Börn og menning - 01.04.2013, Blaðsíða 29

Börn og menning - 01.04.2013, Blaðsíða 29
Að beisla úlfinn hið innra 29 úlfslíki) hafa ýmsir höfundar leikið sér með mismunandi útfærslur á ástandinu, eiginleikum þess og áhrifum utanaðkomandi þátta, t.d. hvernig vampírur spjara síg andspænis hvítlauk og sólskini. í tilfelli varúlfanna hans Stefáns Mána er það ekki fullt tungl sem beinlínis orsakar umbreytingu eins og oft hefur fylgt varúlfamýtunni heldur getur hvers konar uppnám og andlegt ójafnvægi komið henni af stað; með skarpri meðvitund og réttri tækni getur úlfurinn sjálfur náð valdi á aðstæðunum. Þannig er vægi vilja og persónuleika aukið á kostnað náttúruafla og duttlunga örlaganna, sem er áhugavert með tilliti til persónusköpunar sögunnar. Það þýðir sömuleiðis að ekki tjóir að loka viðkomandi bara inni þegar tungl er fullt, þar sem hinn innri úlfur getur hvenær sem er mánaðarins brotist út næsta óforvarandis - ábyrgð hvers og eins er því míkil að læra að þekkja eigin skapsmuni, bera kennsl á varasamar aðstæður og tilfinningar og verða fyrri til að ná stjórninni. Utangarðsfólk og jafningjastuðningur Sögusvið Úlfshjarta er enginn skáldaður fantasíuheimur heldur Reykjavík nútímans, hversdagsleg að öðru leyti en því að stöku varúlfurleynistinnan umfjöldann. Söguhetjan er Alexander, nítján ára Reykjavíkurstrákur, einfari og varúlfur sem alla tíð hefur upplifað sig utangarðs án þess þó að hafa framan af haft á því haldbæra skýringu. Eflaust þekkja flestir unglingar slíka líðan af eigin raun: hvað stundum getur verið snúið að vera „ég" og finna samhljóm með fólkinu í kring, jafnvel eigin fjölskyldu og gömlum vinum. Líkaminn gengur í gegnum allskonar breytingar og geðsveiflur aukast. Þetta gengur þó lengra í tilfelli Alexanders en flestra jafnaldra hans, en þegar sagan hefst er hann farinn að taka eftir ýmsum breytingum í eigin fari, þó varla beinlínis grundvallarbreytingum, heldur frekar líkt og ýmsir eiginleikar og skilningarvit séu að magnast upp og skerpast ótrúlega. Um leið er hann að kynnast Védísi, stelpu sem hann hefur lengi verið spenntur fyrir og er einnig félagslega einangruð og á erfitt með að tengjast öðrum í kringum sig. Alexander kann lítið að fara með hina nýfundnu krafta, hvað þá veikleikana og stjórnleysið sem þeim fylgja, en til allrar hamingju kemst hann í samband við meðlimi í íslandsdeild Samtaka nafnlausra varúlfa - Werewolves Anonymous - sem eru boðnir og búnir að veita fræðslu og stuðning. Það er eflaust meðvitað af hálfu höfundar að félagsskapur varúlfanna minnir meira en lítið á AA-samtökin: boðskapurinn er, í hnotskurn, að temja sér auðmýkt og æðruleysi gagnvart öflum sterkari manni sjálfum og læra að þekkja sjálfan sig nógu vel til að geta af fremsta megni beislað skuggahliðarnar sem ólga hið innra. Barátta góðs og ills Sagan er skemmtileg og spennandí, ágætlega skrifuð og flæðir vel. Kápan er flott, með mynd af gapandi úlfskjafti sem er eins og stensluð með svörtu á steinvegg - þótt varúlfaminnið sé fornt að uppruna er Úlfshjarta nútíma- og borgarsaga og gerist að hluta í undirheimum Reykjavíkur, sem Stefán Máni hefur áður nýtt sem sögusvið í mörgum fyrri verkum sínum. Titill bókarinnar minnti mig strax á Hundshjarta eftir Mikhaíl Búlgakov, en þar segir frá afleiðingum ígræðslu hundshjarta í mann. Ekki fer eins bókstaflega fyrir úlfshjartanu í samnefndri bók en að vissu leyti má segja að um ástarsögu sé að ræða, auk sögu þroska og uppvaxtar persónanna. Ég er löngu hætt að geta lesið eða horft á nokkurn skapaðan hlut án þess að spá í kynjahlutverk sögupersóna, finnst það reyndar sérlega mikilvægt þegar kemur að bókum fyrir börn og unglinga, og reyndar verður að segjast að Úlfshjarta fellur á þriðja og síðasta prófsteini Bechdel- prófsins svokallaða - þó að nafngreíndar kvenpersónur sögunnar séu fleiri en ein (fyrsti prófsteinn), og tali saman í sögunni (annar prófsteinn), þá eru umræðuefnin svo gott sem einskorðuð við stráka (falleinkunn). Samtölin eru þó vel skrifuð og frumleg, sérstaklega samtal Védísar við mömmu sína, og þetta er heldur engin dauðasynd þegar litið er til þess að Védís er algjör töffari og samskipti þeirra Alexanders falla ekki í neinar alltof týpískar gryfjur. Annað sem ég velti óhjákvæmilega fyrir mér við lestur bóka ætlaðra unglingum er hvort unglingar tali nú raunverulega svona eða hinsegin og geri þetta eða hitt - skýrt merki þess að ég hafi sjálf tapað tengslum við þennan raunveruleika - en hvað sem þvi líður finnst mér Alexander og Védís vera sannfærandi persónur, því það eru unglingar auðvitað fyrst og fremst. Og svo vona ég að það sé ekki úr lausu lofti gripið að krakkar séu enn að hlusta á Smashing Pumpkins! Annað sem telja má persónusköpun Úlfshjarta til hróss er að mörk söguhetjanna og „vondu kallanna" eru ekki alltaf fullkomlega skýr og hinir síðarnefndu heldur ekki of hreinræktuð og „af því bara" illmenni; líkt og í tilfelli söguhetjanna hefur fortíðin mótað þá og varpar að einhverju leyti Ijósi á útkomuna, en jafnframt er Ijóst að þeir hafa sjálfir tekið ákvarðanir, valið sína braut og hvernig þeir unnu úr reynslunni. Það er enda sígilt að fantasíubókmenntir fáist við átök góðra og illra afla, og klárlega einkenni góðra slíkra bókmennta að kafa eilítið dýpra með því að fást við þá mótsagnakenndu krafta sem búa innra með hverjum og einum og skapa átök sem geta leitt til ýmist góðra eða vondra verka. „Boðskapur" er kannski hálfgert bannorð þegar kemur að bókmenntum, en þó að mér finnist í raun ekki votta fyrir predikunartóni í sögunni þykir mér það vægi sem sjálfsábyrgð hefur í textanum vera fyrirtaks boðskapur - eða bara skilaboð — til ungra lesenda. Burtséð frá smáatriðum á borð við varúlfagen er alltaf hollt að horfast í augu við eigin takmarkanir, hugleiða hversu vel fólk ræður við eigin hversdag og þær aðstæður sem það hefur skapað sér. Stefán Máni hefur hér skapað áhugaverðan söguheim og skemmtilegar persónur sem vinna mætti áfram með. Þótt sagan hafi ekki beinlinis skilið eftir lausa enda eru í henni ýmsir þræðir, svo sem samband Védísar við pabba sinn og hið ævilanga verkefni sem Alexander á fyrir höndum við að beisla sinn innri úlf, sem bjóða upp á að kafað sé dýpra í þá - og samanburðinum við Twilight og Hungurleika-seríurnar fylgir óneitanlega sú spurning hvort framhalds eða jafnvel þrileiks geti verið að vænta. Höfundur er bókmenntafræðingur

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.