Morgunblaðið - 25.01.2020, Síða 25
25
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 25. JANÚAR 2020
Veggjalist Vissara er fyrir vegfarendur í miðborginni að klæða sig vel í kuldanum. Þetta par geystist framhjá veggjalistaverki á Skólavörðustíg í vikunni og veitti litadýrðinni litla athygli.
Eggert
Stangveiðimenn og
aðrir sem tengjast
þeim, innlendir sem er-
lendir, fara mikinn um
þessar mundir í um-
ræðunni um fiskeldi á
Íslandi. Því miður er
það svo að þegar
mönnum er heitt í
hamsi virðist sem reið-
in blindi þeim sýn. Því
er gott öðru hvoru að
stinga niður penna og reyna að
víkka sjóndeildarhringinn.
Kýr, hreindýr, lax og gagnaver
Ungur kúabóndi sem kaupir jörð
yrkir jörðina til að fóðra kýrnar og
framleiða matvæli sem framfleyta
honum og fjölskyldunni. Fyrir utan
jarðnæðið er bóndinn ekki að nýta
takmarkaða náttúruauðlind landsins
– hann kemur með kýrnar á jörðina
og elur þær og nýtir. Annað á við um
þá sem nýta villta hreindýrastofn-
inn. Þar er takmarkaður aðgangur í
takmarkaða auðlind sem þarf að
nýta með ábyrgum og sjálfbærum
hætti svo auðlindin þurrkist ekki út
heldur nýtist komandi kynslóðum.
Sama á við um hinn hefðbundna
sjávarútveg sem nýtir auðlindir
sjávar á ábyrgan og
sjálfbæran hátt sam-
kvæmt vísindalegri
ráðgjöf.
Laxabóndinn er und-
ir sama hatt settur og
kúabóndinn. Hann hef-
ur „jarðnæði“ í firði til
umráða, fóðrar sína
fiska og skapar þannig
tekjur og afkomu.
Hann framleiðir nær-
ingarrík dýraprótín
með einu minnsta kol-
efnisspori sem þekkist
í matvælaframleiðslu. Laxabóndinn
er ekki að nýta takmarkaða auðlind
nema þá það svæði sem afnotaréttur
nær til. Þeir sem kaupa sér hins
vegar laxveiðijörð, jafnvel allan dal-
inn, eru að eignast takmarkaða auð-
lind sem er villtur laxastofn árinnar
sem að sama skapi þarf að umgang-
ast á ábyrgan og sjálfbæran hátt.
Erlent gagnaversfyrirtæki sem
setur upp starfsemi á Íslandi nýtir
til þess orku framleidda á
umhverfisvænan hátt. Sú orka er að
einhverju leyti takmörkuð og ekki
nýtt af öðrum á meðan. Stjórnvöld
og sveitarfélög hafa leitast við að fá
slíka erlenda fjárfestingu enda skap-
ar hún bæði störf og verðmæti. Ég
tel afar ólíklegt að sveitarstjórn-
arfólk, eða aðrir sem töluðu fyrir
slíkri uppbyggingu í hinum dreifðu
byggðum landsins, væri vænt um að
ganga annarlegra erinda gagnavers-
fyrirtækjanna, vonast eftir góðri
stöðu eða væru með einhverjum
hætti að kyssa hring viðkomandi
atvinnugreinar.
Frelsi fyrir suma en ekki aðra?
Fiskeldi er á heimsvísu vaxandi
atvinnugrein og hefur nú þegar
skapað á Íslandi hundruð starfa og
útflutningsverðmæti upp á tugi
milljarða og aukið byggðafestu í
mörgum byggðarlögum á Vest-
fjörðum og Austfjörðum. Stang-
veiðimenn og talsmenn þeirra virð-
ast stundum sjá ofsjónum yfir þeim
vexti sem orðið hefur í greininni og
þeir óttast þessa þróun. Ég held að
sá ótti sé að mestu óþarfur.
Eignarhaldið í greininni er mörg-
um þeirra hugleikið og þykir þeim
slæmt að fjárfestar skuli vera
norskir. Verður það að játast að það
lítur frekar kómískt út að sjá helstu
kyndilbera frjáls markaðar tala fyrir
einangrunarhyggju, mótstöðu við
erlendar fjárfestingar og atvinnu-
frelsi. Á sama tíma eru þeir hinir
sömu að selja (undanþegnir virðis-
aukaskatti!) veiðileyfi til ríkra út-
lendinga í íslenskar laxveiðiár,
margar hverjar í eigu erlendra aðila.
Aðrir íslenskir eigendur laxveiðiáa
hafa sumir hverjir eignast sinn auð
með starfsemi erlendis og notað til
að kaupa upp heilu og hálfu árnar
fyrir sig og sína. Því hlýtur manni að
vera spurn hvort hinn frjálsi mark-
aður sé bara ætlaður sumum en ekki
öðrum? Því neita ég að trúa upp á
þessa ágætu félaga mína.
Hverjir vildu fjárfesta?
Þessum heiðursmönnum til upp-
lýsinga er nú bara staðreyndin sú að
þegar leit að fjárfestum í uppbygg-
ingu á laxeldi stóð sem hæst fyrir
nokkrum árum var þetta ekki fjár-
festingarkostur sem hugnaðist ís-
lenskum fjárfestum eða lánveit-
endum. Því er það fagnaðarefni að
erlent fjármagn fékkst og einnig að-
ilar sem hafa reynslu af uppbygg-
ingu á fiskeldi og geta miðlað af
reynslu sinni og þekkingu. Kannski
ekki ólíkt og þegar Norðmenn voru í
fararbroddi í að veiða síld við
strendur Íslands. En samhliða því
byggðust ótal svæði um allt land,
þekking varð til og kunnáttan til að
nýta síldina, sem Íslendingum var
áður alls ókunn.
Í dag hefur greinin fjárfest fyrir
tugi milljarða í atvinnuuppbyggingu
fyrir vestan og austan, án nokkurrar
aðkomu ríkis í formi niðurgreiðslna,
skattaívilnana eða annarra fjárfest-
ingarsamninga. Þessi uppbygging
er sjálfsprottin og sjálfbær innspýt-
ing í íslenskt hagkerfi.
Okkar sameiginlega áhyggjuefni
Ég, sem stangveiðimaður, tek
undir það viðhorf félaga minna að
hnignun Atlantshafslaxastofnsins er
áhyggjuefni. Hún er þó fyrst og
fremst tilkomin vegna umhverfis-
áhrifa sem eru alls ótengd laxeldi.
Hér á landi hefur því að hluta verið
mætt með fiskeldi í formi seiða-
sleppinga og fiskiræktar. Þrátt fyrir
mjög óvægna baráttu sumra stang-
veiðiaðila að undanförnu er það mín
skoðun að það sé hagur þjóðar-
búsins að bæði stangveiði sem og
fiskeldi nái að vaxa og dafna til
framtíðar. Gangi ykkur allt í haginn
og megi ykkur farnast vel í rekstri
ykkar og atvinnuuppbyggingu í
framtíðinni.
Eftir Jens Garðar
Helgason » Því hlýtur manni aðvera spurn hvort
hinn frjálsi markaður sé
bara ætlaður sumum en
ekki öðrum
Jens Garðar Helgason
Höfundur er formaður SFS, fram-
kvæmdastjóri Laxa Fiskeldis og
stangveiðimaður.
Eitt útilokar ekki annað
Sá mikli uppgangur
sem verið hefur í flugi
og ferðaþjónustu síð-
asta áratuginn hefur
gegnt lykilhlutverki í
endurreisn íslensks
hagkerfis, skapað verð-
mæti, ný störf, bætt
lífskjör í landinu, jafn-
að árstíðasveiflur og
haft góð áhrif á
byggðaþróun. Ferða-
þjónustan hefur drifið hagvöxt síð-
asta áratuginn. Útflutnings-
verðmæti greinarinnar er nú yfir
500 milljarðar og hún er þannig orð-
in stærsta útflutningsgrein landsins.
Um tvær milljónir ferðamanna
komu til landsins á síðasta ári og um
sjö milljónir farþega fóru í gegnum
Keflavíkurflugvöll. Hvort tveggja
skapar mikil verðmæti fyrir þjóð-
arbúið og mun gera áfram ef rétt er
á spilum haldið.
Verðmætasköpun
Til ársins 2019 var vöxturinn
hraður og það hefur verið lærdóms-
ríkt að takast á við hann. Ljóst er að
svo hraður vöxtur er hvorki sjálfbær
né hagkvæmur og er ferðaþjónustan
nú að ná jafnvægi eftir þetta mikla
uppgangstímabil. Við
munum þó byggja á
góðum grunni til fram-
búðar þar sem mikill
árangur hefur náðst í
að þróa öflugt þjón-
ustuframboð fyrir
ferðamenn um land
allt, hvort sem um er að
ræða vandaða hótel- og
gistiþjónustu, veit-
ingarekstur eða fjöl-
breytta afþreyingu, svo
eitthvað sé nefnt. Fyrir
fluginu og ferðþjónust-
unni liggja því mikil tækifæri til þess
að vaxa á öflugan og sjálfbæran hátt
til lengri tíma.
Efnahagsleg sjálfbærni byggist á
stöðugri uppbyggingu en ekki sveifl-
um og ef við ætlum að byggja á þeim
grunni sem nú þegar er til staðar
þurfum við að huga að slíkri upp-
byggingu með áherslu á verðmæta-
sköpun og arðsemi. Þannig sköpum
við fleiri heilsársstörf, þannig byggj-
um við upp öfluga innviði og þannig
náum við að hámarka ánægju þeirra
ferðamanna sem hingað koma. Hrá-
efnið höfum við af náttúrunnar
hendi; jöklana, fossana, fjöllin, firð-
ina, heitu svæðin, auðnina, norður-
ljósin og við það bætast íslensk
menning og listir. Við getum skapað
enn frekari verðmæti úr þessum
auðlindum með því að taka skyn-
samlegar ákvarðanir um framtíðina.
Ný stefnumörkun stjórnvalda
varðandi framtíð íslenskrar ferða-
þjónustu er mjög skynsamleg. Þar
eru lykilstefin sjálfbærni og arð-
semi. Þetta er í takt við stefnu og
málflutning Icelandair Group til
margra ára. Við Íslendingar eigum
ekki að horfa á fjölda ferðamanna
sem koma til landsins heldur gæði
þeirra og þau verðmæti sem skap-
ast.
Innan við 3% af heildarlosun
Hagkerfi heimsins eiga mikið
undir skilvirkum flugsamgöngum og
fáar þjóðir jafn mikið og Íslend-
ingar. Við treystum á flug-
samgöngur bæði fyrir fólks- og vöru-
flutninga, þær stuðla að hagsæld og
eru nauðsynlegar til að viðhalda við-
skipta- og menningarlegum
tengslum.
Á sama tíma veldur flug kolefn-
isútblæstri og því tekur flugiðnaður-
inn á heimsvísu umhverfismál mjög
alvarlega. Mikil samvinna hefur ver-
ið um aðgerðir í loftslagsmálum um
árabil á vettvangi IATA, sem eru al-
þjóðleg samtök flugfélaga. IATA
hefur til að mynda sett sér það
markmið að draga úr nettó útblæstri
um 50% fyrir árið 2050. Þá hefur al-
þjóðlegu kolefnisjöfnunarkerfi verið
komið á fót til að bregðast við aukn-
ingu í útblæstri frá og með þessu ári.
Við sjáum miklar framfarir nú þeg-
ar. Flugvélaframleiðendur eru sífellt
að þróa flugvélar þannig að þær
verði umhverfisvænni. Flugvélar
brenna nú minna af eldsneyti en áð-
ur og losa því minna út í andrúms-
loftið, en losun hefur minnkað um yf-
ir 50% á floginn farþegakílómetra
síðan 1990. Þessari þróun er hvergi
nærri lokið og við eigum eftir að sjá
enn frekari framfarir í flugvélafram-
leiðslu á komandi árum.
Það er mikilvægt að við horfum á
loftslagsmálin í víðu samhengi. Þrátt
fyrir að flugiðnaðurinn leggi sitt á
vogarskálarnar til að draga úr losun
þá er það ekki nóg. Einungis tæp-
lega 3% af kolefnisútblæstri í heim-
inum má rekja til flugsamgangna
þannig að jafnvel þótt farþegaflug
væri lagt af stæðu 97% af vandanum
eftir, að öllu öðru óbreyttu. Þetta er
því verkefni okkar allra.
Metnaðarfull markmið
Icelandair hefur náð góðum
árangri á undanförnum árum í því að
draga úr losun. Nýjar flugvélar,
breytingar á eldri vélum, fjárfest-
ingar í ýmsum tækja- og hugbúnaði
og breytt vinnulag hafa skilað
áþreifanlegum árangri nú þegar. Fé-
lagið hefur jafnframt sett fram
metnaðarfull markmið um að draga
úr losun til lengri tíma litið sem snúa
að mestu að endurnýjun flotans. Við
höfum einnig boðið farþegum að kol-
efnisjafna flugferðir sínar frá því síð-
astliðið haust. Þá er Icelandair
Group eitt af fáum flugfélögum í
heiminum sem eru með umhverfis-
vottun á nánast alla starfsemi sína.
Við erum meðvituð um þessa
ábyrgð, störfum markvisst sam-
kvæmt henni og munum gera áfram.
Áfangastaðurinn Ísland er þekkt-
ur fyrir náttúru og hreinleika. Það er
undir okkur komið að viðhalda þeim
gæðum sem náttúran hefur fært
okkur og skapa verðmæti úr þeim
með sjálfbærum hætti til framtíðar.
Eftir Boga Nils
Bogason » Icelandair Group er
eitt af fáum flug-
félögum í heiminum sem
eru með umhverfis-
vottun á nánast alla
starfsemi sína. Við erum
meðvituð um þessa
ábyrgð, störfum mark-
visst samkvæmt henni.
Bogi Nils Bogason
Höfundur er forstjóri
Icelandair Group.
Stöðugleiki til framtíðar