Skólavarðan - 2017, Blaðsíða 21
HAUST 2017 21
morgun út í skóg, daginn eftir á þriðja staðinn
og fjórða daginn enn annað.
Tíðindamaður Skólavörðunnar í
Kaupmannahöfn hitti foreldra tveggja
leikskólasnáða. Fyrst foreldra Úlfs Birkis
Bjarnasonar sem er fimm ára og er í udflytte-
börnehave þar sem farið er úr borginni alla
virka daga. Foreldrar hans, þau Hafrún Elma
Símonardóttir og Bjarni Davíð Guðmunds-
son, fluttu ásamt Úlfi og eldri bróður hans, til
Kaupmannahafnar í desember 2015 og búa
skammt frá Österport lestarstöðinni. Úlfur
fékk strax í ársbyrjun 2016 pláss í leikskóla.
Hafrún og Bjarni sögðust ekki beint hafa
verið að leita að svona leikskóla og þau hefðu
svo sem ekki vitað mikið annað en að börnin
færu úr bænum alla daga. En þetta var það
sem þeim var boðið.
Maturinn í leikskólanum var sér-
kapítuli í byrjun
Hefðuð þið valið svona leikskóla ef annað
hefði boðist?
Nei, það hefðum við ekki gert, einfald-
lega af því að við þekktum þetta ekki. Í dag
myndum við ekki hika við að velja svona
leikskóla og mælum með því við hvern sem
er. Eini gallinn er að ef barnið veikist og
verður að fara heim á miðjum degi þá tekur
langan tíma að sækja það. Við vorum aðeins
efins í upphafi en eftir að hafa farið í heim-
sókn ákváðum við að slá til, vitandi að ef þetta
gengi ekki væri hægt að skipta um skóla. Við
vorum aðeins hikandi þegar okkur varð ljóst
að börnin væru úti nánast allan daginn en því
var okkar maður ekki vanur. Maturinn var
líka sérkapítuli í byrjun, mjög mikið lífrænt
ræktað og frábrugðið því sem Úlfur var vanur.
Makríll, kjúklingahjörtu, linsubaunasúpa
og náttúrlega rúgbrauð, sem Úlfur var ekki
vanur að borða, að minnsta kosti einu sinni í
viku og fleira sem hann þekkti ekki. Þarna er
kokkur en á flestum leikskólum koma börnin
með nesti til dagsins.
Hann hefur væntanlega ekki kunnað
neitt í dönsku?
Nei, en það kom fljótt. Hann byrjaði í
janúar og það var fremur kalt. Hann þurfti að
venjast því og eitt það fyrsta sem hann lærði
í dönsku var „mér er kalt“ en í dag er hann
fyrstur út og síðastur inn.
Hálf níu til fjögur alla daga
Leikskóli Úlfs er tengdur, ef svo má segja,
vuggestue skammt frá heimili hans. Foreldrar
geta komið með barnið áður en rútan kemur
og það bíður þá þangað til klukkan er orðin.
Rútan fer á slaginu hálf níu og ef barn er
ekki komið hafa foreldrarnir um tvennt
að velja, að hafa barnið heima eða keyra
sjálf með það í sveitina. Rútan sem börnin
fara með er alltaf sú sama og sömuleiðis
bílstjórinn og leikskólakennararnir sex sem
fara með börnunum og eru með þeim yfir
daginn. Á leiðinni í sveitina er lesin saga en
þegar þangað er komið fara allir út að leika
sér. Svæðið er stórt og kirfilega afgirt, og
leikskólasvæðið er fast við bóndabæ þar sem
eru hross, fé og svín.
Er dagurinn skipulagður?
Nei, mjög lítið. Þarna er margt hægt að
gera en börnin verða sjálf að hafa ofan af fyrir
sér. „Stóra“ fólkið stýrir mjög lítið. Hópurinn
skiptist eiginlega í þrjár deildir, 25 börn í
hverri, og hver deild fær einu sinni í viku
svokallaðan báldag.
Báldag?
Já. Á svæðinu er lítið hús þar sem er
kveikt bál og börnin skera niður grænmeti
og sjá svo um eldamennskuna. Stundum er
líka poppað og þá er hinum deildunum boðið
með. Þetta er mjög skemmtilegt og það finnst
alltaf á lyktinni af fötunum þegar verið hefur
báldagur.
Vel á minnst – hafa þau föt til skiptanna
með sér?
Þau hafa skáp þar sem þau geyma föt til
skiptanna ef á þarf að halda og líka regnföt og
þess háttar.
Mjög mikið eftirlit
Tíðindamaður Skólavörðunnar var viðstadd-
ur einn daginn þegar rútan kom til baka
með Úlf og öll hin börnin. Þegar hleypt er
út úr rútunni, rétt fyrir fjögur, stendur einn
kennarinn með ,,kladda“ og kallar upp nafn
barns sem stendur í dyrum rútunnar og
þá gefur sig fram einhver sem starfsfólkið
þekkir (foreldri, eða afi og amma) og tekur við
barninu. Ef enginn er til að taka við barninu
fer það með einum kennaranna inn í húsið
þar sem vuggestuen er og bíður þar eftir
þeim sem sækir, en börnin mega vera þar til
klukkan fimm. Þegar lagt er af stað er merkt
við börnin á sama hátt, og greinilegt að þarna
er mjög nákvæmt eftirlit.
Á síðasta ári leikskólagöngunnar
eru börnin í svokallaðri skolegruppe
sem er undirbúningur fyrir að byrja í
„Á leiðinni í sveitina
er lesin saga en þegar
þangað er komið fara
allir út að leika sér.“
Uppbrot í námi leikskólabarna er algengt í Kaupmannahöfn – með þeim hætti að börnin eyða ákveðn-
um tíma mánaðar utanbæjar.