Skólavarðan - 2017, Side 4
4 HAUST 2017
Þórður Á.
Hjaltested
formaður KÍ
Samfélagið gerir kröfu um góða menntun barna og
ungmenna og að íslenskir skólar séu í fremstu röð.
Þetta er eðlileg krafa enda vitum við að góð og gegnheil
menntun fyrir alla sem hér búa er fjöregg þjóðarinnar og
mannauðurinn skapar verðmæti sem skila sér til baka í
nýsköpun, frumkvæði, nýjum störfum og samfélagi sem
gott er að búa í.
Því veldur það vonbrigðum að þrátt fyrir mikla
uppsveiflu í efnahagslífinu á síðustu árum skuli
staðan vera sú að útgjöld hins opinbera til mennta-
mála á hvern landsmann hafa dregist saman um
13.5 prósent frá því þau náðu hámarki árið 2008. Ef
skoðaðar eru tölur frá Hagstofu Íslands kemur í ljós að
væri sambærilegt fjármagn lagt í menntakerfið nú og árið
2008 þá vantar rúmlega 15 milljarða króna. Að því sögðu
vita allir að menntakerfið var langt í frá að vera ofalið árið
2008.
Það vantar rekstrarfé til skóla svo þeir geti hagað
skólastarfi í samræmi við kröfur um að nemendur fái
fyrsta flokks menntun og búi við farsæld í skólanum, og
hægt sé að endurnýja nauðsynleg tæki og búnað.
Á sama tíma hafa framlög heimila til menntamála
hækkað um fimm prósent og nema nú 9,5 prósentum
af heildarútgjöldum til málaflokksins. Þetta er okkur til
vansa og á þessu sviði erum við miklir eftirbátar nágranna
okkar á hinum Norðurlöndunum. Það á að vera keppikefli
okkar að menntun og skólaganga sé nemendum og
foreldrum að kostnaðarlausu frá upphafi leikskóla til loka
framhaldsskóla.
Kennarasambandið hefur vakið athygli á þessum
staðreyndum og ítrekað nauðsyn þess að umfram allt
þurfi að verja menntun og farsæld nemenda – það þarf að
bæta í en ekki skera niður. Hið opinbera verður að skipta
um kúrs og auka útgjöld til menntamála – samdráttur eða
kyrrstaða í þessum málaflokki er með öllu óverjandi.
Á komandi árum mun gæðamenntun hafa úrslita-
áhrif á afkomu þeirra einstaklinga sem hér búa og
þjóðarinnar í heild.
Menntun fyrir alla
Snemma á þessu ári kynnti Evrópumiðstöð um nám án
aðgreiningar og sérþarfir óháða úttekt á framkvæmd
menntastefnunnar í leik-, grunn- og framhaldsskólum
hérlendis. Það var löngu tímabært að fá úttekt af þessu
tagi, úttekt þar sem lagt er heildstætt mat á stöðuna í
íslenskum skólum og einnig lagðar fram tillögur um
úrbætur.
Kennarasambandið hefur um langt skeið bent á
nauðsyn þess að endurskoða framkvæmd um menntun án
aðgreiningar – með skýrari markmiðssetningu og meiri
stuðningi við kennara, stjórnendur og alla þá sem koma
að skólasamfélaginu. Styrkur úttektarinnar er einkum
sá að hún er byggð á skoðunum og þekkingu skólafólks.
Ýmsir vankantar á framkvæmd stefnunnar í skólakerfinu
koma í ljós en þar er einnig fjallað um styrkleika því afar
margt er vel gert í okkar skólastarfi.
Við höfum nú gagnlegan grunn til að vinna að
framgangi menntastefnunnar og það er mikilvægt að við
göngum út frá styrkleikum skólakerfisins.
Kennarasambandið hefur og mun sannarlega leggja
sitt af mörkum við framgang þessa mikilvæga verkefnis.
Kennarar, stjórnendur, námsráðgjafar og aðrir sem starfa
í skólum bera ríka ábyrgð sem fagstétt að taka virkan þátt
í umræðum um svo mikilvægt mál og hafa um leið áhrif
til hagsbóta fyrir skólastarf, menntun og farsæld barna og
ungmenna.
Þurfum fleiri kennara
Skortur á kennurum hefur verið mikið í umræðunni
síðustu misseri. Við blasir að kennaraskortur er fyrirsjá-
anlegur í nánustu framtíð í grunn- og framhaldsskólum
og mikill og viðvarandi kennaraskortur hefur verið innan
leikskólans í mörg herrans ár. Það er brýnt að allir þeir
aðilar sem koma að menntakerfinu leggi saman krafta
sína um hvernig megi laða ungt fólk í kennaranám og
um þetta þarf að vera samstarf menntamálaráðuneytis,
sveitarfélaga, kennarasamtakanna og háskóla sem mennta
kennara.
Í þessu sambandi er ekki hægt að horfa fram hjá því
að gera þarf laun kennara samkeppnishæf við laun annarra
háskólamenntaðra sérfræðinga, og stórbæta starfs-
aðstæður kennara og skólastjórnenda til að þróa menntun
og skólastarf til hagsbóta fyrir nemendur og samfélagið.
Starfsaðstæður í skólum landsins eru það alvarlegar að
fjöldi kennara brennur upp og upplifir kulnun í starfi, við
svo verður ekki búið, þetta þarf að laga og það strax.
Ég kalla eftir því að nýkjörnir alþingismenn snúi nú
bökum saman og leggi áherslu á skólamál og vinni að því
að finna lausnir á þeim vanda sem við blasir í skóla- og
menntamálum landsmanna.
ÁGÆTI FÉLAGSMAÐUR!
„Starfsaðstæður í skólum
landsins eru það alvarlegar
að fjöldi kennara brennur
upp og upplifir kulnun í starfi,
við svo verður ekki búið.“