Börn og menning - 01.04.2013, Blaðsíða 16

Börn og menning - 01.04.2013, Blaðsíða 16
16 Börn og menning Seinni kafli: Sagan 2.1 Sagan af Líneik og Laufey Söguna af Líneik og Laufey skoða ég eins og hún birtist í þjóðsagnasafni Einars Ólafs Sveinssonar.13 Hér á eftir mun ég rekja söguna lauslega en athuga síðan hvort henni megi lýsa með rannsóknarlíkönum Propps og Greimas. Enda þótt ævintýri þetta sé íslenskt tilheyrir það nokkurn veginn sama hópi ævintýra og voru í safni Afanasevs. Hér er því ekki farið inn á nýjar brautir, fremur athugað hvort frásagnarliðir Propps verði fluttir út, hvort þeir eigi erindi víðar en við rússnesk ævintýri. í upphafi ævintýrisins er sagt frá kóngi og drottningu (báðum ónefndum) og börnum þeirra, Sigurði og Líneik. Allt er í himnalagi hjá þessari vísitölufjölskyldu uns drottning deyr. í andarslitrunum nær hún að gefa konungi ráð: leitaðu þér ekki nýrrar drottningar í smábæjum eða úteyjum heldur í stórborgum og þjóðlöndum. Konungur tregar konu sína svo mjög að hann sinnir ekki stjórn ríkisins og æðsti ráðgjafinn biður hann herða upp hugann og leita sér nýs kvonfangs. Felur konungur honum það verkefni og ráðgjafinn heldur af stað en lendir í hafvillum og kemur að eyðieyju einni. Þar finnur hann forkunnarfagra konu og stelpukorn. Kveðst konan heita Blávör og vera drottning en telpan sé Laufey, dóttir hennar. Biður ráðgjafinn hennar þegar til handa kóngi og halda þau til konungsríkis hans. En þegar konungur og Blávör eru gift þykknar í lofti. Hann hefur ekki sinnt börnum sínum eða loforði sínu og Blávör gerist nú einráð mjög og drottnunargjörn auk þess sem hirðmenn taka að hverfa. Að lokum sendir Blávör konung úr landi að heimta skatta og ferst hann í þeirri ferð. Áður hefur hann þó gefið börnum sínum ráð hvernig þau megi komast undan ef hann eigi ekki afturkvæmt: að flýja á laun og fela sig f tveimur holum trjám. Þau fylgja ráðum hans en Blávör eltir þau og sýnist þeim hún líkari trölli en manni. En þau sleppa frá henni með því að kveikja í skógi einum svo að Blávör kemst ekki yfir. Nú víkur sögunni til Grikklands þar sem annar kóngur ræður ríkjum og á tvö börn (ónefnd). Kóngssonur er hermaður mikill og afræður að biðja sér Líneikar. En Blávör er viðbúin og blekkir hann til að halda að Laufey sé Líneik. Á heimleið lendir hann einnig í hafvillum, finnur trén hin fögru sem Sigurður og Líneik eru falin í og hefur þau með sér. Fær hann síðan Laufey það verkefni að gera þrennan klæðnað handa sér, bláan, rauðan og grænan, og á hún að gera öll klæðin fyrir brúðkaup þeirra. En það getur Laufey ekki því að skömmin hún Blávör hefur trassað að kenna henni hannyrðir. En þá koma trén til sögunnar. Þau eru geymd í svefnherbergi Laufeyjar og inni í þeim Sigurður og Líneik. Sigurður vorkennir Laufey og fær Líneik til að fara út úr trénu og hjálpa henni. Hún gerir það þó að treg sé til og það endurtekur sig með rauða klæðnaðinn en þegar þær sitja við hin þriðju vindur kóngssonur sér inn og kemur að þeim við klæðagerðina. Nú kemst allt upp og kóngssonur er Laufey reiður en hún ber af sér sakir og kveður Blávöru vera tröll sem hafi numið hana brott og hótað henni lífláti ef hún samsinnti ekki öllum hennar orðum. Sjálf sé hún kóngsdóttir. Síðan hafi Blávör blekkt ráðgjafann og sé nú önnum kafin við að éta hirðmenn konungs til að geta byggt ættjörð Sigurðar og Líneikar tröllahyski sínu. Kóngssonur og Sigurður halda þegar af stað með óvígan her, koma Blávöru á óvart og drepa hana. Síðan giftist kóngssonur Líneik, Sigurður fær systur hans en Laufey fær sæmilegt gjaforð og tekur við eigin föðurleifð. Og lýkur þar sögu. 2.2 Hér mætast sagan og frásagnarlíkön þeirra félaga Þetta var sagan og er hún sennilega flestum kunnugleg. Hefði Propp eflaust kannast við ýmislegt sjálfur því að hún passar mjög vel inn í frásagnarmynstur hans. Hún hefst á dauða drottningar sem samsvarar fyrsta frásagnarlið Propps. Um leið kemur fram bann (frásagnarliður 2) sem síðan er brotið (frásagnarliður 3) þegar ráðgjafinn lendir í hafvillum og lætur blekkjast af Blávöru. Segja má að í frásögninni sé næstu tveimur frásagnarliðum sleppt (þorparinn bruggar launráð og fær veður af fórnarlambinu) en síðar í sögunni koma þeir fram. Blekkingin (frásagnarliður 6) er hins vegar ótvírætt með og bæði ráðgjafinn og kóngurinn ganga f gildruna (frásagnarliður 7). Þá er komið að ódæðinu, skorti fjölskyldumeðlima og brottrekstri þeirra (frásagnarliðir 8, 8a og 9). Ódæðið er eiginlega tvöfalt, bæði ráðríki Blávarar og hvarf hirðmannanna og síðan drukknun konungsins. Skorturinn kemur hins vegat fram í því að konungur gleymir að sinna 13 íslenskar þjóðsögur og ævintýri, 421 -429.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.