Bændablaðið - 13.12.2018, Blaðsíða 69
Bændablaðið | Fimmtudagur 13. desember 2018 69
Ástæða þess að ég tek mér penna
í hönd nú er sú að ég var nýverið
að skoða þann mun sem er á
sæðingagjöldum hjá kúabændum
milli svæða hérlendis. Ég bý
á Vesturlandi, þ.e. á svæði
Búnaðarsamtaka Vesturlands
sem sjá um kúasæðingar frá
Kjalarnesi í suðri, Borgarfirði,
Snæfellsnesi, Dölum og allt til
Vestfjarða í norðri. Þetta er
víðfeðmt svæði en þó ekkert
víðfeðmara en t.d. á Suðurlandi
þar sem Búnaðarsamband
Suðurlands rekur kúasæðingar
allt frá Hellisheiði í vestri allt
austur á Hérað.
Hérlendis rekum við nokkur
fyrirtæki sem sjá um kúasæðingar
eða líklega ein sex talsins fyrir um
26 þús. kýr. Það lætur því nærri
að meðalfjöldi kúa á rekstraraðla
sé 4.300 talsins. Miðað við 1,9
sæðingar á kú til jafnaðar ætti
heildarfjöldi sæðinga að vera nálægt
49 þús. á ári eða rétt rúmlega 8.200
á hvern rekstraraðila.
Sæðingastarfsemin í landinu
nýtur stuðnings samkvæmt samningi
um starfsskilyrði nautgriparæktar
dags. 19. feb. 2016 og í 20. gr.
reglugerðar nr. 1181/2017 um
stuðning í nautgriparækt er kveðið
á um skiptingu þessa stuðnings:
Greiðslum vegna kynbótastarfs
skal Matvælastofnun ráðstafa með
eftirfarandi hætti:
1. 85% árlegra framlaga skal
ráðstafa til aðila sem reka
starfsemi í nautgripasæðingum.
Framlagið skal greitt með 12
jöfnum mánaðarlegum greiðslum
og skiptist milli viðtakenda á
grundvelli magns innveginnar
mjólkur á starfssvæði viðtakenda
í næstliðnum mánuði. Þannig
er framlagi vegna janúar skipt
á grundvelli framleiðslu í
næstliðnum desembermánuði.
2. 15% árlegra framlaga skal ráðstafa
til jöfnunar á sæðingakostnaði
til aðila sem reka starfsemi í
nautgripasæðingum. Framlagið
skal greitt með 12 jöfnum
mánaðarlegum greiðslum
og skiptist milli aðila með
eftirfarandi hætti:
a. 65% fjárhæðarinnar skiptist
samkvæmt fjölda stöðugilda
frjótækna sem starfa fyrir
hvern aðila.
b. 20% fjárhæðarinnar skiptist
samkvæmt heildarfjölda
ekinna kílómetra pr. sæðingu
á starfssvæði hvers aðila.
Ekki er þó greitt fyrir fyrstu
20 kílómetra sem eknir eru
vegna hverrar sæðingar.
c. 10% fjárhæðarinnar skiptist
samkvæmt fjölda sæðinga á
starfssvæði hvers aðila.
d. 5% fjárhæðarinnar renna
til Nautastöðvar Bænda-
samtaka Íslands til að standa
straum af kostnaði við þjálfun
frjótækna.
Heimilt er að ráðstafa allt að 3%
árlegra framlaga til kynbótastarfs
skv. samningi um starfsskilyrði
nautgriparæktar til að styrkja
mikilvæg sameiginleg verkefni í
kynbótastarfinu, s.s. kvíguskoðun
o.fl.
Sú fjárhæð sem tilgreind er
í samningi um starfsskilyrði
nautgriparæktar að renni til kynbóta-
og sæðingastarfsemi er nálægt 199
milljónum króna á árinu 2018. Þessi
fjárhæð rennur að langmestu leyti til
sæðingastarfsemi eða a.m.k. ríflega
96% hennar. Heimild er til að styðja
við kvígu- eða kúaskoðun og 0,75%
heildarupphæðarinnar renna til
Nautastöðvarinnar til þjálfunar
frjótækna. Kúasæðingar njóta því
nálægt 191 milljón króna stuðnings
sem jafngildir nálægt 7.350 kr/kú
eða 3.900 kr. á sæðingu miðað við
að kýr séu 26 þús. og sæðingar 49
þús. sem lætur mjög nærri.
Kúabændur á Íslandi búa
við gríðarmikinn mun á
sæðingagjöldum frá hendi
þeirra aðila sem sjá um rekstur
sæðinganna þrátt fyrir opinberan
stuðning og tilraunar hins opinbera
til þess að jafna sæðingakostnað
sem endurspeglast á ákvæðum
reglugerðarinnar. Til þess að bera
saman mun milli svæða er í raun
best að taka dæmi. Í eftirfarandi
dæmum sjáum við glöggt þann
mun sem er á sæðingagjöldum hjá
Búnaðarsamtökum Vesturlands
annars vegar og Búnaðarsambandi
Suðurlands hins vegar.
Dæmi 1:
Sædd er ein kýr með hefðbundu
sæði hjá bónda sem nýtur bestu
kjara (félagsmaður í BV og
stundar mjólkurframleiðslu).
Fyrir þessa sæðingu þarf
viðkomandi að greiða
sæðingargjald, kr. 3.581 að
viðbættu heimsóknargjaldi, kr.
2.625. Sæðingin kostar því alls
kr. 6.206.
Sami aðili greiðir hjá BSSL (þá
mjólkurframleiðandi á svæði
BSSL) fast gjald á hverja kú á
ári að viðbættum 0,25 kvígum
fyrir hverja kú. Gjaldið nemur
kr. 2.900 á kú og að meðtöldum
kvígum er það 2.900 x 1,25 eða
kr. 3.625. Ekki er innheimt
sérstaklega fyrir heimsóknir
og allar sæðingar innifaldar.
Sæðing kostar því alls kr. 3.625
í þessu dæmi.
Dæmi 2:
Bóndi lætur sæða tvær kýr og
aðra með SpermVital-sæði. Hjá
BV greiðir bóndi kr. 3.581 fyrir
aðra sæðinguna og kr. 4.581
fyrir SpermVital-sæðinguna
að viðbættu heimsóknargjald
kr. 2.625. Hver sæðing kostar í
þessu tilviki k. 5.394.
Hjá BSSL greiðir bóndi áfram sama
gjald, þ.e. kr. 3.625 á kú og hver
sæðing kostar því áfram það sama.
Þessi einfaldi samanburður segir
þó ekki alla söguna því hver kýr er
að öllu jöfnu ekki bara sædd einu
sinni heldur má reikna með að til
jafnaðar þurfi um 1,9 sæðingar
til að koma kálfi í hverja kú. Við
skulum því reikna þetta á 60 kúa
bú á ársgrundvelli og gefa okkur
að viðkomandi bú noti SpermVital-
sæði í 17% tilvika og láti sæða 0,3
kvígur á hverja kú eða 18 kvígur
yfir árið. Þetta bú notar því samtals
148 sæðingar yfir árið (60 x 1,3 x
1,9) og þar af eru 25 SpermVital-
sæðingar. Erfitt er að gera sér
grein fyrir hversu oft þarf að kalla
til frjótækni en við skulum reikna
með að til jafnaðar séu sæddir tveir
gripir í hverri heimsókn frjótæknis.
Kostnaður búsins verður
eftirfarandi:
Hjá BV verða sæðingar kúnna
með hefðbundnu sæði 95 talsins
á kr. 3.581 eða alls kr. 340.195.
Sæddar eru 18 kvígur og þar af
15 með hefðbundu sæði. Fyrir
kvígusæðingu er innheimt
kr. 1.953 á hverja sæðingu
eða samtals kr. 54.684. Fyrir
SpermVital-sæðingar á kúm
sem verða 19 greiðir bóndi kr.
87.039. SpermVital-sæðingar
á kvígum verða 6 talsins
sem gerir samtals kr. 17.718.
Heimsóknirnar verða alls 74 og
heimsóknargjald því samtals kr.
194.250. Heildarkostnaður á ári
verður því kr. 693.886 og hver
sæðing kostar kr. 4.688.
Hjá BSSL greiðir bóndi fast gjald
á kú sem nemur kr. 3.625 og
eru kvígusæðingar, heimsóknir
og SpermVital-sæði innifalið.
Heildarkostnaður verður því kr.
217.500 og hver sæðing þá á kr.
1.470.
Þarna er um að ræða 3,2-faldan
kostnað hjá bændum á starfssvæði
Búnaðarsamtaka Vesturlands
miðað við bændur á svæði
Búnaðarsambands Suðurlands.
Hvernig í ósköpunum getur staðið
á þessum mikla mun?
Ef reiknað er með að
sæðingastarfsemin á Vesturlandi
sé rekin hallalaus en án hagnaðar
má ætla að hver sæðing þar kosti
kr. 4.688 að viðbættu framlagi
ríkisins, kr. 3.900, eða kr. 8.688.
Sambærileg tala á Suðurlandi er
kr. 5.370. Munurinn er 62%.
Það er greinilegt að sú jöfnun
sem reynd er með framlagi til
sæðingastarfseminnar er ekki að
ná tilætluðum árangri. Þá er einnig
greinilegt að óhagkvæmni er mikil
í sæðingastarfseminni á Vesturlandi
samanborið við Suðurland og sé
það raunverulega svo að þennan
mikla mun þurfi til að ná endum
saman þarf að endurskoða þá
starfsemi frá grunni.
Sæðingar hérlendis eru ódýrar
Ef við berum saman kostnað
hérlendis og í Noregi kemur í ljós
að sæðingar hér eru ódýrar. Geno
í Noregi er með nokkuð flókna
gjaldskrá sem birt er í nautaskrá
samtakanna (Oksekatalogen) og
þar er innheimt misjafnt verð á
sæði eftir kynbótagildi nautanna
frá kr. 2.255 upp í kr. 5.893 m.v.
gengi norsku krónunnar 18. nóv.
2018. Þá er innheimt fyrir hverja
sæðingu, heimsókn, helgar- og
helgidagaálag auk þess sem
SpermVital-sæði kostar kr. 1.455
aukalega. Gefinn er afsláttur ef
framkvæmdar eru ein eða fleiri
sæðingar í heimsókn auk þess
sem afsláttur er á sæðingagjaldi á
kvígum ef bóndi er í skýrsluhaldi.
Miðað við sömu forsendur og í
dæminu með 60 kýr hér að ofan og
því að ég hafi skilið gjaldskrá Geno
rétt kostar hver sæðing í Noregi
kr. 9.302. Auðvitað er erfitt að
alhæfa um þetta en þarna er miðað
við 1,9 sæðingar á hverja kú og
kvígu, 17% notkun á SpermVital-
sæði, 2 sæðingar í heimsókn til
jafnaðar, þáttöku í skýrsluhaldi og
að dreifing sæðinga sé það jöfn að
hlutfallslega jafnmargar sæðingar
lendi á helgum og helgidögum
og fjöldi heimsókna segir til
um. Ef gjaldskráin endurspeglar
raunkostnað getum við sagt með
allmikilli vissu að sæðingar
hérlendis séu mjög ódýrar, í það
minnsta miðað við sæðingar í
Noregi.
Enduskoða þarf fyrirkomulag
sæðinga hérlendis
Það er alveg ljóst að mikill
ójöfnuður ríkir í gjaldtöku fyrir
nautgripasæðinigar hérlendis eftir
staðsetningu eða búsetu þrátt fyrir
ákvæði samnings um starfsskilyrði
nautgriparæktar og reglugerð um
stuðning í nautgriparækt þar sem
reynt er að jafna þennan kostnað.
Greinilegt er að framlögin ná
ekki að jafna þennan mun en því má
heldur ekki gleyma að sum svæði
hafa hagrætt í þessari starfsemi
langt umfram önnur. Þessi munur
er meiri en ásættanlegt getur talist
og því eitt af þeim málum sem
Landssamband kúabænda ætti að
beita sér fyrir, þ.e. að bilið milli
þeirra sem greiða mest og þeirra
sem greiða minnst verði minnkað
eða það sem betra væri eytt með
öllu. Að öllum líkindum er það
ekki framkvæmanlegt nema með
því að sæðingastarfsemin í landinu
verði sameinuð undir einn hatt. Ég
legg til að það verði skoðað mjög
alvarlega hvort ekki fari einfaldlega
best á því að sameina rekstur
Nautastöðvarinnar á Hesti og
sæðingastarfsemina á Íslandi í eitt
fyrirtæki. Með því tel ég að næðist
fram mikil hagræðing þar sem hægt
væri að gera starfssvæði frjótækna
meira „fljótandi“, afleysingar yrðu
auðveldari og hægt væri að dreifa
álagi betur.
Með bættum samgöngum er
hægur vandi að sinna sæðingum
yfir stærri svæði en áður var
og þá má ekki gleyma hversu
kúabúum hefur fækkað frá því
að sæðingastarfsemin var sett
á laggrinar. Því miður hefur
íhaldssemi kerfisins staðið í vegi
fyrir því að eðlileg hagræðing
hafi átt sér stað þar sem fastheldni
á hina gömlu svæðaskiptingu
ræður ríkjum í stað þess að leita
bestu lausna. Sá munur sem er á
gjaldtöku milli svæða staðfestir
það.
Jóhannes Jónasson,
bóndi á Jörfa í Borgarbyggð
LESENDABÁS
Eðlilegur munur á sæðingagjöldum?