Dagblaðið Vísir - DV - 10.07.2020, Blaðsíða 14
14 FRÉTTIR 10. JÚLÍ 2020 DV
áður en hann dó bað hann um
að sendiráði Íslands í London
yrði gert viðvart um að hann
væri að kveðja en hinsta
kveðjan komst því miður
ekki til skila. Hún er skrifuð í
sjúkraskýrslur sjúkrahússins
og ljóst að síðasta hugsun hans
var hjá börnunum sem hann
yfirgaf fyrir Bakkus og líf á
götunni. Á sínum tíma fannst
mér ég sjá inn í það hyldýpi
sem tók pabba minn. Ég var
ekki kominn þangað en þetta
er sjúkdómur sem endar eins
hjá öllum. Menn eru bara mis-
jafnlega langt komnir. Pabbi
komst aldrei út úr þessu.
Áfengið bara greip hann og
heltók. Þetta er harmleikur,
eins og svo margir aðrir sem
áfengi og vímuefni hafa kallað
yfir fólk.”
Afi lést í baráttu
fyrir land sitt
Róbert var á slóðum föður
síns síðasta haust þegar hann
var að vinna þátt af Úti um
Marglytturnar, hóp íslenskra
sundkvenna sem synti yfir
Ermarsundið. „Það urðu
ákveðin straumhvörf hjá mér
í þeirri ferð. Á landsbyggð-
inni í Bretlandi blasir svo við
hversu útbreiddur áfengis- og
vímuefnavandinn er. Þarna
var hópur fólks sem enginn
var að hugsa um, hópur af
langt leiddum sjúklingum. Á
sama tíma var Brexit í gangi
og ég upplifði svo sterkt al-
gjöran aðskilnað stjórnmál-
anna og almennings. Mér
finnst stjórnmálaflokkarnir
þarna úti, og kosningakerfið,
algjörlega hafa yfirgefið fólk-
ið í landinu. Það var grátlegt
að horfa upp á þennan mikla
vanda á götunum. Óháð hægri
eða vinstri pólitík þá er þarna
gjá milli þings og þjóðar. Þetta
leiðir hugann að því að ef það
er ekki gott fólk í pólitík þá
gerast slæmir hlutir.“
Bretlandsferðin vakti upp
enn fleiri minningar hjá Ró-
berti. „Ég eyddi tíu dögum í
Dover þar sem ég horfði yfir
Ermarsundið í átt til Frakk-
lands. Afi minn, James Mars-
hall, dó á Ermarsundi árið
1943. Hann var á skipinu HMS
Jaguar sem var eitt þeirra
sem sótti innlyksa hermenn
til Dunkirk,” segir hann og
rifjar í leiðinni upp að gerð
var samnefnd kvikmynd um
þessa miklu baráttu á strönd-
um Frakklands í seinni heims-
styrjöldinni. „Skip afa míns
komst laskað við illan leik til
Dover. Einu eða tveimur árum
síðar dó hann í sprengjuárás á
Ermarsundi. Þetta var stuttu
áður en pabbi fæddist. Það
var auðvitað hræðilegt fyrir
ömmu að missa afa á þessum
viðkvæma tíma og föður-
missirinn litaði alla barn-
æsku pabba, allt hans líf. Mér
finnst þessir atburðir svo ná-
lægt okkur, að afi minn hafi
tekið þátt í þessu stríði og að
fólk af hans kynslóð hafi tekið
þátt í bardaganum vitandi
að það myndi mögulega láta
lífið. Ég upplifði svo sterkt
að þetta var kynslóð sem tók
slaginn og barðist gegn vondu
fólki. Þetta ýtti við mér og ég
komst að þeirri niðurstöðu
að það er ekki hægt að fara í
gegnum lífið með því að leika
sér bara. Maður þarf að leggja
sitt af mörkum og skila sínu,
það getur verið gaman og það
getur verið fjárans fórn.” Það
var þarna sem Róbert fann að
hann vildi skipta um gír og
leggja sitt af mörkum áfram.
„Það var samt ekkert plan hjá
mér að fara að vinna fyrir rík-
isstjórnina en þetta gerði það
að verkum að þegar Katrín
bauð mér þetta starf þá vissi
ég strax að ég vildi reyna mig
við það.“
Forréttindi að vera
þar sem allt gerist
Spurður hvað hafi komið
honum mest á óvart í starfi
upplýsingafulltrúa ríkis-
stjórnarinnar segir hann:
„Það hefur komið á óvart
hvað forsætisráðuneytið er
skemmtilegur vinnustaður.
Þarna vinnur gríðarlegur
fjöldi af hæfileikaríku fólki.
Ég vinn náið með Kötu en
líka með hennar aðstoðarfólki,
Lísu Kristjánsdóttur og Berg-
þóru Benediktsdóttur. Lára
Björg Björnsdóttir og Unnur
Brá Kolbeinsdóttir eru líka
aðstoðarmenn ríkisstjórnar-
innar eins og ég,” segir hann
en Lára er fyrrverandi upp-
lýsingafulltrúi ríkisstjórnar-
innar og núverandi aðstoðar-
maður á sviði jafnréttismála,
en Unnur Brá er fyrrverandi
þingmaður Sjálfstæðisflokks
og núverandi aðstoðarmaður
ríkisstjórnarinnar við endur-
skoðun stjórnarskrárinnar.
Þarna eru líka gamlir kunn-
ingjar og vinir eins og Bryn-
dís Hlöðversdóttir og Stein-
unn Valdís Óskarsdóttir.
„Þetta er skemmtilegt teymi
og verkefnin eru gríðarlega
fjölbreytt og skemmtileg. Mér
finnst líka mjög skemmtilegt
að upplifa Katrínu sem for-
sætisráðherra og sjá hvað
hún gerir þetta vel. Það eru
bara forréttindi að fá að vera
í herberginu þar sem hlutirnir
gerast. Þetta er líka allt annað
en að vera á þingi. Ég vissi
alveg hver væri munurinn að
vinna hjá löggjafarvaldinu
og hjá framkvæmdavaldinu,”
segir hann og viðurkennir að
það sé mun skemmtilegra að
vera þar sem ákvarðanir eru
teknar.
Borðuðu ost í beinni
Við komumst ekki hjá því
að ræða uppákomu þegar
Katrín átti að vera í beinni
útsendingu í breska morgun-
þættinum This Morning
Live um miðjan júní en ekki
vildi betur til en þáttastjórn-
endur reiknuðu með Katrínu
klukkan 9 að íslenskum tíma
en Róbert gerði ráð fyrir
viðtalinu klukkan 11. „Þetta
auðvitað skrifast á mig, en
samt ekki alveg. Þegar ég
var fréttamaður og talaði
við Hong Kong þá talaði ég
við fólk þar á þeirra tíma.
Þetta viðtal hafði átt sér sex
daga aðdraganda og ég hafði
nokkrum sinnum sent póst
og spurt hvort hún ætti ekki
örugglega að vera klukkan 11
að íslenskum tíma, en ekki
fengið sérstaka staðfestingu.
Þáttastjórnendur eru svo í
beinni útsendingu klukkan 9
að staðartíma að spyrja um
Katrínu en hún er þá bara á
fundi og ég sit sveittur á efri
vörinni á skrifstofunni. Þau
sátu uppi með þetta klúður og
þurftu að borða ost í beinni
útsendingu í 10 mínútur en
þetta skipti svo sem litlu fyrir
okkur. Ég tók hins vegar al-
farið á mig sökina, bæði þvi
ég hefði getað gengið harðar
á eftir staðfestingu en líka
því mér þótti þetta fyndið,”
segir hann og vísar til þess
að hann hafi áður komist
í klandur út af klukkunni.
Hann sagði starfi sínu lausu
sem fréttamaður á Stöð 2 árið
2005 eftir að hafa sagt rangt
frá klukkan hvað það lá fyrir
að bandarísk stjórnvöld hefðu
vitað af stuðningi Íslendinga
vegna Íraksstríðsins og ritaði
Halldór Ásgrímsson, þáver-
andi forsætisráðherra, harð-
ort bréf frá sér vegna þessa.
Nokkrum árum síðar staðfesti
Morgunblaðið að frétt Róberts
var efnislega rétt; ákvörð-
unin um stuðning Íslands við
innrásina í Írak var tekin af
Davíð og Halldóri einum.
Spila Bowie með trúarofsa
En lífið er ekki bara pólitík
því Róbert er líka í hljóm-
sveit. „Þegar ég hætti á
þingi tók ég ákvörðun um
að stofna hljómsveit. Ég og
Þór Freysson, gamall félagi
minn af Stöð 2, stofnuðum
þá hljómsveitina Lizt sem
hefur spilað síðustu fjögur
ár. Ég er söngvari og gítar-
leikari. Við höfum spilað lög
Bowie af miklum trúarofsa.
Líklega höfum við haldið um
40 Bowie-tónleika þar sem
við flytjum um 30 lög hans.
Ég stend þá á sviðinu, spila
á gítar og syng. Það er eitt-
hvað í röddinni minni sem er
á svipuðum slóðum og Bowie.
Stór orð en ég tel mig geta
staðið undir þeim.” Hann seg-
ir tónleika sveitarinnar ekki
mikið auglýsta en þeir hafi þó
spilað til að mynda á Græna
hattinum á Akureyri, Barion
í Mosfellsbæ og Gamla bíói í
Reykjavík. Fyrir áhugasama
er hljómsveitin Lizt með eigin
Facebooksíðu og þangað fór
blaðamaður rakleiðis eftir
viðtalið til að sannreyna
hvort rödd Róberts líktist í
raun Bowie. Merkilegt nokk
þá eru þarna mikil líkindi.
En endilega sannreynið þetta
sjálf. n
Róbert er í hljómsveitinni Lizt þar sem hann spilar á gítar og syngur. MYND/SIGTRYGGUR ARI
Síðasta hugsun hans var hjá
börnunum sem hann yfirgaf
fyrir Bakkus og líf á götunni.