Bændablaðið - 04.10.2018, Side 26
Bændablaðið | Fimmtudagur 4. október 201826
Skáldið og heimspekingurinn
Kristján Hreinsson, sem oft
er kenndur við Skerjafjörð, er
byrjaður á nýstárlegri aðferð
við að rita sögu fyrirtækja á
Íslandi, í bundnu máli. Hefur
hann þegar lokið við að rita
sögu vélsmiðjunnar Loga á
Patreksfirði og vinnur nú að
ritun á sögu flugfélagsins Ernis
og fleiri eru í bígerð.
„Þetta snýst um að forsvarsmenn
fyrirtækja segja mér sögu sinna
fyrirtækja, sem ég set síðan í bundið
mál. Þannig bý ég til „ljóðsögu“
fyrirtækisins. Þetta geta verið
fyrirtæki eða stofnanir af öllu tagi.
Það geta t.d. verið stórfyrirtæki
eða leikskólar, það er í raun allt
mögulegt í þessu. Aðalatriðið er að
finna rétta flötinn og hvað passar
hverju sinni,“ segir Kristján.
Að hámarki 50 textasíður
Þetta ljóðsöguform á söguritun
gefur möguleika á að segja söguna
í mjög samþjöppuðu máli með
tilfallandi myndefni án þess að
leggja undir það mörg hundruð eða
þúsundir blaðsíðna. Kristján gengur
út frá því að í hverri fyrirtækjasögu
séu 20 til 30 ljóð og lausavísur
og í mesta lagi 50 síður af rituðu
máli auk mynda. Þannig fái menn
í hendur verk sem er öllum mjög
aðgengilegt og hægt að grípa niður
í hvenær sem hentar án þess að
setja sig í stellingar við viðamikinn
doðrantslestur. Og Kristján segir
okkur að orðið „ljóðsaga“ sé í raun
gamalt og hafi verið til í nokkur
hundruð ár.
„Þetta er hugsað eins og eins
konar minnisvarði sem lýsir sögu
fyrirtækisins og fólkinu sem fyrir
það hefur starfað. minnisvarði sem
hentar vel til að gefa viðskiptavinum
og hverjum sem er.“
Alvaran, hversdagsleikinn og
húmorinn í bland
Kristján segist gera þetta þannig
að hann setji saman áherslupunkta
eins og hvað í sögunni þurfi
að vera á alvarlegum nótum,
hvað þurfi að styðjast nokkurn
veginn við söguna með ýmsum
staðreyndaupplýsingum og hvað
hægt sé að nota í líkingamáli til að
styrkja þá grunnfleti sögunnar sem
hann langar að koma á framfæri.
„Síðan hef ég það sem kalla má
daglegt mál án sérstaks íburðar
í ljóðagerð. Það er einfaldur
kveðskapur en samt með skýrum
ummælum t.d. um menn sem starfað
hafa hjá viðkomandi fyrirtæki. Eins
get ég á þessu hversdagslega máli
fjallað um það hver séu markmið
fyrirtækisins og annað slíkt.“
Í þriðju leiðinni er svo farið út
í húmorinn þar sem hægt er t.d.
að fjalla um karakter manna innan
fyrirtækisins eða í tengslum við þau.
Undir formerkjum gamanseminnar
er hægt að segja sögu sem endar á
ferskeytlu eða limru.
„Ef ég væri að yrkja fyrir
leikskóla gæti ég alveg blandað inn
í þetta söngtextum sem ég hef samið
og passa fyrir börn. Þá ekki sem
uppfyllingarefni, heldur texta sem ég
gæti bókstaflega tengt við það sem
fram fer í viðkomandi leikskóla.“
„Í þeirri bók sem ég hef gert fyrir
vélsmiðjuna Loga á Patreksfirði
hafði ég úr ansi mörgu að moða.
Saga þessa gamla fyrirtækis er merk
og margslungin. Efniviðurinn var
miklu meira en nægur og þar er líka
fjallað um staðhætti og umhverfið
sem fyrirtækið hrærist í. Sumt
þarf kannski ekki að koma sögu
fyrirtækisins beint við en tengist
henni samt á einhvern hátt. Þá varð
úr þessu miklu skemmtilegri bók en
ég hafði ímyndað mér. Enda hafði ég
aldrei gert svona áður og veit ekki til
að svona bók hafi verið gerð.
Þetta kom bæði mér og öðrum
skemmtilega á óvart. Og ég held
að þeir sem lesið hafa, séu mér
sammála. Hjá Loga fer Barði
Sæmundsson í fylkingarbrjósti og
mér heyrist á honum að þetta sé
bara afar þokkaleg smíð. Ólafur,
bróðir hans, sagði mér margt
skemmtilegt sem ég gat stuðst
við. En síðan vil ég geta þess að
ég vil vinna þessa hugmynd áfram
með mönnum sem kunna til verka,
þar vil ég nefna þá Rögnvald
Bjarnason og Hálfdán Gunnarsson
í Leturprenti, en þeir hafa komið
með ómetanlegt innlegg varðandi
útlit og uppsetningu. Þarna eru
snillingar í hverju horni.“
Ekki meiri lygi en þekkist í
sagnfræði
– Þú ert þá ekki endilega að feta slóð
grjótharðrar sagnfræði?
„Nei, alls ekki. Þetta er sett í
skáldskaparform, en samt er ekki
í þessi neitt meiri lygi heldur en
þekkist í sagnfræði. Sjálfur lærði
ég sagnfræði á sínum tíma þegar
ég las leikhúsfræði og komst þá að
því að sagan fjallar ekki endilega
um það sem gerðist, heldur um það
sem við segjum að hafi gerst, eins
og þegar sigurvegarinn segir söguna.
Aðalatriðið er hvernig við segjum
söguna. Og hér gildir stundum, að
flíka því sem fyndnara reynist.“
„Endursögnin í ljóðsögu getur
verið meira njörvuð en nokkurn tíma
er hægt í sagnfræðilegri formgerð.
Þarna er formgerðin orðin þannig að
frásögnin er lituð með tungumálinu
og tungumálið litað með
blæbrigðunum. Ég nota rím, stuðla
og höfuðstafi og hverf aldrei frá
réttu formi í ljóðum og ferskeytlum.
Eins get ég notað limruna sem er í
sjálfu sér epísk í formi sínu. Formið
sjálft segir sögu. Þú getur farið með
limru sem inniheldur ekkert orð, en
þú heyrir frásögnina í hrynjandi
hennar. Allt eru þetta hliðargötur við
frásögnina. Formið gerir frásögnina
mun skemmtilegri.“
Með öðrum orðum, í ljóðsögunni
getur skáldið njörvað niður
formið og gefið ímyndunaraflinu
lausan taum, eða eins og Kristján
Hreinsson segir:
Ef sagan öll er sett í ljóð
og sálin lögð að veði
þá breytist hún í besta sjóð
sem bara veitir gleði.
VIÐ VERÐUM Á
LANDBÚNAÐAR-
SÝNINGUNNI Í
LAUGARDALSHÖLL
12.-14. OKTÓBER
Kíktu í kaffi og kleinur
og spjöllum saman
Yleiningar • Innréttingar • Gólf í gripahús • Stálgrindarhús
Básamottur • Mænisgluggar • Rafgirðingarefni o. fl.
byko.is
MENNING&LISTIR
Hörður Kristjánsson
hk@bondi.is
Skáldið og heimspekingurinn Kristján Hreinsson býðst nú til að rita sögur fyrirtækja og stofnana í bundnu máli:
Yrkir „ljóðsögur“ fyrirtækja í hnitmiðuðu og knöppu formi
– Þegar búinn að semja sögu vélsmiðju á Patreksfirði og er með sögu flugfélags í smíðum
Skáldið og heimspekingurinn Kristján Hreinsson sem oft er kenndur við Skerjafjörð. Mynd / HKr.
Vegurinn heim
„Ég er alltaf að lesa
bók sem í vantar eina
síðuna. Og það er
alltaf mikilvægasta
síðan.“
Fyrr á þessu ári
kom út hjá Veröld
bókin Vegurinn heim
lengist með hverjum
morgni eftir Fredrik
Backman, höfund
bókarinnar Maður
sem heitir Ove.
Nói og afi hans
sitja á bekk og tala
saman. Þeir geta
rætt um allar lífsins
gátur, bæði þær
stóru og smáu.
Heimur afans er
að breytast, hann
verður sífellt
óreiðukenndari
og það verður
honum æ erfiðara
að kalla fram
minningarnar.
Það rennur upp
fyrir þeim að
brátt þurfi þeir að
kveðjast.
Fredrik Back-
man er einn
fremsti rithöfundur
Norðurlanda. Bækur hans hafa
farið sigurför um heiminn og sitja
víðs vegar efst á metsölulistum. Hér
kemur höfundurinn að lesandanum
úr óvæntri átt í lítilli en áhrifamikilli
bók.
„Ljúf, sorgleg og þrungin
kærleika.“ – Dagens nyheter
„Síður bókarinnar eru hlaðnar
gleði, ást og trega.“ – The Book
Reporter
Vegurinn heim lengist með hverjum
morgni er 70 blaðsíður að lengd.
Eyjólfur Jónsson braut bókina um
og Nils Olsson hannaði kápu. Bókin
er prentuð í Eistlandi.Höfundurinn Fredrik Backman.