Studia Islandica - 01.06.1986, Blaðsíða 174
172
en ekki þolandi. Stórbóndasonur, Þorsteinn að nafni, fellir
hug til bláfátækrar vinnustúlku, Jóhönnu. Þau mæta harðri
andstöðu móður piltsins, Borghildar, sem gegnir svipuðu
hlutverki í sögunni og Þuríður í Kœrleiksheimilinu. Ættar-
dramb, stéttarhroki og skapgerðarbrestur reka hana til ill-
verka. í fyrstu reynir hún að þvinga stúlkuna til að játast
öðrum manni. Þorsteinn hefur hins vegar, ólíkt Jóni, syni
Þuríðar, bein í nefinu og gerir uppreisn, flytur ástkonu
sína í Heiðarhvamm, þar sem hún deyr af barnsförum,
óbeinlínis af völdum Borghildar.
Svipaður harmleikur á sér stað í þriðja sögustrengnum
(4. og 5. hluta), þar sem lýst er „risi“ og „falli“ þeirra systk-
ina, Borghildar og Péturs á Krossi. Á yngri árum hafði
Pétur gert álíka uppreisn og Þorsteinn, sagt skilið við efni
og ætt, tekið sér fátæka konu og hafið kotabúskap við bág
kjör. Kona hans hafði dáið og hann staðið eftir með fjögur
börn, bjargarlaus. í stað þess að segja sig til sveitar hafði
hann gripið til óyndisúrræða, skipulagt sauðaþjófnað
ásamt „undirmálsfólki“, en þó ekki stolið nema frá ríkis-
bændum. Þegar glæpurinn kemst upp tekur hann inn eitur
og deyr með harmkvælum.
Pétur á Krossi er meðvitaðasti uppreisnarmaður sagna-
bálksins: gegn kúgandi samfélagsboðum, fyrir rétti ein-
staklingsins til að elska — og lifa. Hann setur ástina til konu
sinnar og barna ofar lögunum — og fellur, alla tíð meðvit-
aður um athafnir sínar. Saga Þorsteins er að sumu leyti lík,
eins og fyrr segir. Einnig hann gerir uppreisn gegn því
valdboði, sem Borghildur er fulltrúi fyrir. Líkt og Pétur
hrekst hann úr samfélagi sínu, hverfur úr sveitinni og end-
ar í kaupstað. Andstætt Pétri bognar hann hins vegar und-
an farginu og reynir að drekka sig í hel. Drykkjuskapur
hans felur þó í sér afneitun og storkun, líkt og hjá Geir-
mundi í Upp við fossa.
Þorsteinn kemst af helbrautinni að lokum, því samhliða
falli Péturs brotnar Borghildur. Örlög hennar eru einnig
harmræn, því þótt hún gegni hlutverki hins „hræsnisfulla