Morgunblaðið - 28.03.2020, Blaðsíða 44

Morgunblaðið - 28.03.2020, Blaðsíða 44
44 MENNING MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. MARS 2020 AF LISTUM Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Sá síðasti úr kvartetti merkustu höf- unda evrópskra teiknimyndasagna á tuttugustu öld lést í vikunni, franski teiknarinn Albert Uderzo, 92 ára að aldri. Hann var höfundur teikning- anna af hinum smávaxna en útsjónar- sama Ástríki sem – styrktur af kjarnadrykk Sjóðríks seiðkarls – lagði ásamt Steinríki vini sínum heri rómverska heimsveldisins að velli í hverri bókinni á fætur annarri, í bók- um sem lögðu jafnframt heiminn að fótum sér og nutu gríðarlegrar hylli. Meðhöfundur Uderzo, René Gos- cinny (1926-1977) lést ungur, rúm- lega fimmtugur. Hinir risarnir í kvartettinum voru vitaskuld Hergé (Georges Remi) höfundur Tinnabók- anna (1907-1983) og Tove Jansson (1914-2001) sem skapaði hinn ein- staka Múmíndal. Þau mótuðu ólíka heima, sem allir höfðu ómæld áhrif á ungmenni út um löndin, og þar með vel skapaða karaktera sem lifa höf- unda sína og tala enn til ungra les- enda styrkum rómi. Söguheimur á 15 mínútum Uderzo og Goscinny kynntust árið 1951 og tóku fljótlega að starfa sam- an. Þeir sköpuðu nokkrar teikni- myndasögur sem náðu engum sér- stökum vinsældum en voru svo árið 1959 meðal stofnenda nýs tímarits fyrir ungmenni, Pilote. Ritstjóri þess bað þá um að skapa nýja myndasögu sem yrði frönsk í anda og gæti verið svar við þeim bandarísku teikni- myndum sem voru farnar að streyma til Evrópu. Eftir að hafa rætt nokkr- ar hugmyndir, sem þeim þóttu ekki virka, þá fengu þeir hugljómun, rétt áður en þeir áttu að skila fyrstu myndaræmunum. „Hvað er franskara en forfeður okkar, Gallarnir? spurðum við okk- ur,“ rifjaði Uderzo upp í útvarps- viðtali fyrir nokkrum árum og bætti við að innan fimmtán mínútna hefðu þeir verið búnir að setja heildar- myndina niður fyrir sér: seiðkarlinn, söngvaskáldið, heitin á allar aðal- persónur, sem enda á meginlands- málunum öll á „ix“ með vísun í hin þekkta foringja Galla til forna, Ver- cingetorix. Íslenskir þýðendur fyrstu Ástríksbókanna sem komu hér út, árið 1974, þeir Þorbjörn Magnússon og Þorsteinn Thorarensen, fóru hins vegar þá leið að láta öll nöfn persóna enda á „ríkur“, sem lukkaðist vel. Sögurnar af Ástríki og félögum slógu í gegn í Pilote og síðan svo um munaði þegar fyrsta bókin, Ástríkur gallvaski, kom út árið 1961. „Það er mér ráðgáta hvers vegna Ástríkur náði þessu flugi,“ sagði Uderzo í viðtali í The New York Times. „Við René höfðum áður skap- að aðrar persónur með jafn mikilli ástríðu og ákafa en aðeins Ástríkur sló í gegn. Kannski er ástæðan sú að allir geta séð sjálfa sig í persónunum,“ bætti hann við. „Hugmyndin um að sá litli geti sigrað þá stóru hefur aðdráttar- afl. Enda þekkjum við það öll að ein- hverjir risar ráðskist með okkur: stjórnvöld, lögreglan, skatturinn.“ Á þeim 16 árum sem Uderzo og Goscinny náðu að starfa saman frá útkomu fyrstu Ástríksbókarinnar og þar til Goscinny lést voru afköst þeirra gríðarleg. Formúlan var niður- njörvuð: 48 blaðsíður, sagan byrjar á átökum íbúa litla þorpsins sem er það eina í Gallíu sem Rómverjar hafa ekki náð að leggja undir sig, en utan- aðkallandi ógn, hjálparbeiðni eða annars konar aðkallandi verkefni verður til þess að Ástríkur og Stein- ríkur leggja upp í ferð þar sem þeir aðstoða fólk annars staðar, í hinum ýmsu Evrópulöndum, og klekkja í leiðinni á Rómverjum. Í sögulok eru allir aftur orðnir vinir í þorpinu, með samstöðu hefur innrásarherinn verið sigraður og það er haldin veisla. Sögurnar dreifðust strax út um heimsbyggðina og hafa verið þýddar á yfir eitthundrað tungumál. Eftir lát Goscinnys hélt Uderzo áfram einn og skrifaði sögurnar líka sjálfur. Fyrir níu árum seldi hann síðan réttinn að þeim til Hachette-forlagsins sem réði teiknara og höfunda til að halda áfram að senda Ástrík í sífellt ný ævintýri. Nú hafa 38 sögur komið út og í 380 milljónum prentaðra eintaka, sem er með hreinum ólíkindum. Og teiknimyndir og leiknar myndir hafa verið gerðar eftir þeim og fyrir utan París er meira að segja stórskemmti- legur skemmtigarður helgaður sögu- heiminum. Litblindur og 12 fingur Foreldrar Uderzos voru ítalskir innflytjendur en hann leit ætíð á sig sem Frakka. Og hann var sérstakur, fæddist með 12 fingur. Aukafingurnir voru fjarlægðir strax í æsku en vinir göntuðust með að Uderzo hefði töfra- hendur sem sæist vel í teikningunni. Það hafði líka áhrif á teikninguna að hann var litblindur, sem hann sagði hafa gert sig óöruggan við litun en þeim öruggari í glímunni við línuna. Uderzo spreytti sig á ólíkum teiknistílum, sumar fyrstu sagna þeirra Goscinnys voru mun raunsæis- legri en Ástríkur, en þar fór hann út í skopteikningu og vinnur mikið með hringlaga form; nef eru bólgin og stór og líkamseinkenni ýkt með þeim skoplega hætti sem hefur heillað les- endur. Á móti fyndnu útliti persón- anna, sem hver hefur vel mótaðan karakter, einnig hinar ýmsu auka- persónur sem bregður fyrir í mis- litlum hlutverkum, kemur síðan mikil nákvæmni í umhverfisteikningu, hvort sem um er að ræða skóginn við þorpið, rómverska herskara eða sögulega réttar myndir af hinum ýmsu borgum og stöðum sem fé- lagarnir koma til. Þrátt fyrir að heimsveldið sem þorpsbúar glíma við í sögunum sé Rómarríki duldist hinum eldri les- endum á sjöunda áratugnum ekki að það stóð fyrir Þýskaland nasismans. Og þorpið sem stóð eitt í baráttunni og íbúar þess voru táknmynd fyrir andstöðuna gegn nasistum. Þá nutu lesendur þess að sjá hvernig höfund- arnir drógu skoplega upp sérkenni hina ýmsu evrópsku þjóða en hnykktu jafnframt á mikilvægi sam- stöðunnar. Og í öllum löndum sem Ástríkur og Steinríkur heimsækja er fjallað hlýlega um heimamenn, með einni undantekningu, en það er í bók- inni um Gotana, þar sem þeir halda til Þýskalands. Ríkur en óþekktur Eins og gefur að skilja efnaðist Uderzo gríðarlega á sköpunarverk- inu og gat komið sér vel fyrir í villu í útjaðri Parísar og keypt sér flota hraðskreiðra Ferrari-bíla. En hann var jafnframt ánægður með að vera ekki þekkt andlit, ólíkt sköpunar- verkum hans, Ástríki, Steinríki, Kríl- ríki og öllum hinum. „Það þekkir mig enginn úti á götu,“ sagði hann í viðtali fyrir nokkrum ár- um. „Karakterar geta orðið goð- sagnakenndir en ekki við, feður þeirra.“ Faðir Ástríks og Steinríks allur  Albert Uderzo, teiknari sagnanna um Ástrík, taldi þær hafa orðið vinsælar því allir gætu samsamað sig litla manninum sem þeir stóru vildu ráðskast með  Sögurnar hafa selst í 380 milljónum eintaka AFP Vinir Samstarfsmennirnir René Goscinny og Albert Uderzo – og Ástríkur – á ljósmynd frá áttunda áratugnum. Sorg Uderzo teiknaði hetjurnar sínar einu sinni enn fyrir fimm árum, þar sem þær syrgja teiknara á Charlie Hebdo-tímaritinu sem hryðjuverkamenn myrtu. Nú lúta Ástríkur, Steinríkur og Krílríkur höfði fyrir Uderzo. Dáðir Albert Uderzo stillti sér upp með Ástríki og Steinríki árið 2007.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.