Skólavarðan - 2017, Qupperneq 56
56 HAUST 2017
Fjóla Þorvaldsdóttir segir Íslendingasögur
hafa verið í mestu uppáhaldi í grunnskóla.
Hún hlakkar til jólanna og væri til í að
kenna þjóðinni gildin kærleika, virðingu,
þakklæti og umburðarlyndi
HVER: Ég er fædd og uppalin á Akranesi
og á ættir að rekja þangað og á Strandir.
Ég hef búið lengst um ævina í Kópavogi.
Ég er leikskólasérkennari í leikskólanum
Álfaheiði í Kópavogi og varaformaður Félags
leikskólakennara. Ég er nú um stundir í
námsleyfi og er að rembast við að klára
meistaraverkefnið mitt.
Hvað er efst á baugi hjá Félagi
leikskólakennara þessa dagana? Þetta
starfsár okkar er helgað nokkrum
meginverkefnum. Við höldum áfram að
leita leiða til að gera leikskólakennaranám
eftirsóknarverðara með það að markmiði
að fjölga leikskólakennurum.
Við ætlum að fjalla um menntun án
aðgreiningar í leikskólum og komast að því
hvað hugtakið þýðir og hvernig við getum
unnið að því að gera leikskólann fyrir öll
börn. Við viljum vekja athygli sveitarstjórn-
armanna á því að börn í leikskólum þurfa
aukið rými og að fjölga þarf undirbúnings-
tímum leikskólakennara. Samhliða þessu
ætlum við að undirbúa aðalfund félagsins.
Eitthvað annað sem er spennandi eða
brýnt fram undan hjá FL? Við munum í
vetur sjá afrakstur nokkurra verkefna sem
við höfum unnið að undanfarin ár. Við
ætlum að vekja meiri athygli á tilrauna-
verkefninu okkar um hljóðvist í leikskól-
um og það verður spennandi að fylgjast
með karlkyns nemunum sem við erum
að styðja sérstaklega til náms. Svo verða
kosningar hjá okkur á vormánuðum þar
sem við kjósum nýja forystu í félagið, en
það er gert á 4 ára fresti.
Hvernig leggst veturinn í þig? Veturinn
leggst vel í mig, ég held að þjóðin sé farin
að skilja að það þurfi að gera átak í að
reisa við menntakerfið.
Hlakkarðu til jólanna? Jólin eru uppá-
halds, sérstaklega af því að núna bý ég við
þau forréttindi að vera áhyggjulaus – þarf
bara að mæta á réttum tíma í mat hjá
börnunum. Jól með börnum, tengdasyni
og ömmustrákunum mínum tveimur eru
sérlega skemmtileg.
Í hvaða klúbbum ertu? Ég er í nokkrum
vinahópum þar sem fólk hefur svipuð
áhugamál, t.d. saumaklúbbum sem ekkert
er saumað í, og svo hitti ég reglulega
tækninörda sem er sérlega gaman að leika
sér með. Svo má ekki gleyma Þrastavina-
félaginu sem hefur starfað í rúm þrjátíu
ár.
Hvaða bók er á náttborðinu? Sagan af
barninu sem hvarf eftir Elenu Ferrante
og Supporting Information and Comm-
unications Technology in the Early Years
eftir John Siraj-Blatchford og David
Whitebread.
Hvert var uppáhaldsfagið þitt í
grunnskóla? Saga þótti mér skemmtileg
en Íslendingasögurnar voru í mestu
uppáhaldi alla tíð.
Hundur eða köttur? Hundur þó svo að
Dalía mín sé óþekkasti hundur sem sögur
fara af.
FÉLAGINN FJÓLA ÞORVALDSDÓTTIR (55 ÁRA ÞAR TIL Á DEGI ÍSLENSKRAR TUNGU)
HEFUR GAMAN AÐ ÞVÍ AÐ LEIKA SÉR
MEÐ TÆKNINÖRDUM