Dagblaðið Vísir - DV - 11.09.2020, Blaðsíða 12

Dagblaðið Vísir - DV - 11.09.2020, Blaðsíða 12
Verndandi þættir Aðstoð við foreldra sem hafa misst ung börn og konur sem hafa þurft að fæða andvana börn, er hluti af starfi Vigfús­ ar. „Þessar mæður hafa fund­ ið fyrir börnunum sínum í marga mánuði og tengst þeim í gegnum líkamleg viðbrögð. Oft eru þær orðnar mjög tengdar þessum einstaklingi, sem strax fyrir fæðinguna var orðinn risastór áhrifa­ þáttur tilhlökkunar og gleði, en hverfur síðan á braut. Þetta er gríðarlega flókin reynsla fyrir fólk. Þarna skiptir miklu máli að virða reynsluheim konunnar en um leið hjálpa sambúðarfólki að vera saman í sorginni.“ Sorgarvinna með fjölskyld­ um er Vigfúsi mikilvæg og hefur hann unnið mikið við það í gegnum tíðina að hjálpa fólki að skapa getu til að tala saman, þrátt fyrir allt. „Það er vinna sem skilar oft mjög miklum árangri, og hjálpar hjónum að skilja og skynja hvort annað. Þeim fjölskyldum gengur lang­ best sem ekki stunda hugsana­ lestur. Það er ákveðin áfalla­ vinna að kenna fólki að reyna ekki að lesa hugsanir heldur efla getuna til að tjá sig og spyrja spurninga.“ Fæstum dylst að starf sjúkrahússprests er afar krefjandi. Hann viðurkennir að hafa stundum hugsað að þetta sé bara komið gott. „Jú, jú. Mér finnst samt ekki að neinn eigi að fá sérstakt hól fyrir að sinna starfinu sínu. Starf sem þetta er líka þess eðlis að það hefur að geyma verndandi þátt, því hægt er að upplifa mikla gagnsemi. Sam­ skiptin eru yfirleitt jákvæð og í þeim er ákveðin mildi sem einnig er verndandi. Það sem er erfiðast við að yfir­ gefa svona störf er að maður getur fundið fyrir tilgangs­ leysi í öðrum störfum. Það er þó ekki rétt sýn, enda öll störf jafn mikilvæg og tilgangsrík. En þegar maður er vanur því að vera í krefjandi og ögrandi aðstæðum getur verið erfitt að fara úr þeim. Eitt af því sem verndar fólk í svona störfum er að maður sér oft svo mikinn árangur. Ég hef séð fólk vinna í sínum málum, rísa upp og ná tökum á sínu lífi. Ég finn þá fyrir svo mikilli virðingu fyrir fólki og starfið hefur fært mér aukna trú á mannkynið. Allir eru að gera sitt besta. Ég held satt að segja að mörg önnur störf séu miklu erfiðari. Hér get ég horft á fólk öðlast ný gildi og nýjan styrk, upplifa að það sé lifandi þrátt fyrir allt.“ Endurnærandi að kenna Þá er afar mismunandi að koma heim eftir vinnudaginn. „Margt fylgir manni að sjálf­ sögðu og maður nær ekki að sleppa hugsuninni. Það er mikilvægt að varðveita ákveð­ in skil milli heimilis og vinnu. Ég er þó viss um að ég hef lagt mikið á mína fjölskyldu út af vinnunni, en ég reyni að gera eins lítið af því og ég get. Ég vil ekki að heimilislífið litist af því sem ég var að sjá eða upplifa. Það væri ósanngjarnt gagnvart fjölskyldunni. Stund­ um er gott að tala við einhvern áður en maður fer heim, en stundum hefur maður ekki þörf fyrir það.“ Auk þess að starfa á Land­ spítalanum hefur Vigfús síð­ ustu þrjú ár kennt sálgæslu hjá Endurmenntun Háskóla Ís­ lands. Þetta er diplómanám á meistarastigi sem hann kennir ásamt séra Gunnari Rúnari Matthíassyni og fjölda gesta­ kennara. „Mér finnst þetta afskaplega skemmtilegt og endurnærandi. Í námið kemur fólk úr ýmsum áttum: heil­ brigðisstarfsfólk, starfsmenn kirkjunnar og félagslega kerf­ isins. Við kennum bæði út frá fræðum um sorgarkenningar en höfum einnig verið með verklega kennslu. Þá búum við til aðstæður þar sem fólk get­ ur æft sig í að taka erfið sam­ töl. Fólk er oft feimið í byrjun en það er alveg magnað að sjá fólk eflast í svona hlutverka­ leik.“ Vigfús er ekki nema 46 ára gamall, ánægður með þá reynslu sem hann hefur öðlast, og nóg eftir. „Það er gott að eldast. Margt hefur komið á óvart í lífinu. Þetta er ferðalag sem geymir fullt af tækifærum. Mér finnst gott að gefa mér tíma í að efla þá hluti sem hafa góð áhrif á mig. Ég hef verið drjúgur við að efla tenginguna við nátt­ úruna, var duglegur að hreyfa mig en þarf að verða virkari á því sviði aftur. Mér finnst gott að lesa og ég þarf að eiga mitt andlega líf. Þá gengur mér betur, ég er rólegri og æðru­ lausari. Síðan finnst mér fólk yfirleitt skemmtilegt. Það er alltaf kostur.“ Hann nær síðan ágætlega utan um eðli starfs­ ins þegar hann segir á léttu nótunum: „Ég vildi bara óska að fólk þyrfti aldrei að kynn­ ast mér.“ n 12 FRÉTTIR 11. SEPTEMBER 2020 DV Vigfús Bjarni er þriggja barna faðir en labradortíkin Salka er líka stór hluti af fjölskyldunni. MYND/ANTON BRINK Það er ákveðin áfallavinna að kenna fólki að reyna ekki að lesa hugsanir.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.