Fjölrit RALA - 15.02.1995, Side 65
Efnasamsetning
63
Rót alaskalúpínu var meðal þess sem sumir frumbyggjar á Kyrrahafsströnd
Kanada og Alaska nýttu af villtum plöntum til matar (Heller 1953; Turner 1973;
Kuhnlein 1990). Heller (1953) getur þess að íbúar Aleutin-eyjanna hafi safnað rótum
í október. Af rótunum flettu þeir hýðinu og átu þær síðan hráar eða soðnar. Voru þær
sagðar aðeins beiskar á bragðið. Greint er frá að mönnum hafi orðið misdægurt af
óhóflegu áti á rótum sem geti jafnvel orsakað banvænar bólgur í maga og þörmum.
Turner (1973) lýsir stuttlega nýtingu frumbyggja á rótum alaskalúpínunnar sem
fyrrum hafi verið glóðaðar á kolum og étnar. Getið er um að fólk hafi fundið til
ölvunartilfinningar og svefnhöfgi af átinu. Kuhnlein (1990) hefur rannsakað
næringargildi margra villtra plantna sem nýttar voru fyrrum af frumbyggjum í Bella
Coola í Bresku-Kólumbíu, Kanada. Var rót alaskalúpínu þar á meðal. Rótum ýmissa
plantna var safnað bæði að hausti og snemma vors og voru þær geymdar í gryfjum
sem gerðar voru í gólf "rótakjallara". Söfnun róta lagðist að mestu af eftir 1960.
Lúpínurætur voru matreiddar þannig að þær voru soðnar þar til þær voru orðnar
mjúkar undir tönn. í grein Kuhnlein eru upplýsingar um mörg efni (prótein, fitu,
kolvetni, trefjar, Ca, P, Na, Mg, Fe, Zn, Cu, Mn, Sr og vítamín) í lúpínurót og í
hlutum margra annarra plantna sem nýttar voru til matar. Kuhlein getur ekki um að
lúpínurótin skeri sig úr hvað efnasamsetningu eða næringargildi varðar. Almennt eru
rætur tegundanna sem rannsakaðar voru sagðar svipaðar kartöflum að prótein-, fitu-,
ösku- og orkuinnihaldi en ríkari af kalsíum. Innihald vítamína var hins vegar fremur
lágt (Kuhnlein 1990).
Alaskalúpína sem beitar- og fóðurplanta
Eðlilegt er að kannaðir séu möguleikar á nýtingu alaskalúpínunnar sem fóður fyrir
búfé. Lúpínur geta gefið prýðis fóður, þær eru mjög próteinríkar, hafa háan
meltanleika og eru fremur auðugar af steinefnum. Þá gefa þær oft mikla uppskeru og
sjá sér sjálfar fyrir köfnunarefni eins og aðrar belgjurtir. Við ræktun þeirra sparast því
útgjöld við áburðarkaup. Vandamál geta þó fylgt fóðrun búfjár með lúpínu. Annars
vegar er hátt beiskjuefnainnihald sem getur valdið lúpínueitrun (lupin toxicity) en hins
vegar er lúpínuveiki (lupinosis) sem orsakast af svepp sem finnst í blöðum og
stönglum plantnanna.
í Evrópu og víðar hafa beiskjuefnalitlar (sætar) fóðurlúpínur verið ræktaðar til
síðsumar- og haustbeitar fyrir sauðfé og einnig hefur verið verkað úr þeim vothey
(Gladstones 1970; Williams 1984; Jóhann Þórsson & Ólafur Guðmundsson 1993).
Ólafur Guðmundsson & Sveinn Runólfsson (1988) gerðu tilraun hér á landi með að
beita lömbum á sæta fóðurlúpínu (Lupinus angustifolius) að hausti og þrifust lömbin
mjög vel af henni. Vandkvæði eru á ræktun einærra fóðurlúpína við íslenskar
aðstæður. Alaskalúpínan þrífst hins vegar vel hér á landi og gefur af sér viðlíka
Uppskeru og bestu túngrös þar sem skilyrði eru góð.