skipt í tvennt. Annars vegar
ferskjur sem eru með flauelskennda
húð eða nektarínur, P. persica var.
nucipersica eða var. nectarina,
sem eru sléttar viðkomu eða eins
og nýrakaðar ferskjur. Ferskjur eru
yfirleitt stærri, mýkri og safaríkari
en nektarínur og fræið í þeim stærra.
Uppruni og útbreiðsla
Elstu minjar sem minna á
ferskjur eins og við þekkjum þær
í dag er 2,6 milljóna ára gamall
plöntusteingervingur sem fannst í
Kunming-héraði í Kína og kallast
P. kunmingensis. Talið er að
ferskjur hafi fyrst verið ræktaðar í
norðvesturhluta Kína. Þaðan barst
plantan um Asíu og til Persíu þar
sem ferskjur voru í miklu uppáhaldi.
Frá Persíu barst hún til Evrópu fyrir
ríflega 2.300 árum.
Nafnaspeki
Grikkir og Rómverjar kölluðu
ávöxtinn melon persikon, eða
persneskar plómur. Á frönsku varð
heitið pêche, á ítölsku pesca og
á ensku peach. Þjóðverjar nefna
ávöxtinn pfirsich, Pólverkar kalla
hann brzoskwinia, Finnar persikka,
á galísku er heitið pexego og dönsku
fersken og þaðan sem íslenska heitið
ferskja er komið.
Á ensku er orðið peach slangur-
yrði yfir ungar konur eins og svo
eftirminnilega kemur fram í texta
lagsins Peaches með hljómsveitinni
Strangles „Walking on the beaches
looking at the peaches“.
Þýðing latneska ættkvíslar-
heitisins Prunus er óþekkt en talið
að það sé lánsorð úr phrygian sem
er útdautt tungumál sem var talað
í Mið-Asíu og skylt frumgrísku.
Tegundaheitið persica þýðir að
plantan komi frá Persíu og tengist
því að Evrópumenn töldu hana
þaðan komna.
Saga
Þrátt fyrir að latneska tegundaheitið
persica bendi til þess að plantan sé
upprunnin í Persíu, þar sem nú er
Íran, sýna rannsóknir að erfðaefni
hennar svo ekki verður um villst að
plantan sé upprunnin í Kína. Talið
er að ræktun á ferskjum hefjist í
Zhejiang-héraði norðan við Sjanghæ
Kína 6000 árum fyrir Kristburð.
Ferskja er getið í kínverskum ritum
frá því á elleftu öld fyrir Krist
og sagðar í miklu uppáhaldi hjá
keisaranum og hirðinni.
Vísbendingar eru um að ferskjur
berist til Japan frá Kína á tímabilinu
4700 til 4400 fyrir upphaf okkar
tímatals, eða á svokölluðu Jomon-
tímabili. Talið er að planta berist til
Indlands um 3700 fyrir Krist.
HELSTU NYTJAJURTIR HEIMSINS
Vilmundur Hansen
vilmundur@bondi.is