Bændablaðið - 09.05.2018, Qupperneq 41

Bændablaðið - 09.05.2018, Qupperneq 41
41Bændablaðið | Miðvikudagur 9. maí 2018 Hvert er ástand gróður- og jarðvegsauðlindanna? Þekking á ástandi gróður- og jarðvegsauðlindanna og skilningur á því hvaða þættir hafa áhrif á ástandið er forsenda fyrir ábyrgri nýtingu. Nauðsynlegt er að fylgjast með ástandinu svo hægt sé að komast að því hvort breytingar eigi sér stað, ákvarða hvaða þættir það eru sem ráða þar mestu og grípa til viðeigandi aðgerða ef þörf krefur. Að frumkvæði Landssamtaka sauðfjárbænda var kveðið á um það í búvörusamningum sem undirritaðir voru 2016, að 300 milljónir króna yrðu lagðar í sérstakt 10 ára verkefni til að vakta og meta ástand gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Gengið var frá samningi um verkefnið í mars 2017 á milli Landssamtaka sauðfjárbænda, Landgræðslu ríkisins, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands. Mat á ástandi landsins tilbúið í lok árs Landgræðslu ríkisins var falin yfirumsjón með verkefninu en jafnframt skipaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fimm manns í faghóp, undir formennsku fulltrúa Landssamtaka sauðfjárbænda. Verkefnið fékk nafnið GróLind og er markmið þess að gera reglulega heildarmat á ástandi gróður- og jarðvegsauðlinda landsins og þróa sjálfbærnivísa fyrir nýtingu auðlindanna. Ýmsar upplýsingar sem lúta að þessu eru til og er áætlað að í lok árs 2018 verði tilbúið mat á ástandi landsins á grófum kvarða byggt á þeim gögnum. Skipulögð vöktun á ástandi auðlindanna hefst árið 2019, en verið er að þróa aðferðafræði þeirrar vöktunar. Samstarf er lykillinn Lykillinn að verkefninu GróLind er samstarf. Margir aðilar ráða nú þegar yfir upplýsingum um ástand lands og eru að safna frekari upplýsingum á því sviði. Mikilvægt er að þessar upplýsingar séu samþættar til að gera verkefnið hagkvæmara og koma í veg fyrir óþarfa skörun. Þá er mikið lagt upp úr góðu samstarfi við alla hagsmunaaðila, m.a. landnotendur, fjallskilanefndir, sveitarfélög, svo og við vísindasamfélagið og opinberar stofnanir. Þannig er tryggt að verkefnið nýtist sem best til að bæta landnotkun; það sé byggt á traustum vísindalegum grunni og unnið á skilvirkan hátt. Vöktun á ástandi auðlindanna Til að þekkja ástand auðlindanna og vita hvort þær eru í fram- eða afturför (hnignun), er nauðsynlegt að meta ástand þeirra reglulega og á skipulagðan hátt. Einnig þarf að leita skilnings á því hvernig mismunandi þættir, t.d. nýtingar- og umhverfisþættir hafa áhrif á ástandið. Í verkefninu verður ástand vistkerfanna vaktað með notkun fjarkönnunargagna frá drónum og gervitunglum, í neti fastra mælireita og með einföldum punktamælingum. Leitað verður til bænda og annarra landnotenda um að gera einfalt ástandsmat. Skipulag vöktunarinnar verður unnið í samstarfi við aðrar stofn- anir sem vakta náttúru Íslands og niðurstöður samræmdar og samnýttar þar sem það á við. Áhersla á afréttir og úthaga Verkefnið mun ná til alls landsins en í upphafi verður lögð áhersla á að meta ástand afrétta og úthaga. Eitt af fyrstu verkefnum GróLindar er að kortleggja mörk þeirra til að hægt sé að leggja betra mat á landnýtinguna. Nú þegar er byrjað að afla upplýsinga hjá m.a. bændum og fjallskilanefndum um hvar sauðfé gengur og hvar eru stór óbeitt svæði. Þessum upplýsingum hefur ekki áður verið safnað á markvissan hátt. Gert er ráð fyrir að kortlagningunni ljúki vorið 2019. Er landnýting sjálfbær? Við þróun einfaldra vísa til að meta sjálfbærni landnýtingar er nauðsynlegt að hafa skilning á áhrifum mismunandi landnýtingar á uppbyggingu og virkni vistkerfa. Í verkefninu er stefnt að því að auka þennan skilning með því að a) tengja saman niðurstöður vöktunar og landnýtingar b) safna saman þeirri þekkingu sem þegar er til staðar og c) auka þekkingu með rannsóknum. Þegar eru hafnar rannsóknir til að m.a. skoða beitaratferli sauðfjár í sumarhögum og fylgjast með því hvort og þá hvernig gróður þróast með mismunandi hætti á beittu og friðuðu land. Hvaða vinnst með GróLind? Þau gögn sem safnast í GróLind verða opin og öllum aðgengileg. Niðurstöður verkefnisins munu gefa yfirlit um ástand auðlindanna og breytingar á þeim. Jafnframt verða þróaðir mælikvarðar (sjálfbærnivísar) sem nýta má til að leiðbeina um landnotkun. Þannig sé tryggt að sú mikilvæga auðlind sem felst í gróðri og jarðvegi rýrni ekki og verði áfram uppspretta margvíslegra gæða fyrir komandi kynslóðir. Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á grolind.is. F.h. starfshóps Landgræðslu ríkisins um GróLind, Bryndís Marteinsdóttir (verkefnisstjóri) og Sigþrúður Jónsdóttir. AUÐLINDIR&UMHVERFISMÁL Að frumkvæði Landssamtaka sauðfjárbænda var kveðið á um það í búvörusamningum sem undirritaðir voru 2016, að 300 milljónir króna yrðu lagðar í sérstakt 10 ára verkefni til að vakta og meta ástand gróður- og jarðvegsauðlinda landsins. Mynd / ÁÞ LESENDABÁS Landbúnaðurinn skotinn úr hendi stjórnarráðsins 2007 Nokkrir áhrifamenn hafa verið að velta fyrir sér stöðu og áhrifum landbúnaðarins og hversu öll umgjörðin bæði í stjórnarráðinu og félagskerfi bænda virðist hafa veikst á síðustu árum. Höfum samt eitt á hreinu að núverandi forystumenn bænda og nýr landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, eru ekki viðriðnir þessar miklu kerfisbreytingar sem ég tel að hafi verið skaðlegar fyrir málefni bænda og landbúnaðarins. Ég tel eitt stærsta verkefnið meðal forystumanna bænda nú vera að leita leiða til að laga þessa stöðu í samráði við stjórnmála- menn, þar eru ráðherrarnir Kristján Þór Júlíusson, Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir lykilmenn ásamt alþingismönnum úr öllum flokkum. Landbúnaðurinn smátt og smátt settur í rassvasabókhald Ég tel að landbúnaðurinn hafi smátt og smátt verið settur í rassvasabókhald með stjórnarráðsbreytingunum miklu árið 2007. Þá tók við völdum ríkisstjórn Geirs H Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur en þá var tekið að hræra einhliða í stjórnarráðinu með óljósum tilgangi. Þá var ákveðið meðal annars að setja í eitt ráðuneyti landbúnað og sjávarútveg. Sigurgeir Þorgeirsson, þá framkvæmdastjóri Bænda- samtakanna, var gerður að ráðu- neytisstjóra hins nýja ráðuneytis, vænn og öflugur maður landbúnaðarins. Hann átti að vera svona smá brjóstsykur í munninn á bændum sem sýndu góðan vilja. Síðan komu kerfisbreytingar frá ESB sem kröfðust breytinga á félagskerfi bænda, með afleitum afleiðingum. Landbúnaðurinn hornreka í ráðuneytinu Ég og fleiri vöruðum við þessari stefnumörkun á Alþingi 2007 og gagnrýndum þessa breytingu hart á þeirri forsendu að þessir mikilvægu atvinnuvegir ættu ekki vel saman í einu ráðuneyti, afleiðingin yrði sú að landbúnaðurinn yrði hornreka. Sjávarútvegurinn, með þeim stærstu sinnar tegundar í veröldinni en hinn, þ.e. landbúnaðurinn, smár í sniðum. Sjávarútvegurinn og kvótakerfi hans er umdeilt og alltaf uppi harðvítugar deilur um þennan mikilvæga atvinnuveg. Landbúnaður á Íslandi er mjög einstakur og var í mjög góðri stöðu þá meðal þjóðarinnar, og þjóðin styður enn sinn góða landbúnað. Landbúnaðurinn er styrktur hér sem annars staðar en sjávarútvegurinn sterkur hér án allra styrkja, en nýtur styrkja víðast í Evrópu. Landbúnaðurinn hefði farið betur með t.d. samgöngu- og byggðamálum eins og í tíð landbúnaðarráðherranna Ingólfs Jónssonar, Halldórs E. Sigurðssonar, Steingríms J. Sigfússonar og Halldórs Blöndals. Að auki voru hrein landbúnaðarverkefni færð annað eins og Skógrækt og Landgræðsla undir umhverfisráðuneyti, en hvort tveggja tilheyrir landbúnaðarmálum um víða veröld. L a n d b ú n a ð a r h á s k ó l a r n i r á Hvanneyri og Hólum voru settir í mennta málaráðuneytið, Rannsóknar stofnun land búnaðar- ins (RALA) var sömuleiðis færð frá atvinnu veginum, vísindin og rannsóknirnar, sem eru grunnur framfara í landbúnaði. Búnaðarstofan sett undir MAST, hvers vegna? Ekki batnaði staða landbúnaðarins og bænda þegar nýja Búnaðarstofan eða stuðningskerfi landbúnaðarins, fjöreggið, var sett undir Matvælastofnun, eftirlitsstofnun ríkisins, þegjandi og hljóðalaust. Nú heyra stuðningsgreiðslur bænda og hagtölusöfnun landbúnaðarins, og svo margt, margt fleira undir þessa stofnun, sem er komin langt út fyrir sitt fagsvið. Búnaðarstofan hefði átt að vera sjálfstæð stjórnsýslustofnun og heyra beint undir ráðuneyti landbúnaðarmála. Mikill vafi er á því hvort þetta fyrirkomulag stenst góða stjórnsýsluhætti þar sem illa fer saman að hafa eftirlit með bændum og á sama tíma greiða þeim stuðningsgreiðslur. Að mínu áliti er mjög brýnt að breyta þessu fyrirkomulagi án tafar því með þessu eru hagsmunir bænda fyrir borð bornir. Svo má ekki gleyma því að ríkisstjórn Jóhönnu S igurðardó t tu r og Steingríms J. Sigfússonar steig nýtt risaskref og bjó til atvinnuvegaráðuneytið og bætti við málaflokkum og hengdi svo einn ráðuneytisstjóra yfir tvo ráðherra og nokkur ráðuneyti, það stærsta í sögu stjórnarráðsins. Það er skrýtin stjórnsýsla, en sýnir kannski best hvernig er komið fyrir stjórnsýslu í landbúnaði, þegar best menntaði embættismaðurinn í þessu risavaxna ráðuneyti, Sigurgeir Þorgeirsson, doktor í búvísindum og sérfræðingur í sauðfjárrækt, var færður úr landbúnaðarmálum og settur yfir feitan makríl sjávarútvegsmegin í ráðuneytinu. 90% allra matvæla koma frá bændum Það sjá allir að þessar miklu breytingar gera það að verkum að landbúnaðurinn fær minni og minni athygli ráðherra síns og stjórnvalda og starfsfólks í stjórnsýslunni. Faglærðu starfsfólki sem sinnir landbúnaðinum hefur fækkar með markvissum hætti og rödd landbúnaðarins innan stjórnarráðsins verður sífellt lágværari – og hverfur að lokum. Auðvitað mátti breyta einhverju og nýir tímar kalla á breytingar en þessi umbylting öll var óvirðing við einn aðal höfuðatvinnuveg landsins; landbúnaðinn, og „Matvælalandið Ísland“. Munum að 90% allra matvæla koma frá bændum og landbúnaðarráðuneyti er aðalsmerki matvælaþjóðar. Ég kynntist sterkri hlið landbúnaðarmála í Noregi á minni tíð sem landbúnaðarráðherra, þar var Per Harald ráðuneytisstjóri. Hann hafði lifað 18 landbúnaðarráðherra og var einstakur embættismaður sem kunni sitt fag. Ég tel að gott væri fyrir okkur Íslendinga að kynna okkur stöðu landbúnaðarins í Noregi og reyndar víðar. Málefni landbúnaðarins innan stjórnarráðsins eru ekki í brennidepli lengur og félagskerfi bænda er alltof veikt. Bændablaðið er vinsælt og mikilvægt sem sverð og skjöldur sveitanna. Bændaforystan og öflugir félagsmálamenn, bæði frá bændum og stjórnmálamönnum, eiga að meta þessa stöðu upp á nýtt, gera það án allra ásakana horfa beint fram og draga nýjar línur í sandinn, með framsækinn og öflugan landbúnað á Íslandi að leiðarljósi. Við eigum frábæran landbúnað og eigum að framleiða sem mest af okkar matvælum í okkar landi. Guðni Ágústsson fyrrverandi lanbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.