Bændablaðið - 04.10.2018, Page 40

Bændablaðið - 04.10.2018, Page 40
Bændablaðið | Fimmtudagur 4. október 201840 VIÐ SKÓGAREIGENDUR Geta ferðamenn grætt landið? Eitt af vandamálunum sem stærri skógarbændur kljást við á hverju ári er að finna vinnufólk sem tilbúið er til að planta á vorin. Margir erlendir ferðamenn vilja kynnast menningu og náttúru Íslands. Þessar tvær þarfir geta mæst á réttum stað: við skógrækt ferðamanna. Ferðamenn dagsins í dag eru ekki þeir sömu og fyrir einni kynslóð. Neyslumynstur almennt hafa breyst frá því að eyða peningum í að eiga og nota hlutina í að leigja hluti og upplifa. Þessi breyting á neyslumynstri er kynslóðatengd. Yngra fólk í dag ferðast mun meira en jafnaldrar þess gerðu fyrir 1–2 kynslóðum. Lágfargjaldaflugfélög bjóða upp á að fólk ferðist mikið og er eftirspurnin þá helst í því að upplifa eitthvað, jafnvel það eitt að hafa komið til ákveðins lands. Með auknu flugi eykst útblástur gróðurhúsalofttegunda. Langflestir átta sig á þessu þótt viðkomandi grípi því miður of sjaldan til aðgerða ætluðum til að minnka nettó kolefnisspor ferðalaga. Íslenskir skógarbændur til bjargar Tiltölulega auðvelt væri fyrir íslenska skógarbændur að mæta þörfum nútíma ferðamanna fyrir upplifun. Það eitt að planta 100– 200 trjám í íslenskri náttúru myndu margir skilgreina sem upplifun. Fengi ferðamaðurinn hádegismat og sögur af landsvæðinu eða úr héraðinu sem hann væri í yrði upplifunin þeim mun meiri. Í ofanálag væri hann að kolefnisjafna sitt ferðalag til Íslands, a.m.k. að hluta, og væri það annar stór plús í huga viðkomandi. Fyrir skógarbóndann væri þetta kjörið fyrirkomulag. Auðvelt er að kenna fólki hvernig á að planta trjám og þótt afköstin hjá óþjálfuðum einstaklingi séu mun minni en hjá verktaka er betra að 3–4 ferðamenn planti trjám þann daginn frekar en enginn. Það skal tekið skýrt fram að ferðamennirnir væru ekki vinnuafl, heldur væru þeir að fá þjónustu sem skógarbóndinn veitti þeim. Gjaldið fyrir þjónustuna gæti verið afskaplega lágt, e.t.v. 1000 kr. fyrir trjáplöntun, heita súpu í hádeginu og leiðsögn um svæðið, því fullur skilningur ætti að vera á því að skógarbóndinn fær einnig „greiðslu“ í formi plantaðrar plöntu. Gistiaðstaða gæti verið seld sér eða í samvinnu við hótel í nágrenninu. Þá væri kjörið að veita þá þjónustu að senda viðkomandi tölvupóst árlega með myndum af svæðinu sem hann plantaði í svo upplifun ferðamannsins vari í mörg ár. Það væri ekki aðeins auðvelt í framkvæmd heldur kjörið tækifæri til þess að minna ferðamanninn reglulega á Íslandsdvöl hans. Slíkt veldur jákvæðu umtali og er frábær auglýsing fyrir Ísland sem áfangastað ferðamanna þar sem aðgerðir til varnar loftslagsbreytingum eru í hávegum hafðar. Auðvelt í framkvæmd og hefði margvíslegar jákvæðar afleiðingar Framtakssamir skógarbændur ættu hiklaust að íhuga þennan möguleika. Kæmist á opinbert samstarf milli ólíkra samtaka væri það vitanlega jákvætt en ekkert ætti að stöðva nokkurn mann frá því að framkvæma þetta upp á eigin spýtur. Framtakssamur skógarbóndi myndi setja sig í samband við hótel og ferðaskrifstofur til að ræða samstarf til að veita þessa skógræktunarþjónustu. Einfaldir einblöðungar sem liggja frammi á helstu áfangastöðum ferðamanna í nágrenninu væru góð auglýsing á þjónustunni. Og flugfélög sem fljúga til Íslands myndu mörg hver vera tilbúin til þess að bjóða upp á möguleikann að koma ferðamanninum í samband við skógarbóndann óskaði ferðamaðurinn eftir því. Með þessu fyrirkomulagi væru margar flugur slegnar í einu höggi. Í fyrsta lagi myndi geta skógarbænda á Íslandi til að stækka skóglendi sitt á ódýran hátt aukast. Í öðru lagi fengi ferðamaðurinn upplifun sem væri sérstök í samanburði við aðra áfangastaði og entist honum lengi, sérstaklega fengi hann ljósmyndir af svæðinu árlega. Í þriðja lagi gætu skógarbændur fengið af þessu tekjur, t.d. vegna sölu á gistiaðstöðu. Þá myndi þetta auka flóru upplifana í íslenskri ferðaþjónustu og auglýsa Ísland sem umhverfisvænan áfangastað. Síðast en ekki síst kæmi þetta heimsbyggðinni allri vel í baráttunni við loftslagsbreytingar. Ólafur Margeirsson hagfræðingur Bræður við trjáplöntun, frá vinstri: Hrafn Margeirsson og greinarhöfundur, Ólafur Margeirsson. Danskir verknemar við gróðursetningu, þau Sille, Rasmus og Niels. Einn af gestum Íslands við trjáplönt- un. UMHVERFISSTOFNUN Ágangur álfta og gæsa grein 1 Umhverfisstofnun hefur umsjón með og stjórn á þeim aðgerðum sem ætlað er að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra, sem og koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum. Í maí síðastliðnum var ráðinn til Umhverfisstofnunar starfsmaður sem fer með málefni er snúa að ágangi álfta og gæsa á ræktarlönd. Í starfinu felst m.a. samstarf við bændur og sveitarfélög, stefnumótun í veiðistjórnun og stjórnunaráætlanir fyrir veiðistofna. Á síðustu mánuðum hefur Umhverfisstofnun mótað hugmyndir um hvernig betur megi koma til móts við bændur til að bregðast við þeim vanda sem fylgir stækkun gæsa- og álftastofna. Kannað hefur verið hvernig nágrannaþjóðir okkar hafa tekist á við aukna sókn þessara fuglategunda í ræktarland. Má segja að nokkuð sé misjafnt milli landa hvernig brugðist hefur verið við þessum vandamálum en þar hafa sum lönd gengið lengra en önnur. Í Svíþjóð hafa þessi mál verið tekin föstum tökum og fjármagni veitt í rannsóknir til að reyna að skilja betur hegðun fugla og hvaða aðferðir nýtast best til að halda þeim frá ræktarlandi. Þá hafa sænskir bændur einnig leitað sér sérfræðiaðstoðar við uppsetningu fælingarbúnaðar, sem er niðurgreiddur af hinu opinbera. Þar stendur til að setja heimildir í lög um greiðslur til bænda vegna skemmda á ræktarlandi og er í auknum mæli horft til ræktunar griðarsvæða fyrir fugla. Að lokum má geta þess að bændur í Svíþjóð geta sótt um undanþágu til veiða á friðuðum fuglum (skyddsjakt). Í reglugerðum er að finna tilslakanir á lagaákvæðum um fuglaveiðar í vissum tilfellum. Það er í öllu falli ljóst, að til að ná tökum á vandamálinu dugar engin ein aðferð heldur er líklegast að beiting margra samhliða aðgerða skili mestum árangri. Eftir að hafa forgangsraðað málum var það ákvörðun Umhverfisstofnunar að fyrsta verk væri að skoða hvort og þá hvernig útfæra megi kerfi í kringum fjárhagslegan stuðning við bændur sem lenda í tjóni. Sú vinna er í fullum gangi og frétta að vænta af því á næsta ári. Árið 2014 hófu bændur að tilkynna tjón á túnum og ökrum í gegnum Bændatorgið og safnaðist þá mikið af dýrmætum upplýsingum. Síðan þá hefur dregið mjög úr skráningum á tjóni af einhverjum orsökum. Í ljósi þeirra vinnu sem nú fer fram vill Umhverfisstofnun hvetja bændur til þess að halda áfram að tilkynna tjón af völdum álfta og gæsa í gegnum Bændatorgið. Umhverfisstofnun vill einnig hvetja bændur til að hafa samband ef þeir eru með ábendingar eða spurningar um þessi málefni. Í næsta blaði munum við segja frá niðurstöðum samantektar á rannsóknum er tengjast ágangi álfta og gæsa sem birtust í Biological Review á síðasta ári. Þar kemur ýmislegt fróðlegt í ljós sem vonandi getur gagnast bændum þegar kemur að skipulagningu ræktarlands. bjarnij@ust.is Bjarni Jónasson.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.