Bændablaðið - 04.10.2018, Page 45

Bændablaðið - 04.10.2018, Page 45
Bændablaðið | Fimmtudagur 4. október 2018 45 Íslenska heitið kjarnepli þekkist einnig fyrir granatepli. Uppruni og saga Granatviður er upprunninn á svæði sem nær frá Íran um Himalajafjöll til Norður-Indlands og hefur frá fornu fari verið ræktaðu í Afganistan, löndum Kákasusfjallanna, í kringum Svartahafið og löndunum í kringum Miðjarðarhafið. Vegna mikils fjölda yrkja af granateplum sem finnast í Afganistan eru miklar líkur á að ræktun þeirra sé þaðan kominn. Í dag eru trén einnig ræktuð í Asíu, Austur-Indíum og víða í Afríku. Granatepli bárust til Suður-Ameríku og suðurhluta Norður-Ameríku með spænskum landnemum árið 1769 og er í dag meðal annars ræktað í þurrari hlutum Kaliforníu og Arizona. Steingerðar aldinleifar af granateplum hafa fundist frá því á bronsöld við uppgröft í borginni Jeríkó í Ísrael og á eyjunni Kýpur og grísku borginni Tiryns þar sem sagt er að Herkúles hafi unnið tólf ofurmannleg verk. Stórt granatepli fannst í gröf Djehuty, einkaþjóns Hatsepsut drottningar í Egyptalandi, sem var uppi á 15. öld fyrir upphaf okkar tímatals og granateplalaga vasi fannst í grafhýsi Tutankhamun faraós sem var grafinn rúmum hundrað árum síðar. Aldinið er nefnt á nafn á steintöflu frá Mesópótamíu sem er talin vera frá þriðju öld fyrir Krist. Talið er víst að granatepli hafi borist með Silkileiðinni til Kína og hugsanlega sjóleiðina með kaupmönnum til Indlands. Í Kína eru granatepli tákn um frjósemi og myndir sem sýndu sprungin granatepli sem fræin láku úr hengd upp á heimilum til að auka líkur á barneignum. Í Kóreu og Japan hefur granatviður lengi verið ræktaður sem bonsai og því ljóst að langt er síðan plantan barst þangað. Trú og goðsagnir Egyptar til forna litu á granatepli sem tákn um metnað og velgengni og kölluðu þau jnhm eða nhm. Samkvæmt Ebers-papýrisnum, sem talin eru vera frá því um 1500 fyrir Krist en afrit af eldri texta, notuðu Egyptar granataldin til að lækna ýmiss konar innanmein og þar á meðal til að losna við iðraorma. Granatepli koma víða við í grískum goðsögum og list. Grikkir töldu granatepli vera aldin hinna dauðu og að plantan hefði sprottið upp af blóði Adonisar hins mannlega og dauðlega elskhuga ástargyðjunnar Afródítu. Goðsögur sem tengjast Persefónu, gyðju undirheimanna, segja oft af aldinum granatepla. Samkvæmt einni goðsögninni rændi Hades, konungur undirheimanna, Persefónu og flutti hana til ríkis síns og samkvæmt hefð dvelja allir sem neyta matar eða drykkjar í undirheimum þar til eilífðar. Í sorg sinni verður Demete, móðir Persefónu og gyðja uppskerunnar, til þess að allur gróður hættir að vaxa með tilheyrandi uppskerubresti og jörðin visnar. Seus, æðsti guð ,sá fram á að jörðin myndi deyja og greip því í taumana og skipaði Hades að skila Persefónu upp á yfirborðið. Uppskerubresturinn sem varð í sorg Demete olli fæðuskorti í undirheimum jafnt sem á yfirborðinu og vegna hans átti Hades ekkert til að gefa Persefónu að borða nema nokkur granateplafræ. Greint er á um fjölda fræjanna og hvort þau voru þrjú eða sjö eða einhvers staðar þar á milli en fjöldi þeirra segir til um hversu marga mánuði Persefóna dvaldi í undirheimum og uppskerubresturinn stóð yfir. Grikkir til forna sögðu að þetta væri ástæðan fyrir því að árið skiptist í uppskerutíma og gróðursnauðan tíma. Í annarri grískri goðsögn segir að nautnabelgurinn og gleðiguðinn Díónesus hafi skapað granatepli úr fagurri vatnadís sem bar kórónu. Þrátt fyrir að granatepli tengist dauðanum í grískri goðafræði var til siðs að fórna aldininu til að tryggja góða uppskeru og í dag er til siðs á Grikklandi að færa fólki granatepli sem gjöf þegar það er heimsótt á nýtt heimili í fyrsta sinn og setja við heimilisaltarið. Granatepli hafa einnig táknrænt gildi við brúðkaup og jarðarfarir í Grikklandi. Kapella við fjallið Sale á Grikklandi er helguð Madonna del Granato, eða Madonnu granateplisins. Talið er að Madonnan á líkneskinu sem heldur á Jesúbarninu í annarri hendi og granatepli í hinni sé seinni tíma kristin eftirmynd grísku gyðjunnar Heru. Auk þess sem til er fjöldi mynda sem sýna Maríu guðsmóður með Jesú og granatepli, til dæmis máluðu bæði Botticelli og Leonardo da Vinci slíkar myndir og á rifið aldinið að tákna pínu og upprisu Krists. Samkvæmt einni goðsögu Gyðinga eru fræin í aldinum granatepla 613, eða jafn mörg og boð og bönn Gamla testamentisins. Gyðingar segja einnig að kórónan á enda granateplisaldins sé upphafleg fyrirmynd allra kóróna í heiminum. Granatepli eru margsinnis nefnd á nafn í Biblíunni, meðal annars í annarri Mósebók 28:33-35 segir um skrúða presta. „Þú skalt gera granatepli úr bláum purpura, rauðum purpura og skarlati hringinn í kring á slóða hennar og gullbjöllur á milli þeirra hringinn í kring, til skiptis gullbjöllu og granatepli hringinn í kring á slóða kápunnar. Aron á að bera hana þegar hann gegnir þjónustu svo að til hans heyrist þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir auglit Drottins og þegar hann gengur út svo að hann deyi ekki.“ Aftur í sömu Mósebók 39: 24-26 segir um skrúða presta. „Þeir gerðu granatepli á slóða kápunnar úr bláum purpura, rauðum purpura og tvinnuðu hárauðu bandi 25 og þeir gerðu bjöllur úr skíru gulli og festu þær á milli granateplanna á slóða kápunnar hringinn í kring, 26 gullbjöllur og granatepli til skiptis hringinn í kring á slóða kápunnar. Þetta var ætlað til þjónustunnar eins og Drottinn hafði boðið Móse.“ Í Ljóðaljóðunum segir karlmaður til ástkonu sinnar „tennur þínar sem ær í hóp, nýbaðaðar, allar tvílembdar, og engin lamblaus, gagnaugun eins og sneitt granatepli undir andlitsblæjunni“ og hún svarar seinna „förum snemma upp í vínekrurnar, sjáum hvort vínviðurinn blómstrar, hvort blóm hans hafa opnast, hvort granatviðurinn stendur í blóma. Þar gef ég þér ást mína.“ Ekki er talið ólíklegt að granatepli sé hinn einni og sanni forboðni ávöxtur í aldingarðinum Eden. Granatepla er getið þrisvar í Kóraninum. Fyrst í Súru 6 – Nautgripir, versi 99 þar sem fjallað eru um gróandann. „Hann sendir niður vatn af himnum, svo að upp ljúkast blómknappar á hverri jurt og lauf sprettur af trjám, og vér ræktum korn á þéttum kólfum, pálmatré hlaðin döðluklösum, og garða með vínberjum, ólífum og granateplum allskonar. Hyggið að, þegar aldin þroskast. Þar mega trúaðir að sönnu sjá teikn.“ Seinna í sömu súru versi 141 segir: „Það er Hann sem gefur görðum grósku, girtum og ógirtum, þar sem vaxa döðlupálmar og korn, ólífur og granatepli alls konar. Neyttu ávaxtanna þegar þeir þroskast, og gefðu fátækum verðugan skerf af þeim í degi uppskerunnar. en sólundaðu þeim ekki, því Allah hefur vanþóknun á þeim eyðslusama.“ Í súru 55 – Hinn Náðugi, versi 69 segir frá görðum Paradísar. „Í hvorum þeirra spretta döðlur og granatepli.“ Samkvæmt búddisma eru þrjú aldin helg, appelsínur, ferskjur og granatepli og sagt er að Búdda hafi vanið kvendjöfulinn Hariti af þeim slæma ávana að borða börn með því að gefa henni granatepli í staðinn. Granatepli í matinn og aðrar nytjar Fræ granateplis eru borðuð hrá og úr aldinhlaupinu er búinn til vinsæll drykkur í Mið-Austurlöndum. Í Írak og víðar í nágrenninu er hefðbundin leið til að pressa safann úr aldininu, sú sama og var gerð og enn er gert með vínber, það er að segja hann er trampaður úr með fótunum. Aldinin eru fyrst brotin og trampararnir búnir sérstökum skófatanaði þar sem skeljar aldinanna eru harðar. Einnig má setja berin og aldinhlaupið í safapressu og búa þannig til granateplasafa. Safinn, sem getur bæði verið sætur og súr, þótti í eina tíð góður við holdsveiki. Fræin og aldinhlaupið er gott sem eftirréttur beint úr aldininu og grenadínsýróp sem margir þekkja var upphaflega búið til úr granateplasafa, sykur og vatni. Í Íran er sósa, sem búin er til úr granateplasafa og valhnetum, höfð með ljósu fuglakjöti og hrísgrjónum. Í Mið-Austurlöndum og löndunum í Himalajafjöllum eru fræin einnig þurrkuð og mulin sem sætt krydd sem kallast anardana eða daru og notað á salat og út á ís. Vegna mikils tanninnihalds og rauða litarins hefur safi granataldina og börkur granatviðar verið notaður til að lita leður og í Japan er soðið skordýraeitur úr berkinum. Ljósgulur viður trjánna er harður og oft notaður í göngustafi. Á hverju ári eru haldnar granateplauppskeruhátíðir í Afganistan og Aserbaídsjan þar sem koma saman ræktendur og kaupendur granatepla og ráða ráðum sínum. Granarepli eru eitt af þjóðartáknum Aserbaídsjan. Í Armeníu var til siðs að afhenda brúður granatepli sem hún kastaði í vegg og áttu fræin í brotunum að tryggja brúðhjónunum barnafjöld og gæfu. Granatepli á Íslandi Heitið granatepli, eða öllu heldur granataepli, er fyrst nefnt á prenti hér á landi í Guðbrandsbiblíu sem var prentuð að Hólum í Hjaltadal 1584 en þar segir um musteri Salómons í 7. kafla Fyrri Konungsbókar: „Og hann gjörði á hvorum hnappi tvær raðir með granataepli rétt um kring á einu bandi sem hnappurinn var búinn með. Og hnapparnir voru líka sem rosa fyrir salnum, fjögra álna stórir. En granataeplin voru tvö hundruð í röðum rétt um kring, ofan og neðan til þess bands sem gekk um kring miðjan hnappinn, á hvorum hnappnum á báðum stólpunum.“ Í Nýjum kvöldvökum frá 1908 er að finna þýðingu á sögunni um Ben Húr eftir Lewis Wallace og þar segir í textanum þegar menn setjast til borðs: „Svo tók hann upp vín í litlum leðurpoka, þurrkað sauðaket, sýrlenzk granatepli, arabískar döðlur, ost og brauð.“ Það er ekki fyrr en í byrjun þessarar aldar að auglýsingar um granatepli til sölu fara að sjást hér á landi. Verslunin Hagkaup reið á vaðið með innflutning á þeim og fleiri ávöxtum sem voru fáséðir hér á landi á þeim tíma. Fjöldi trúarlegra mynda sýna Maríu guðmóður með Jesú og granatepli. Á mynd ítalska endurreisnarmálarans Botticelli frá 1487 táknar rifna aldinið pínu og upprisu Krists. Þrátt fyrir innleiðingu tækninnar fer nær öll uppskera granatepla fram með höndum. Granarepli eru eitt af þjóðartáknum Aserbaídsjan.

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.