Morgunblaðið - 28.03.2020, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 28.03.2020, Blaðsíða 30
30 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. MARS 2020 ✝ Þórdís Kar-elsdóttir fædd- ist 24. október 1932 í Reykjavík. Hún lést á Landspítala Fossvogi 16. mars 2020. Þórdís var dóttir hjónanna Karels Gíslasonar, f. 1894, d. 1950, og Aldísar Hugbjartar Krist- jánsdóttur, f. 1912, d. 1990. Þórdís átti einn bróður, Matthías, f. 1935, d. 2007, og fóstursystur, Ingu Hallgerði Ingibergsdóttur, f. 1937, d. 1990. Fyrri maður Þórdísar var Kristján E. Kristjánsson, f. 1929, d. 2009, þau skildu. Þeirra sonur var Karel, f. 1950, d. 2014. Maki hans var Þórdís Soffía Friðriks- dóttir, f. 1953, d. 1993. Börn þeirra eru Friðrik Ingi og Þór- dís. Seinni maður Þórdísar var Þorbjörn Finnbogason skipstjóri, f. 1926, d. 1999. Dóttir Þorbjörns af fyrra hjónabandi er Jónína, f. 1952, hennar maki er Hjalti Magnús- son. Börn Jónínu eru Ingibjörg, Krist- ín Laufey og Ívar. Dætur Þórdísar og Þorbjörns eru: 1) Ágústa, f. 1958, hennar maki er Guðmundur Harðarson, börn þeirra eru Þorbjörn, Kristín og Berg- steinn. 2) Hlédís, f. 1962, hennar maki er Valdimar Ólafsson, börn þeirra eru Bergdís, Ólafur Valdi- mar og Þorbjörn. Þórdís lærði til hárgreiðslu á Bylgjunni og starfaði við það fyrstu árin. Þórdís var lengi heimavinnandi og starfaði einnig sem ráðskona á barnaheimili, í mötuneyti Búnaðarbankans og mötuneyti Lögreglustöðvarinn- ar á Hverfisgötu. Útför Þórdísar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 27. mars 2020, í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Hún mamma fór ekki troðnar slóðir og gerði og upplifði margt sem margar konur af hennar kyn- slóð gerðu ekki. Þegar móðir mín skildi við fyrri manninn sinn á sínum tíma var það ekki „normið“. Það var ekki algengt í þjóðfélaginu að vera ung einstæð móðir og samfélagið leit það ekki sömu augum og gert er í dag. Það var á brattann að sækja en hún stóð stolt og keik. Mamma fann ástina aftur, kynntist pabba og þau hófu búskap á Bugðulæk í Reykjavík. Þau fluttu síðan á Eyrarbakka, þar sem mamma átti ættir að rekja og stóran frænd- garð. Þau byggðu hús, pabbi var með útgerð, mamma hugsaði um heimilið, saumaði öll föt á okkur systurnar, bakaði fyrir útgerðina og klippti vini og vandamenn. Árið 1968 urðu þáttaskil í lífi okkar þegar pabbi þáði starf hjá Sameinuðu þjóðunum við kennslu fiskveiða í Pakistan. Heimsmynd- in var önnur í þá daga og lítið hægt að „gúggla“ hluti eða staði. Dvölin í Pakistan var okkur öllum lærdómsrík. Flóð, hvirfilbylur og óeirðir voru daglegt brauð en allt- af höfðu foreldrar mínir að leið- arljósi að tefla ekki í tvísýnu og bera virðingu fyrir menningu og siðum í því landi sem við vorum. Mamma lagði sérstaka áherslu á að við værum fulltrúar þjóðar okkar og ættum að kunna okkur og koma vel fyrir. Annar staður sem við fjölskyldan dvöldum lengi á var Malasía. Þar naut mamma sín. Hún lærði malasísku, hlustaði á enskt linguaphone, saumaði út, fór á batíknámskeið, lærði kopar- stungur og gerði mörg góð verk. Mamma var listræn. Hún hafði auga fyrir fegurð og hafði gaman af að skapa. Ég man eftir einu skipti í skólanum hjá mér þegar átti að vera jólasýning. Við áttum að koma fram í þjóðbúningum og syngja jólalag frá heimalöndum okkar. Auðvitað vorum við ekki með íslenskan þjóðbúning með okkur en mamma dó ekki ráðlaus hún tók sig til og saumaði á mig íslenskan búning og hann var ekki síðri en aðrir búningar á sýn- ingunni. Svona var mamma, hún dó ekki ráðalaus. Eftir áratuga starf hjá Samein- uðu þjóðunum fannst pabba nóg komið. Staðirnir voru ekki orðnir fýsilegir og við stelpurnar komn- ar á hættulegan giftingaraldur. Við fluttum því heim til Íslands. Þegar heim var komið settist fjöl- skyldan að í Vogahverfinu í Reykjavík og pabbi hóf fljótlega störf sem veiðieftirlitsmaður hjá Hafrannsóknarstofnun. Mamma sinnti ýmsum störfum í mötu- neytum og tók virkan þátt í fé- lagsstarfi Kvennadeildar Slysa- varnafélags Íslands. Hún var í húsakaupanefnd sem sá um að kaupa húsnæði fyrir kvennadeild- ina, sem var mikil lyftistöng fyrir félagið. Mamma stóð með sínu fólki, hugsaði um pabba í hans erfiðu veikindum, fór til hans á hverjum degi upp á Landakot og barðist fyrir sinn mann þegar henni fannst læknarnir ekki vera gera það sem rétt var. Eflaust hefur hún gengið allt of nærri sér þar. Hún stóð einnig þétt við bakið á bróður mínum í öllum hans veik- indum og börnum hans eftir að hann dó. Þegar ég fór að hlaða niður börnum á stuttum tíma og vantaði hjálp flutti hún til mín og hjálpaði mér í gegnum erfitt tíma- bil þó að hún hefði enga heilsu í það. Ég verð henni ávallt þakklát fyrir það. Mamma átti við heilsuleysi að stríða síðustu ár og reyndust síð- ustu tvö ár henni einkar erfið. Hún var inn og út af spítala, oft mjög veik en þrátt fyrir allt missti hún aldrei þennan hárfína húmor. Hún gat komið með einhverja litla skemmtilega athugasemd sem létti andrúmsloftið og gerði henni lífið bærilegra. Þegar ég átti af- mæli í febrúar síðastliðnum var hún á spítala og var mjög veik. Henni fannst leiðinlegt að hún væri ekki búin að kaupa eitthvað handa mér og var alveg með það á hreinu hvað hún ætlaði að gefa mér; augnskugga, ég hef ekki not- að svoleiðis síðan ég gifti mig árið 2001, og tösku undir alla handa- vinnuna mína, ég hef ekki tekið í handavinnu síðan ég útskrifaðist úr grunnskóla. Ég vil nota tækifærið og þakka öllu heilbrigðisstarfsfólki fyrir frábæra umönnun á liðnum árum. Alls staðar mætti henni hlýja, virðing og kærleikur. Takk fyrir allt mamma mín og farðu í friði. Þín dóttir, Hlédís Þorbjörnsdóttir. Meira: mbl.is/andlat Elsku hjartans amma mín og alnafna hefur kvatt okkur. Við amma vorum góðar vinkonur, hún var kröfuhörð og stundum hvöss en á sama tíma bjó hún yfir mikilli manngæsku og kærleika sem hún deildi glöð með mér og fjölskyldu minni. Hún var haukur í horni, hún stóð ávallt við bakið á mér og á ég henni margt að þakka. Ég á margar kærar minningar um ömmu. Það sem við nöfnurnar áttum sameiginlegt er að við und- um okkur báðar einstaklega vel í sumarhúsinu hennar, Brennu á Eyrarbakka. Hún í garðinum sín- um að hlúa að blómunum sínum og ég úti í fjöru að leika mér með vinum mínum. Henni þótti sárt að þurfa að kveðja Brennuna og garðinn sinn og ég sakna ávallt sumranna minna við leik á Eyrar- bakka. Þó svo að amma þyrfti að kveðja garðinn sinn á Eyrarbakka eignaðist hún íbúð í Ofanleitinu þar sem hún nýtti hvern einasta fermetra í garðinum sínum undir blómin sín og var alltaf mikill spenna eftir að fyrstu laukarnir spruttu upp á vorin. Hún gaf mér afleggjara af einu af blómunum sínum og á ég eftir að hlúa að því eins og hún hlúði að garðinum sín- um. Á jólunum virtist oft á tíðum sem ég hefði einkarétt á að hjálpa ömmu með jólaskrautið sitt. Það gat verið krefjandi að hjálpa konu sem vissi upp á hár hvernig hún vildi hafa hlutina en hafði ekki beint þolinmæðina til að segja frá því. Það tók alveg nokkur ár að fínpússa þetta hjá okkur en þegar við vorum báðar búnar að þrosk- ast heilmikið var þetta farið að ganga ljómandi vel hjá okkur. Um áramót fór ég til ömmu í humar; humar steiktan í smjöri, karríi og ferskum ananassafa. Þegar hún varð heilsuminni varð það henni kappsmál að kenna mér að elda humarinn eftir hennar uppskrift ef ske kynni að hún gæti ekki matreitt hann sjálf. Þegar amma lá á Landakoti buðum við Einar sambýlismaður minn henni heim í áramótahumarveislu og hún ljómaði öll því henni hafði tek- ist að kenna mér að matreiða humarinn vel. Hún fékk humarinn sinn og lögg af hvítvíni með. Amma hafði gaman af því að spila. Ég og Einar komum stund- um í heimsókn til hennar og tók- um einn hring með henni í horna- fjarðarmanna. Alltaf þegar við héldum að við myndum sigra hana þá fyrst tók hún mann í bakaríið. Það var alveg sama hversu slöpp hún var; hún var alltaf með tíu stig í plús á mig og Einar. Það hlakk- aði alveg í henni þegar hún fór sem verst með okkur. Hvernig er hægt að þakka, það sem verður aldrei nægjanlega þakkað. Hvers vegna að kveðja, þann sem aldrei fer. Við grátum af sorg og söknuði en í rauninni ertu alltaf hér. Höndin sem leiddi mig í æsku mun gæta mín áfram minn veg. Ég veit þó að víddin sé önnur er nærveran nálægt mér. Og sólin hún lýsir lífið eins og sólin sem lýsti frá þér. (Sigríður Ögmundsdóttir) Ég er þakklát fyrir að þú fékkst að hitta hann Sófus Karel minn eða Sesar Karel eins og þú kallaðir hann. Ég er þakklát fyrir þig og allt sem þú kenndir mér, þú ert mér ómetanleg gjöf sem ég á alltaf eftir að sakna. Þórdís Karelsdóttir, Einar Andrésson og Sófus Karel Einarsson. Ég kynntist Þórdísi þegar ég varð heimagangur á heimili henn- ar þegar við Hlédís, dóttir hennar, urðum vinkonur á menntaskóla- aldri. Ég kunni þegar í stað vel við Þórdísi enda var hún skemmtileg kona og kynni okkar þróuðust þannig að við spjölluðum oft þeg- ar ég kom í heimsókn til Hlédísar. Hún sýndi mér athygli sem, eftir á séð, hefur líklega verið vel þegin af minni hálfu komandi frá barn- mörgu heimili þar sem mikil eftir- spurn var um athygli foreldranna. Einnig höfðum við sameiginlegt áhugamál, sem var handavinna. Hún sýndi mér alltaf það sem hún var að vinna að hverju sinni og ég kom iðulega með það sem ég var að vinna að til að sýna henni. Oft lengdist í spjalli okkar og það kom alveg fyrir að Hlédís missti þolin- mæðina, kom til okkar og spurði hvern ég væri eiginlega að heim- sækja. Samskipti okkar Þórdísar urðu minni með árunum eftir að Hlédís flutti að heiman en ég hitti hana alltaf af og til í boðum á heimili Hlédísar og sótti þá í skemmtilega félagsskapinn hennar. Hún sýndi börnunum mínum alltaf áhuga þannig að ég hef alltaf sent henni jólakort með mynd af þeim, jafn- vel þó að börnin séu orðin harð- fullorðin og komin með maka sem kippt var með á myndina og kunni hún vel að meta þessar sendingar. Af öllum góðum minningum er mér sérstaklega minnisstætt þeg- ar elsta barn Hlédísar var fermt. Þegar við komum til veislunnar þá var Þórdís komin og við sett- umst hjá henni. Smám saman fjölgaði í salnum og þegar ég sá að afkomendur Þórdísar sátu víðsvegar fékk ég samviskubit yf- ir að einoka hana svona og sagði að við skyldum flytja okkur svo hún gæti spjallað við fjölskylduna sína. Þórdís leit þá á mig og sagði „þið eruð fjölskylda“ og þar með var það útrætt og við sátum sem fastast. Mér hlýnaði mjög um hjartarætur þegar hún sagði þetta og er þessi minning mér mjög kær. Ég þakka Þórdísi kærlega fyr- ir samfylgdina öll þessi ár og sendi ástvinum hennar innilegar samúðarkveðjur. Góð og skemmtileg kona er gengin sem mikill missir er að. Minning henn- ar lifir. Auður Ólína Svavarsdóttir. Elsku amma mín. Góða amma mín. Þú sem kunnir svo mikið um álfa og huldufólk og sagðir svo skemmtilegar sögur ert dáin. Ég skrifa þetta á jarðarfarardegin- um þínum og á erfitt með að sætta mig við að hafa ekki geta verið heima til að kveðja þig eins og ég hefði viljað. En ég ylja mér við minningar um þig og yndis- legu tímana sem við höfum átt. Tímarnir á Eyrarbakka standa uppúr. Það var enginn staður í heiminum sem var betra að sofa á en í Brennunni hjá þér og afa. Að spila, borða nýveiddan silung með nýuppteknum kartöflum og leika sér á Eyrarbakka eru sælar minningar. Nýlega fann ég gamlan bréfa- bunka frá því að við bjuggum í Ísrael og meðal þeirra voru bréf frá þér. Húmorinn þinn og um- hyggja skein svo í gegnum allt sem þú skrifaðir til mín. Og orðin þín sýndu svo greinilega hversu vel þú þekktir mig. Ég met þessi bréf svo mikils núna og er svo þakklát fyrir að þú skrifaðir mér þó svo að 10 ára ég hafi sjaldan nennt að skrifa til baka. Þú studdir mig og hvattir mig í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og þú varst minn stærsti aðdá- andi á meðan ég spilaði fótbolta og handbolta. Þegar ég flutti til Noregs varstu opin um að þú vild- ir nú að ég flytti heim en ávallt á þann hátt að ég fann fyrir stuðn- ingi og skilningi á valinu um að búa erlendis. Ég óska þess að stelpurnar mínar hefðu fengið að umgangast þig meira og þeim þykir svo vænt um þig og sakna þín. Ég er þakklát fyrir tímann sem við fengum í febrúar í síðustu heimsókn minni. Við áttum skemmtileg samtöl, hlógum sam- an og minntumst liðins tíma. Kveðjustundina held ég mikið upp á. Þá var heilsan þín þannig að við áttum að forðast faðmlög og þess háttar og myndin af þér, í huga mínum, þar sem þú brosir breitt, hlærð, sendir fingurkossa til mín og býrð til kyssuhljóð út í loftið er ómetanlega dýrmæt. Svo innilega í þínum anda. Alltaf þegar ég hugsa til þín hljómar lagið Dansi, dansi dúkk- an mín í kollinum. Þetta söngstu fyrir mig þegar við lékum okkur með dúkkur og seinna fyrir stelp- urnar mínar, bæði þegar við hitt- umst og þegar við töluðum í sím- ann. Ég held áfram að syngja þetta fyrir stelpurnar og minni þær á hver kenndi mér það og af hverju mér þykir svo vænt um það. Dansi, dansi dúkkan mín, dæmalaust er stúlkan fín. Voða fallegt hrokkið hár, hettan rauð og kjóllinn blár. Svo er hún með silkiskó, sokka hvíta eins og snjó. Heldurðu‘ ekki‘ að hún sé fín? Dansi, dansi dúkkan mín. Hvíldu í friði, elsku amma. Þín verður sárt saknað. Kristín Guðmundsdóttir. Þórdís Karelsdóttir HJARTAVERND Minningarkort 535 1800 www.hjarta.is Frímann & hálfdán Útfararþjónusta Frímann 897 2468 Hálfdán 898 5765 Ólöf 898 3075 Sími: 565 9775 www.uth.is uth@uth.is Cadillac 2017 Ástkær móðir okkar og tengdamóðir, SIGFRÍÐ VALDIMARSDÓTTIR, Heiðarbrún 88, Hveragerði, lést 19. mars á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Útförin fór fram í kyrrþey í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu. Minningarathöfn mun fara fram síðar. Ásdís Birna Stefánsdóttir Sigurður Hjalti Magnússon Ragnhildur Guðmundsdóttir Einar Guðmundsson Inga P. Línberg Runólfsdóttir Valdimar Ingi Guðmundsson Hrefna Guðmundsdóttir Ásta María Guðmundsdóttir Elskulegur eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir og afi, KRISTJÁN FRIÐRIK JÚLÍUSSON kranabílstjóri, Brekkugötu 38, sem lést á heimili sínu 20. mars verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju þriðjudaginn 31. mars kl. 13.30. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verður mjög takmarkaður aðgangur að útförinni, en henni verður streymt á FB-síðu. Aðstandendur veita nánari uppýsingar um það. Þeim vildu minnast hans er bent á Heimahlynningu á Akureyri. Aldís Ragna Hannesdóttir Júlía Björk Kristjánsdóttir Eggert Þór Ingólfsson Eva Laufey, Jón Októ, Aldís Hulda og Kristín Edda Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, BJÖRN HELGI GUÐMUNDSSON bílamálari, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 8. mars. Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey. Starfsfólki Hrafnistu er þakkað sérstaklega fyrir ást og umhyggju sem hinum látna var sýnd árin sem hann dvaldi þar. Margrét S. Björnsdóttir Baldvin Jónsson Sophus Jón Björnsson Yan Zhang Björnsson Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, INGIBJÖRG S. KARLSDÓTTIR, lést sunnudaginn 22. mars á Hrafnistu, Reykjavík. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu fer útför fram í kyrrþey en minningarathöfn verður auglýst síðar. Karl Jónsson Guðrún H. Aðalsteinsdóttir Þóra Kristín Jónsdóttir Grétar Viðar Grétarsson Kristján Jónsson Diljá Þórhallsdóttir barnabörn og barnabarnabörn

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.