Fréttablaðið - 09.05.2020, Page 28

Fréttablaðið - 09.05.2020, Page 28
í sár hans og honum hrakaði ört. „Hann var kominn á gjörgæslu þegar við mættum á spítalann.“ Fyrir tilviljun var hann staðsettur aðeins örfáa metra frá deildinni þar sem þau áttu bókaða tólf vikna skoðun. „Áður en við vissum hver staðan var, sáum við fyrir okkur að geta mögulega skroppið í sónarinn þarna á milli.“ Ekkert varð þó úr því. „Þegar við komum var okkur sagt að nú væri kveðjustund.“ Þessum orðum fylgdi áfall. „Við höfðum hitt hann aðeins tveimur dögum fyrr í góðu ásigkomulagi. Allt í einu fór hann frá því að vera fullfrískur í að vera við dauðans dyr.“ Horfðu á lífið fjara út Dagurinn fór því í að kveðja Jóhann frekar en að heilsa upp á fóstrið. „Ég sagði honum þá frá barninu, maður vill venjulega ekki segja neitt fyrr en að loknum sónarnum sem við áttum að fara í þennan dag, svo hann vissi ekki tækni- lega séð af óléttunni.“ Ekki sé víst að hann hafi heyrt leyndarmálið. „Mér líður samt þannig, eins og ég hafi séð hann brosa þegar ég sagði honum að hann væri að verða afi,“ segir Blær hrærð. „Við horfðum á þegar slökkt var á öllum tækjunum sem héldu í honum lífinu og sáum hvernig lífið fjaraði út.“ Tilfinningarnar sem fylgdu voru sorglegar, ógn- vekjandi en líka fallegar. Því fylgdi óneitanlega þakklæti að hann fengi að kveðja eftir að hafa verið edrú í meira en tvo mánuði, og hafandi endurnýjað tengslin við börn sín.“ Auðveldara að syrgja og elska „Að einhverju leyti get ég ekki ímyndað mér betri dauðdaga fyrir pabba minn. Það hefði verið svo ömurlegt ef hann hefði sleppt því að mæta í meðferðina, dottið aftur í það og dáið þessum langa dauð- daga.“ Kveðjustundin var því bæði sorg- leg og kærkomin. „Allir sem eiga for- eldra í þessari stöðu skilja að maður er alltaf að syrgja þau þrátt fyrir að þau séu á lífi en það er gott að geta syrgt hann núna og auðveldara að elska hann fyrir það sem hann var.“ Þessir síðustu mánuðir í líf i Jóhanns náðu að yfirvinna allt sem á undan var gengið og minningin um hann frá þessum tíma er ein sú skærasta sem Blær á. „Ég fékk þessa fullkomnu kveðjustund og mun alltaf varðveita tímann sem leiddi að henni.“ Þegar faðir hennar yfirgaf þetta líf fann Blær hvernig andi hans sveif í loftinu. „Ég man að ég hugs- aði: Ekki fara með sálina hingað inn í magann á mér, en skildu samt smá hluta af þér eftir.“ Lék sjálfa sig óvænt á sviði Röð tilviljana virðist hafa elt Blæ á meðgöngunni en hún var á þessum tíma að æfa fyrir leiksýninguna Helgi Þór rofnar, sem sýnd var í Borgarleikhúsinu. Sýningin varð á svipstundu spegilmynd af lífi henn- ar. „Öll þessi sýning er um mátt spá- dóma og hvernig spádómur föður aðalpersónunnar rætist að lokum.“ Blær fór með hlutverk ungrar konu sem var barnshafandi og gerir upp samband sitt við föður sinn, sem var ógöngumaður, eftir að hann deyr. „Ég fékk hlutverkið árinu áður en þegar við byrjuðum að æfa verð ég ólétt og missi pabba minn. Þegar ég mæti síðan einn dag- inn í vinnuna fatta ég að ég er bara að leika lífið mitt.“ Í fyrstu senu leiksýningarinnar heimsækir persóna Blævar föður sinn í líkhúsið. „Persónan horfir á líkið á líkbörum þegar ég er sjálf nýbúin að horfa á pabba minn á líkbörum.“ Eftir því sem tilviljan- irnar fóru að hrannast upp komst Blær ekki hjá því að líta á leiksýn- inguna sem einhvers konar tákn. Hún fór jafnvel að ímynda sér að tilviljanirnar væru ekki tilviljanir heldur skilaboð um að æðra afl hafi spunnið þessa örlagastrengi. Sameiginleg veisla Eftir andlátið var Blævi úthlutaður nýr tími í sónar og lenti þar með tuttugu vikna skoðunin fyrir tilvilj- un á afmælisdegi föður hennar. „Við skipulögðum kynjaveislu sama dag og ákváðum að við fengjum ekkert að vita sjálf.“ Starfsmanni Partý- búðarinnar var rétt umslag með kyni barnsins og síðan var útveguð blaðra sem myndi uppljóstra sann- leikanum þegar hún yrði sprengd seinna um kvöldið. Nærvera Jóhanns var alltumlykj- andi í veislunni og vakti mynd hans yfir gestum ásamt innrammaðri teikningu af Blævi og syni hennar. „Að einhverju leyti varð þetta hans veisla líka, honum tókst að troða sér inn í þetta á afmælisdaginn sinn og það er mjög fyndið hvað hann var lítill partur af lífi mínu en stór hluti af þessari meðgöngu.“ Gestir fengu tækifæri til að giska á kynið og var greinilegt að f lestir þeirra trúðu spádómi Jóhanns og veðjuðu á að barnið yrði drengur. Verðandi foreldrarnir voru ekki sannfærðir og bjuggust frekar við stúlku. „Ég veit ekki hvaða mótþrói þetta var í okkur en svo var þetta auðvitað strákur.“ Vinir skötuhjúanna og ættingjar eru sannfærðir um að drengurinn verði nefndur í höfuðið á Jóhanni en sú nafngift myndi einnig ríma við nafngift Blævar. „Það voru svipaðar aðstæður uppi á teningnum sem urðu til þess að ég var skírð Þuríður Blær.“ Sagan endurtekur sig Amma Blævar, Þuríður, lést stuttu eftir að Blær fæddist og leit Jóhann á það sem tákn um að dóttir hans skyldi bera sama nafn. Móðir Blævar hafði hins vegar gert upp hug sinn áður en hún vissi að hún bæri barn undir belti. Hún var að lesa Brekkukotsannál þegar hún rak augun í nafnið Blær og ákvað þá þegar að ef hún eignaðist stúlku myndi hún hljóta nafnið Blær. „Hún vissi ekki þá að hún var ólétt af mér, orðin þrjátíu og tveggja ára og löngu búin að gefa upp vonina.“ Faðir Blævar var ekki jafn styrkur í trúnni um að Blær væri rétt nafn fyrir dóttur sína og þótti það of harðgert nafn fyrir litla stelpu. „Hann bað mömmu því um að bíða í viku og hugsa málið.“ Í þeirri viku setur mannanafnanefnd lög um að ekki megi heita karlkynsorði nema það sé sterk hefð fyrir því. Þrátt fyrir það var ákveðið að dóttirin hlyti nafnið Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Það atvikaðist þó þannig að starfsmaður Þjóðskrár tók það upp á sína arma að fjarlægja millinafnið þar sem enn var ekki búið að sam- þykkja það og nafnið hafði verið lengi í biðstöðu. „Konunni fannst alveg ómögulegt að ég héti ekki neitt í marga mánuði og þess vegna fékk ég ekki löglega að heita Blær fyrr en lögunum var breytt fyrir nokkrum árum.“ Sjálf fullyrðir Blær að hún muni velja nafn fyrir son sinn út frá þeim manni sem hann hefur að geyma. „Mamma giskaði á að hann myndi heita Snjór svo ef ég fylgi óskum annarra þá gæti hann heitið Jóhann Snjór og þar af leiðandi verið kall- aður John Snow á ensku,” segir Blær hlæjandi. Enginn veit þó hvað tíminn ber í skauti sér en Blær telur að bless- unarlega vofi ekki f leiri spádómar yfir líf i hennar að svo stöddu. Hringnum verði þó ekki endanlega lokað fyrr en drengurinn fæðist. „Þá er þessi saga kláruð finnst mér. Ég er enn þá inni í henni núna en við fæðinguna byrjar nýr og spennandi kafli.“ HANN VAR BARA EINN AF ÞESSUM ÚTIGANGS- MÖNNUM Á AUSTURVELLI OG ÞEGAR HANN HEILSAÐI MÉR KYNNTI ÉG HANN ALLTAF FYRIR VINUM MÍNUM SEM PABBA MINN. Blær segir samband þeirra feðgina aldrei hafa verið auðvelt en það hafi þó breyst á lokametrum lífs hans þegar hann hafi þurft að vera edrú. Vinir og ættingjar skötuhjúanna eru sannfærðir um að drengurinn sem Blær ber undir belti verði nefndur í höfuð á Jóhanni en Blær fullyrðir að ekkert sé ákveðið í þeim efnum. Framhald af síðu 26  9 . M A Í 2 0 2 0 L A U G A R D A G U R28 H E L G I N ∙ F R É T T A B L A Ð I Ð

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.